Ferill 812. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1758  —  812. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (skilvirkari framkvæmd).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Jón Þór Þorvaldsson frá félagsmálaráðuneyti, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Dagnýju Aradóttur Pind frá BSRB, Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd og Sverri Berndsen og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Persónuvernd og Vinnumálastofnun.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem miða að því að gera lögin skýrari og framkvæmd þeirra skilvirkari en nú er.

Upplýsingaöflun frá lögreglu (1. gr.).
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lögreglu verði bætt við í upptalningu 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, á þeim aðilum sem Vinnumálastofnun er heimilt að kalla eftir upplýsingum frá við framkvæmd laganna. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að skortur væri á tilgreiningu í frumvarpinu á því hvaða tegundum upplýsinga Vinnumálastofnun væri heimilt að kalla eftir frá lögreglu. Slík vinnsla persónuupplýsinga þyrfti að byggjast á heimild í 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og ef um væri að ræða miðlun upplýsinga um refsiverða háttsemi þyrfti vinnsla Vinnumálastofnunar einnig að byggjast á heimild í 1. mgr. 12. gr. sömu laga, þ.e. að hún sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fari með.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram þær skýringar að þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun kunni að þurfa frá lögreglu séu upplýsingar sem nýtist í eftirliti með greiðslum atvinnuleysisbóta. Helst sé átt við upplýsingar sem lögregla verði áskynja um í eftirlitsferðum með öðrum eftirlitsaðilum á vinnumarkaði, t.d. Skattinum og Vinnueftirlitinu. Ef lögregla hefur verið kölluð á vinnustað skortir Vinnumálastofnun heimild til að fá upplýsingar um það. Einnig getur stofnunin þurft á upplýsingum að halda sem lúti að ólöglegri dvöl einstaklinga í landinu og hvort einstaklingar stundi vinnu á meðan þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur sem dæmi. Lögregla kunni einnig að hafa upplýsingar um brottfarir atvinnuleitenda sem grunur leikur á að séu staddir erlendis og jafnvel fluttir af landi brott. Vinnumálastofnun sé nauðsyn á að hafa upplýsingar um slíkt, enda er eitt af skilyrðum fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé staddur á Íslandi, sbr. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Vinnumálastofnun hafi þegar heimildir til að fá upplýsingar frá lögreglu í annarri löggjöf sem stofnunin hefur eftirlit með framkvæmd á, t.d. lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, lögum um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, og lögum um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010. Framangreind löggjöf heimilar Vinnumálastofnun að nýta aðstoð og óska eftir upplýsingum frá lögreglu og að mati Vinnumálastofnunar er með 1. gr. frumvarps þessa tekið fyrir allan vafa um heimild stofnunarinnar til að nýta þær upplýsingar við eftirlit með bótagreiðslum við framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar, án þess að þurfa að leita eftir slíkum heimildum utan laga um atvinnuleysistryggingar.
    Meiri hlutinn tekur undir að mikilvægt sé að Vinnumálastofnun hafi aðgang að upplýsingum frá lögreglu sem nýtist í eftirliti með greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, t.d. upplýsingar úr eftirlitsferðum lögreglu á vinnustaði og upplýsingar um hvort atvinnuleitendur, sem grunur leiki á að séu erlendis, séu á landinu eða ekki. Upplýsingarnar séu nauðsynlegar til að Vinnumálastofnun geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu við eftirlit með framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar.

Viðurlög vegna ótilkynntrar vinnu og svartrar vinnu (8. gr.).
    Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að vegna álags sem væri á Vinnumálastofnun vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónuveiru vöknuðu spurningar um það hvort stofnunin gæti sinnt þeirri skyldu að upplýsa atvinnuleitendur um viðurlög við brotum gegn lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Því væri þörf á að lengja þann tímafrest sem lagður er til í 8. gr. frumvarpsins úr fjórum vikum í átta vikur til að tryggja að einstaklingur hafi fengið fullnægjandi upplýsingar um gildandi reglur og viðurlög við brotum á þeim.
    Nefndinni bárust þær skýringar frá Vinnumálastofnun að aukið álag vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi ekki áhrif á getu stofnunarinnar til að sinna skyldum sínum um upplýsingagjöf til atvinnuleitenda um réttindi þeirra og skyldur. Kynning stofnunarinnar á réttindum og skyldum atvinnuleitenda fari víða fram og upplýsingagjöf sé fullnægjandi að mati stofnunarinnar þegar atvinnuleitendur sækja um atvinnuleysisbætur. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur sem hefur verið skráður atvinnulaus í fjórar eða átta vikur hefur ekki fengið ítarlegri kynningu á skilyrðum laganna heldur en sá sem hefur verið skráður atvinnulaus í eina viku. Vinnumálastofnun telji að með því að loka á beitingu viðurlaga vegna bótasvika á fyrstu fjórum vikum þess sem einstaklingur hefur verið skráður án atvinnu, líkt og lagt sé til í 8. gr. frumvarpsins, geti vaknað spurningar um jafnræði milli umsækjenda, þar sem tveir einstaklingar sem verða uppvísir að sama broti kunni að fá mismunandi meðferð og viðurlög eftir því hvenær þeir hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta. Í ljósi framangreinds leggst Vinnumálastofnun gegn því að beiting úrræðisins verði háð tiltekinni tímalengd á atvinnuleysisbótum.
    Þrátt fyrir framangreint telur meiri hlutinn rétt að miða við að tryggður aðili hafi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í fjórar vikur eða lengur líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir og þannig sé tryggt að þeir sem skráðir eru án atvinnu hjá Vinnumálastofnun hafi verið upplýstir með fullnægjandi hætti um þau viðurlög sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Í þessu sambandi telur meiri hlutinn mikilvægt að Vinnumálastofnun upplýsi atvinnuleitendur með ítarlegum hætti um hert viðurlög vegna brota. Meiri hlutinn beinir því til Vinnumálastofnunar að tryggja að slíkar upplýsingar berist atvinnuleitendum með tryggum hætti.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Helga Vala Helgadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara.
    Guðmundur Ingi Kristinsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 19. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir
frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson,
með fyrirvara.
Lilja Rafney Magnúsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson.
Vilhjálmur Árnason. Vilhjálmur Bjarnason.