Ferill 838. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1759  —  838. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018 (notendaráð).

Frá velferðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ernu Kristínu Blöndal og Þór G. Þórarinsson frá félagsmálaráðuneyti, Bryndísi Snæbjörnsdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Sigurjón Unnar Sveinsson og Rúnar Björn Herrera Þorkelsson frá Öryrkjabandalagi Íslands, Guðjón Bragason og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Efni og markmið frumvarpsins.
    Í 7. gr. gildandi laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, er kveðið á um skilyrðislausa skyldu félagsmálaráðuneytis til að leita umsagnar notendaráðs þar sem starfsemi fer fram, óháð því hvort um sé að ræða lögaðila sem hefur með höndum rekstur þjónustu við fatlað fólk eða fatlaðan einstakling sem kýs sjálfur að sjá um umsýslu eigin samnings um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Í framkvæmd hefur þessi skylda valdið ýmsum erfiðleikum og í sumum tilvikum hefur reynst ómögulegt að veita starfsleyfi.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að í stað skyldu til að leita umsagnar notendaráða í öllum tilfellum þegar sótt er um starfsleyfi á grundvelli 7. gr. laganna verði lagt fyrir ráðherra að útfæra samráð við notendaráð fatlaðs fólks í reglugerð. Eftir sem áður ber ráðherra að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök launafólks við gerð slíkra reglna. Markmið frumvarpsins er því að leysa úr framangreindum ómöguleika sem upp hefur komið við framkvæmd laganna.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram sjónarmið um að þrátt fyrir að skilyrðislaus skylda ráðuneytisins til að leita umsagnar notendaráðs í því sveitarfélagi sem um ræðir sé felld brott sé það ávallt mikilvægt að samráð sé haft við notendaráð og/eða við samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks þegar fjallað er um málefni og stuðningsþarfir fatlaðs fólks. Þá kom fram það sjónarmið að mikilvægt væri að innan notendaráðs væru þeir einstaklingar sem nýta þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, en ekki bara starfsmenn hagsmunasamtaka þeirra.
    Nefndin tekur undir framangreind sjónarmið og beinir því til ráðuneytisins að taka tillit til þeirra í vinnu sinni.
    Þá kom fram það sjónarmið fyrir nefndinni að í kjölfar gildistöku laga nr. 38/2018 hafi komið upp óvissa um fyrirkomulag samráðs við hagsmunasamtök notenda fötlunarþjónustu. Óvissuna mætti rekja til þess að í lagasetningarferlinu var ákveðið að ramminn um fyrirkomulagið væri í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, fremur en lögum nr. 38/2018. Kveðið væri á um samráðshópa um málefni fatlaðs fólks í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, en í lögum nr. 38/2018 væri kveðið á um að leita skuli umsagnar notendaráðs sveitarfélaga. Sú óvissa sem hafi komið upp birtist í því að um mismunandi aðila væri að ræða. Þannig ætti bæði að starfrækja samráðshóp og notendaráð. Það sjónarmið kom fram að kveða ætti á um í reglugerð, settri á grundvelli 7. gr. laga nr. 38/2018, ef frumvarpið næði fram að ganga, að framangreindir samráðshópar um málefni fatlaðs fólks ættu að vera notendaráð sveitarfélaga.
    Nefndin tekur undir að samráðshópar um málefni fatlaðs fólks samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga geti verið heppilegur vettvangur fyrir notendaráð sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 38/2018. Nefndin telur þó að veita eigi sveitarfélögum svigrúm til að útfæra þennan vettvang notendasamráðs eftir aðstæðum í hverju sveitarfélagi og gæti þar komið til skoðunar að samráðshópur samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga kæmi fram sem notendaráð í þessum skilningi.
    Við umfjöllun nefndarinnar komu fram ábendingar um úrbætur sem mætti skoða varðandi aðra þætti laga nr. 38/2018, þar á meðal ábendingar um endurskoðun lagaákvæða um sérfræðingateymi og um hlutdeild notenda í fæðiskostnaði.
    Nefndin áréttar að efni frumvarpsins er afmarkað við notendaráð, en beinir því til ráðuneytisins að skoða þær ábendingar sem nefndinni hafa borist og hvort efni sé til að endurskoða ákvæði laganna með tilliti til þeirra.
    Einnig kom fram það sjónarmið við umfjöllun nefndarinnar að misbrestur sé á því að notendaráði hafi verið komið á fót í öllum sveitarfélögum.
    Nefndin telur mikilvægt að notendaráð séu starfandi innan sveitarfélaga og beinir því til ráðuneytisins að hvetja sveitarfélög til að koma slíkum ráðum á fót enda hafi þau mikilvægu hlutverki að gegna.
    Fyrir nefndinni komu einnig fram þau sjónarmið að eðlilegt væri að aðilar sem ættu sæti í notendaráðum fengju greitt fyrir störf sín þar. Nefndin telur eðlilegt að þau mál séu skoðuð nánar af hlutaðeigandi aðilum.
    Í ljósi þess að um er að ræða nauðsynlega breytingu til að leysa úr framangreindum annmarka sem í ljós hefur komið við framkvæmd laganna við veitingu starfsleyfa leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Helga Vala Helgadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson og Halldóra Mogensen rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara.
    Guðmundur Ingi Kristinsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Alþingi, 19. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir
frsm.
Halldóra Mogensen,
með fyrirvara.
Anna Kolbrún Árnadóttir,
með fyrirvara.
Guðmundur Ingi Kristinsson,
með fyrirvara.
Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Ólafur Þór Gunnarsson. Vilhjálmur Árnason. Vilhjálmur Bjarnason.