Ferill 940. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1765  —  940. mál.
Beiðni um skýrslu


frá félags- og barnamálaráðherra um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í fasteignum og um réttarstöðu eigenda þeirra.

    Frá Halldóru Mogensen, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Birni Leví Gunnarssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Ingu Sæland, Jóni Þór Ólafssyni, Smára McCarthy og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.


    Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að félags- og barnamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um rakaskemmdir í fasteignum og um réttarstöðu eigenda þeirra. Í skýrslunni komi eftirfarandi fram:
     1.      Hvað er vitað um ástæður þess að húseignir á Íslandi skemmast af völdum raka? Er skýringa að leita í aldri bygginga, byggingarefni, hönnun, handvömm á byggingartíma, einangrun eða skorti á viðhaldi og eftirliti?
     2.      Hver er réttarstaða einstaklinga sem verða fyrir tjóni af völdum rakaskemmda og myglusvepps í samanburði við nágrannalöndin? Hver er ábyrgð seljanda fasteignar, fagaðila við byggingarstarfsemi, seljanda byggingarefnis og eftirlitsaðila með byggingarframkvæmdum?
     3.      Hvernig er unnt að bæta réttarstöðu þeirra sem verða fyrir slíku tjóni og auka tryggingavernd vegna þess mikla kostnaðar og heilsutjóns sem rakaskemmdir í húsum hafa í för með sér? Er fyrirhugað að koma á byggingargallatryggingu við nýbyggingar og eigendaskiptatryggingu við kaup og sölu á fasteignum að danskri fyrirmynd?

Greinargerð.

    Lítið er til af heildstæðum upplýsingum um rakaskemmdir og myglu í fasteignum og um áhrif þeirra á þá sem þar dvelja. Með þessari skýrslubeiðni er þess farið á leit að teknar verði saman ástæður rakaskemmda í fasteignum og að áhrif á einstaklinga verði metin, bæði heilsufarsvandi og kostnaður vegna þessa. Flutningsmenn vona að svörin nýtist til þess að áætla umfang vandans og varða leiðina til þess að útrýma þessum vágesti og bæta réttarstöðu þeirra sem verða fyrir slíku tjóni.
    Áþekk skýrslubeiðni var lögð fram á 149. löggjafarþingi og var hún umfangsmeiri og beint til forsætisráðherra. Þeirri skýrslubeiðni hefur nú verið skipt í þrennt og beint til þeirra ráðherra sem fara með málefnasvið sem rakaskemmdir í fasteignum og áhrif þeirra falla undir, þ.e. til félags- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.