Ferill 902. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1769  —  902. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um tollverði á Austurlandi.


     1.      Hversu mörgum tollvörðum hefur verið sagt upp störfum í kjölfar sameiningar embætta ríkisskattstjóra og tollstjóra og hversu margir þeirra eru búsettir á Austurlandi?
    Engum tollverði var sagt upp í kjölfar sameiningar embættanna. Sökum verkefnaskorts og tekjumissis vegna samdráttar í flugumferð til og frá landinu á undanförnum mánuðum vegna COVID-19-faraldursins hefur setning tollvarða sem rennur út 1. júlí nk. hins vegar ekki verið framlengd. Um er að ræða sex tollverði sem hafa starfað á Akureyri, Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík. Tollvörðunum voru boðin önnur tímabundin skrifstofustörf hjá Skattinum sem þeir hafa allir þegið.
    Engum tollverði á Austurlandi hefur verið sagt upp störfum. Tollgæslan hefur eingöngu ráðið einn sumarstarfsmann fyrir sumarið 2020 og er hann staðsettur á Austurlandi og sinnir tollgæslustörfum þar.
    Í þessu sambandi er ástæða til að láta þess einnig getið að Skatturinn hefur ráðið í 17 ný stöðugildi á landsbyggðinni árin 2019 og 2020, á Akureyri, Egilsstöðum, Hellu, Ísafirði og Siglufirði.

     2.      Hversu margir tollverðir koma að afgreiðslu ferjunnar Norrænu í hverri ferð?
    Að jafnaði þarf fjóra til sex tollverði til að sinna tollgæslustörfum vegna ferjunnar Norrænu, allt eftir fjölda farþega og ökutækja í hverri ferð, sem og vegna áhættugreiningar eða sérþekkingar á tækjabúnaði.
    Fjórir starfandi tollverðir eru á Austurlandi og sinna þeir m.a. tollgæslustörfum vegna ferjunnar. Sumarstarfsmaður sem búsettur er á Austurlandi sinnir einnig sömu störfum.
    Lögreglan á Austurlandi hefur verið tollgæslu innan handar vegna tollafgreiðslu ferjunnar og verða lögreglumenn áfram fengnir til að starfa við þá framkvæmd. Ef fleiri tollverði þarf til en til staðar eru hverju sinni, t.d. vegna sumarleyfa, þá verður leitað aðstoðar hjá lögreglumönnum, búsettum á Austurlandi, eða tollverðir sendir frá öðrum starfsstöðvum tollgæslunnar. Í þeim tilfellum þegar sinna þarf annarri vinnu á Austurlandi og tollverðir frá öðrum starfsstöðvum þurfa að fara austur er reynt að miða við að ferðin verði farin þegar Norræna kemur til hafnar svo að hægt sé að nýta krafta þeirra tollvarða við tollafgreiðslu ferjunnar.

     3.      Hvað fóru tollverðir margar ferðir frá suðvesturhorninu til að sinna tollskoðun á Austurlandi hvert ár 2010–2019 og hversu margar slíkar ferðir eru áætlaðar árlega eftir breytingar á starfsmannahaldi Skattsins á árinu 2020?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar kunna tollverðir að vera sendir til Austfjarða vegna annarra verkefna en tollafgreiðslu Norrænu og eru þær ferðir þá skipulagðar á komutíma ferjunnar svo að unnt sé að nýta krafta þeirra tollvarða við tollafgreiðslu hennar.
    Í töflu 1 má sjá ferðir tollvarða frá suðvesturhorninu til Austurlands á tímabilinu 2010– 2019.

Tafla 1.

Fjöldi ferða tollvarða frá suðvesturhorni landsins til Austurlands 2010–2019.

Ár 2010 2011 2012 2013 2014 2015 2016 2017 2018 2019
Fjöldi ferða 14 17 26 25 13 11 18 16 8 32

    Undanfarin tvö ár hefur verið gert átak í tollafgreiðslu og tolleftirliti með ökutækjum í tímabundnum innflutningi og hefur nýtt verklag verið innleitt sem gerir það að verkum að færri starfsmenn þarf til að sinna afgreiðslu þeirra ökutækja. Flest ökutæki í tímabundnum innflutningi koma með Norrænu til Seyðisfjarðar og var ferðum tollvarða austur fjölgað vegna innleiðingar á nýju verklagi árið 2019. Innleiðing þessa verklags hófst síðla árs 2018.
    Frá byrjun árs 2019 hafa skip verið afgreidd rafrænt og hefur innleiðing þess verklags létt á álagi tollvarða við skipaafgreiðslur sem gerir þeim kleift að sinna auknu eftirliti við afgreiðslu Norrænu.
    Fjöldi tollvarða sem senda þarf austur frá öðrum starfsstöðvum vegna komu Norrænu fer eftir fjölda farþega og ökutækja í hverri ferð, viðveru tollvarða á Austurlandi, möguleika á aðstoð lögreglumanna á Austurlandi, sem og greiningar og sérþekkingar á tækjabúnaði. Því er ekki hægt að segja með nákvæmni hversu marga tollverði þarf að senda austur í hverri viku næstu árin. Sem stendur ríkir einnig óvissa með farþegafjölda næstu misserin hjá Smyril Line sökum COVID-19 og er því engin leið að átta sig á fjölda þeirra tollvarða sem senda þarf austur til að vera við tollframkvæmd Norrænu.

     4.      Hver er áætlaður kostnaður við þessar ferðir og hvert er áætlað kolefnisspor þeirra?
    Kostnaður við þessar ferðir er vegna launagreiðslna, flugferða, bílaleigubíla, gistingar og uppihalds. Skatturinn hefur ekki greitt dagpeninga vegna þessara ferða.
    Launakostnaður fer eftir stöðu þeirra tollvarða sem sendir eru hverju sinni og hversu lengi þeir eru að störfum. Tekið skal fram að minni kostnaður hlýst af því þegar lögreglumenn á Austurlandi aðstoða við tolleftirlit eða þegar tollverðir frá Akureyri fara þar sem þeir gista sjaldnast.
    Í júní 2020 kostar flug frá Reykjavík til Egilsstaða u.þ.b. 61.000 kr. á einstakling, báðar leiðir. Þegar pantað er með flugkorti er veittur 17% afsláttur af því verði. Áætlað kolefnisspor með flugi til og frá Egilsstöðum má sjá í töflu 2 (útreikningur frá heimasíðu ICAO 11. júní 2020).

Tafla 2.

Útreikningur á kolefnisspori flugs fyrir einstakling á almennu farþegarými.

Flugferð Eldsneytisnotkun flugvéla (kg) Losun CO2 á hvern farþega (kg)
Reykjavík–Egilsstaðir og Egilsstaðir–Reykjavík 1.987,5 128


    Kostnaður vegna bílaleigubíla fyrir hverja ferð er í kringum 15.000–20.000 kr., en heildarútgjöld fara eftir akstri.
    Þegar gisting er bókuð, er reynt að nýta þá gistingu sem í boði er á Seyðisfirði en annars er bókað á Gistihúsinu á Egilsstöðum eða hótel Valaskjálf. Kostnaður vegna gistingar getur því verið misjafn, eftir bókunarstöðu og árstíð, en er að jafnaði á bilinu 15.000–25.000 kr. Kostnaður vegna uppihalds er yfirleitt á bilinu 3.500–4.000 kr., en það fer þó eftir því hvort morgunmatur er innifalinn í gistingu eða hvort tollframkvæmd við ferjuna dregst fram á kvöld.

     5.      Hafa tollverðir búsettir á Austurlandi sinnt fleiri verkefnum en afgreiðslu ferjunnar og ef svo er, hvaða verkefnum?
    Tollverðir á Austurlandi sinna skipaafgreiðslu og almennu tolleftirliti með þeim skipum og flugvélum sem koma til og frá landinu ásamt farmi þeirra. Þeir sinna einnig farþega- og farmgreiningu með Norrænu, þ.m.t. greiningu á ökutækjum í tímabundnum innflutningi.

     6.      Telur ráðherra að núverandi mannafli á Austurlandi sé nægjanlegur til að sinna tollskoðun þar?
    Með breyttu verklagi sem átt hefur sér stað á ýmsum þáttum tollframkvæmdar á Austurlandi gerir Skatturinn ráð fyrir því að það dugi að hafa fjóra til sex tollverði við tollframkvæmd ferjunnar hverju sinni. Ekki er talin þörf á fleiri en fjórum stöðugildum tollvarða á Austurlandi.

     7.      Er tryggt að tollskoðun geti farið fram á Austurlandi allan ársins hring?
    Fjórir tollverðir eru búsettir og starfandi á Austurlandi og eiga þeir að geta sinnt tollframkvæmd á svæðinu allt árið um kring. Ef þörf er á fleiri tollvörðum en þeim sem eru á staðnum verður leitað aðstoðar hjá lögreglunni á svæðinu, eða frá öðrum starfsstöðvum tollgæslu, t.d. á Akureyri.