Ferill 841. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1771  —  841. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.


    Fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins kynntu frumvarpið fyrir nefndinni. Þeir voru Björn Þór Hermannsson, Katrín Anna Guðmundsdóttir, Jón Viðar Pálmason, Þröstur Freyr Gylfason, Hlynur Hreinsson, Marta Birna Karlsdóttir, Dóróthea Jóhannsdóttir, Kristinn Bjarnason, Sólrún Halldóra Þrastardóttir og Tómas Brynjólfsson. Jafnframt voru kynntar sviðsmyndir um væntanlega afkomu og skuldastöðu ríkissjóðs á þessu og næsta ári.
    Nefndi kallaði til fulltrúa félagsmálaráðuneytis, Gissur Pétursson, Svanhvíti Jakobsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur, og fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Guðrúnu Gísladóttur og Sigríði Valgeirsdóttur.
    Þá fundaði nefndin með fulltrúum Ríkisendurskoðunar um skýrslu um hlutastarfaleiðina sem tengist efni frumvarpsins. Frá Ríkisendurskoðun voru Skúli Eggert Þórðarson, Guðný Jenný Jónsdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Haraldur Guðmundsson.
    Þá fundaði nefndin með umsagnaraðilum. Þeir voru Henný Hinz frá ASÍ, Sigríður Mogensen frá Samtökum iðnaðarins og Skúli Eggert Þórðarson, Guðný Jenný Jónsdóttir og Ingi K. Magnússon frá Ríkisendurskoðun. Frá samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu komu Eybjörg Hauksdóttir, Björn Bjarki Þorsteinsson og Gísli Páll Pálsson og frá Öryrkjabandalagi Íslands komu Þuríður Harpa Sigurðardóttir, Sigurjón Unnar Sveinsson og Bergþór H. Þórðarson.
    Nefndin kallaði einnig til Kristin Þórðarson frá Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Nönnu Elísu Jakobsdóttur frá Samtökum iðnaðarins. Einnig voru á fundi nefndarinnar Ingilín Kristmannsdóttir og Hermann Sæmundsson sem fulltrúar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, og Guðrún Gísladóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Daði Ólafsson og Sigrún Brynja Einarsdóttir, fulltrúar atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, voru kölluð á fund nefndarinnar.
    Loks kom Gunnar Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands á fund nefndarinnar.

Tilefni lagasetningar.
    Í þessu þriðja frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020 er fyrst og fremst verið að gera tillögur um að veittar verði auknar fjárheimildir vegna ákvarðana stjórnvalda um afmarkaðar og tímabundnar ráðstafanir til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19-heimsfaraldursins. Það var einnig tilgangur fyrri fjáraukalaga sem samþykkt voru í lok mars og í maímánuði. Að auki er gerð tillaga um fjárheimild til þess að mæta uppsafnaðri fjárþörf vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á Íslandi.
    Lögð er til breyting á heimildarákvæði vegna stofnfjárframlaga til Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs og til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Fastlega má gera má ráð fyrir að a.m.k. enn annað fjáraukalagafrumvarp verði lagt fram í haust. Þar þarf m.a. að gera ráð fyrir fjárheimildum vegna aukins atvinnuleysis og annars kostnaðar sem tengist heimsfaraldrinum að því marki sem hann rúmast ekki innan almenns varasjóðs.

Meginefni frumvarpsins.
    Umfangsmestu útgjaldaheimildirnar sem óskað er eftir tengjast vinnumarkaðsúrræðum sem nú þegar hafa verið kynnt og leidd í lög eða sérstök frumvörp þess efnis liggja þegar fyrir á Alþingi.
    Samtals nema tillögur um auknar fjárheimildir tæpum 65,2 milljörðum kr. Einnig er lögð til heimild til handa ráðherra til að veita allt að 650 millj. kr. stofnfjárframlag til Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs, sbr. sérstakt frumvarp þar um á þingskjali 1219, og allt að 500 millj. kr. til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins vegna veitingar sérstakra mótframlagslána til sprotafyrirtækja sem orðið hafa fyrir tímabundnum skakkaföllum vegna heimsfaraldursins, sbr. sérstakt frumvarp þar um á þingskjali 1490.
    Eins og fram hefur komið er um að ræða þriðja fjáraukalagafrumvarp ársins og það veigamesta í fjárhæðum talið. Útgjaldaheimildir fjárlaga ársins námu samtals 1.004,2 milljörðum kr. og með tvennum fjáraukalögum og þessu frumvarpi hækka þær samtals um 103,3 milljarða kr. eða um rúmlega 10% frá fjárlögum og nema þá samtals 1.107,5 milljörðum kr.
    Útgjaldatillögurnar eru af fernum toga. Í fyrsta lagi eru 34 milljarðar kr. sem er framlenging á hlutabótaleið, þ.e. greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. sérstök frumvörp þar um, annars vegar um minnkað starfshlutfall á þingskjali 1128 og hins vegar um framlengingu hlutabótaleiðarinnar á þingskjali 1427. Í öðru lagi eru 27 milljarðar kr. vegna greiðslu á hluta launa á uppsagnarfresti, sbr. sérstakt frumvarp þar um á þingskjali 1424. Í þriðja lagi eru rúmir 2 milljarðar kr. vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á Íslandi. Í fjórða lagi eru 2 milljarða kr. greiðsla launa til einstaklinga sem sæta þurftu sóttkví vegna faraldursins, sbr. sérstakt frumvarp þar um á þingskjali 1131.

Vinna nefndarinnar og ábendingar meiri hluta.
    Nefndin hefur farið ítarlega yfir frumvarpið og í tengslum við það kynnt sér skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutastarfaleiðina og fengið kynningu á sviðsmyndum um afkomu- og skuldahorfur ríkissjóðs. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið saman heildstætt yfirlit um fjárhagslegt umfang ráðstafana sem búið er að grípa til bæði á tekju- og gjaldahlið og eru fyrirhugaðar með þessu frumvarpi.

Sviðsmyndir um afkomu ríkissjóðs.
    Á gjaldahlið fjárlaga nema ráðstafanirnar rúmum 100 milljörðum kr. til hækkunar og á tekjuhlið nema þær um 18 milljörðum kr. til lækkunar tekna á rekstrargrunni en vegna frestunar skatta nema þær 66 milljörðum kr. í sjóðstreymi.
    Til viðbótar við aðgerðir stjórnvalda leiða sjálfvirkir sveiflujafnarar til þess að opinber fjármál nýtast við að draga úr niðursveiflunni. Með því er átt við áhrif breyttra efnahagsaðstæðna á tekjur og gjöld ríkisins án sértækrar ákvarðanatöku, viðbragða eða ráðstafana til mótvægis. Dæmi um það er stóraukin útgjöld vegna atvinnuleysis.
    Þegar áhrif af auknu atvinnuleysi og lægri skattheimtu bætast við ráðstafanir stjórnvalda sem m.a. koma fram í þessu frumvarpi þá stefnir í um 250 milljarða kr. lakari afkomu en áætlað var í fjárlögum og 110 milljarða kr. halla á næsta ári. Mikilvægt er að ráðstafanir í ríkisfjármálum á næstu árum miði að því að koma fjármálum hins opinbera í sjálfbæran farveg en standa um leið vörð um velferðarkerfið og samneysluna. Skuldir ríkissjóðs eru lágar, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, í samanburði við flest önnur ríki og vextir lægri en til að mynda eftir kreppuna 2008. Ríkissjóður hér er því í betri stöðu en hjá mörgum öðrum þjóðum og í færum til þess að fjármagna hallarekstur með lántökum og stendur sterkt að því leyti að geta gefið sér tíma til að ná aftur jafnvægi.

Tengsl við önnur frumvörp.
    Meiri hlutinn vekur athygli á því að nær allar breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu tengjast öðrum þingmálum. Efnisleg umræða um einstök mál er því í langflestum tilfellum við umfjöllum þeirra mála en ekki þessa frumvarps.
    Þingmálin um framlengingu hlutabótaleiðar, minnkað starfshlutfall, greiðslu launa á uppsagnarfresti og launagreiðslur í sóttkví hafa nú þegar verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Stofnfjárframlag til Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs byggist á þingmáli nr. 711 og stofnframlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins byggist á þingmáli 843. Alþingi hefur samþykkt lög, nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, og 2 milljarða kr. framlagi í frumvarpinu er ætlað að mæta þeim kostnaði.
    Því byggjast allar tillögur frumvarpsins, fyrir utan tillögu um 2,1 milljarð kr. til að mæta auknu umfangi endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, á öðrum frumvörpum.

Óvissa um endanlegan kostnað vegna hlutabóta og launa í uppsagnarfresti og launa í sóttkví.
    Áætlanir um greiðslur vegna hlutabóta og launa í uppsagnarfresti eru háðar mikill óvissu. Í lok apríl höfðu alls 6.632 fyrirtæki nýtt sér hlutabótaleiðina fyrir 35.610 starfsmenn. Úrræðið var framlengt til loka ágústmánaðar og áætlað er að um 14.000 manns nýti það á því tímabili.
    Miðað við nýjustu upplýsingar um nýtingu úrræðisins á seinni hluta tímabilsins, þ.e. frá 1. júní til loka ágústmánaðar, eru vísbendingar um að gjöldin verði ívið lægri en áætlað er í frumvarpinu. Í maí fengu 17.400 launþegar hlutabætur en þeim hefur fækkað í um 15.000 í júní. Ef svo heldur sem horfir verður heildarkostnaður ríkissjóðs innan 34 milljarða kr. áætlunarinnar.
    Forsendur fyrir 27 milljarða kr. framlagi vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti miðast við að úrræðið nái til um 12.500 launþega sem langflestir starfa í ferðaþjónustu og 85% af meðallaunakostnaði í ferðaþjónustu og tengdum greinum, sem er um 540 þús. kr. á mánuði. Hámarksstuðningur hvers launþega miðast við þrjá mánuði auk orlofs og gæti heildarkostnaður ríkissjóðs orðið um 2,1 millj. kr. á hvern launþega.
    Að auki er gert ráð fyrir um 50 millj. kr. rekstrarkostnaði hjá Skattinum vegna hugbúnaðargerðar ásamt afgreiðslu umsókna og eftirlits.
    Áætlað er að greiðslur vegna launa í sóttkví geti numið um 2 milljörðum kr. en ekki liggur fyrir í hve miklum mæli þetta úrræði verður nýtt. Samtals hafa allt að 20 þúsund manns verið í sóttkví en umsóknir um greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna sóttkvíar eru miklum mun færri.

Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.
    Nefndin fór ítarlega yfir stöðu endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar. Samkvæmt lögum nr. 58/2016 miðast endurgreiðsluhlutfall við 25% af framleiðslukostnaði og hækkaði þá úr 20% frá og með árinu 2017. Lögin eru tímabundin til ársloka 2021.
    Á fyrstu 10 árum endurgreiðslukerfis vegna kvikmyndagerðar var fjárhæð endurgreiðslna nær alltaf undir 200 millj. kr. á ári og voru greiðslur fyrst og fremst til innlendra aðila. Endurgreiðsluhlutfallið var mun lægra en nú er, en það var hækkað árið 2009 úr 14% í 20% og í 25% árið 2017. Á síðustu árum hafa framlögin sveiflast meira og þeir aðilar sem uppfylla tiltekin skilyrði geta fengið endurgreiðslu en afgreiðsla endurgreiðslna er háð fjárveitingum á fjárlögum hverju sinni. Úthlutunarnefnd getur því frestað endurgreiðslum þrátt fyrir að útgjaldaskuldbinding sé til staðar.
    Endurgreiðslukerfi víða annar staðar í Evrópu eru sambærileg því sem þekkist hérlendis en útfærslan er mismunandi eftir ríkjum. Víða er endurgreiðsluhlutfallið á bilinu 20–35% en íslenska kerfið er rýmra að því leyti að endurgreiðslur takmarkast ekki við kvikmyndir í fullri lengd.
    Í kjölfar samdráttar í ferðaþjónustu hafa nokkur nágrannaríki gripið til þess ráðs að hækka tímabundið endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar í því skyni að efla efnahag að nýju sem alls staðar hefur dregist saman. Íslendingum hefur gengið ágætlega að draga úr faraldrinum og þá getur verið lag að hækka endurgreiðsluhlutfallið til þess að auka enn frekar líkurnar á því að stór verkefni komi til Íslands í lok sumars og næsta vetur. Umsagnaraðilar hafa bent á að hækkun á endurgreiðsluhlutfalli úr 25% í 35% af framleiðslukostnaði styrkir samkeppnisstöðu greinarinnar og gæti skilað miklu til eflingar ferðaþjónustu og fjölgunar starfa.
    Meiri hlutinn bendir á að þörf er á endurskoðun laganna í heild eins og m.a. hefur komið fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurgreiðslukerfið og telur í því sambandi vel koma til greina að endurskoða endurgreiðsluhlutfallið til hækkunar.
    Í fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 691 millj. kr. fjárveitingu sem hefur nú þegar verið greidd út en ógreidd vilyrði ársins nema 1.880 millj. kr. og því til viðbótar eru 240 millj. kr. frá fyrri árum. Samtals er gerð tillaga um 2.120 millj. kr. viðbótarfjárheimild á þessum lið sem mætir öllum þegar gefnum vilyrðum.

Stofnframlög til Kríu og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um að heimilt sé að leggja allt að 650 millj. kr. stofnframlag í Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð. Fjallað er um sjóðinn í sérstöku frumvarpi þar sem nánar er kveðið á um hlutverk sjóðsins og framkvæmd fjárfestinga hans. Frumvarpið byggist á tillögum sem komið hafa fram á síðustu árum, m.a. í nýsköpunarstefnu sem birt var á síðasta ári.
    Einnig er gerð tillaga um að leggja allt að 500 millj. kr. í Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins (NSA) sem hefur það hlutverk að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Ætlunin er að nýta framlagið til þess að veita mótframlagslán til sprotafyrirtækja, gegn framlagi fjárfesta til viðkomandi fyrirtækis. Þetta úrræði gengur undir nafninu Stuðnings-Kría. Um er að ræða nánari útfærslu á 1.150 millj. kr. stofnframlagi sem samþykkt var í fyrri fjáraukalögum til að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Undirbúningur að Stuðnings-Kríu er þegar hafinn í samvinnu við NSA og miðað við að aðgerðin geti komið til framkvæmda í sumar.
    Meiri hlutinn telur þetta úrræði mjög mikilvægt til að sporna við efnahagssamdrættinum og leggur til að framlagið miðist við allt að 700 millj. kr. Greiðsla stofnfjárframlagsins er þó háð eftirspurninni og greiðslur til NSA verða í samræmi við eftirspurn og samþykkt lán hverju sinni upp að 700 millj. kr. hámarkinu.

Hjúkrunarheimili.
    Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu kynntu fjárlaganefnd erindi sitt um kostnað vegna COVID-aðgerða. Aldraðir eru einn viðkvæmasti hópur fólks fyrir alvarlegum afleiðingum af COVID-veikindum. Hjúkrunarheimili fengu tilmæli um aðgerðir til að vernda heimilismenn sína og gripu til umfangsmikilla ráðstafana. Aðgerðirnar skiluðu mikilvægum árangri. Aðgerðir og framkvæmd var á ábyrgð heimilanna. Samtökin hafa gert greiningu á kostnaði og umfangi aðgerðanna. Meiri hlutinn tekur undir að aðgerðirnar hafi skilað árangri í baráttunni gegn COVID. Kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna COVID-aðgerða verður tekinn til skoðunar í fjárauka að hausti.
    Meiri hlutinn leggur til að við undirbúning frumvarps til fjáraukalaga að hausti verði horft til reksturs hjúkrunarheimila á yfirstandandi ári. Metið verði hvort tilefni sé til þess að koma til móts við hjúkrunarheimilin með auknum fjárframlögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Staða ferðaskrifstofa – Ferðaábyrgðasjóður.
    Ráðgert er að leggja fram frumvarp á Alþingi um nýjan sjóð innan A-hluta ríkisins, Ferðaábyrgðasjóð. Sjóðnum er ætlað að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og þannig tryggja hagsmuni neytenda.
    Megininntak frumvarpsins varðar endurgreiðslur til ferðamanna vegna pakkaferða, sem koma átti til framkvæmdar á tímabilinu frá 12. mars til og með 30. júní 2020, en var aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna vegna heimsfaraldurs COVID-19. Ef ferðamenn hafa ekki fengið endurgreiðslu frá skipuleggjendum eða smásölum geta þeir beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði þeim þær greiðslur sem þeir eiga rétt á til endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna. Skipuleggjendur eða smásalar sem hafa endurgreitt ferðamönnum vegna pakkaferða geta einnig beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði þeim þær greiðslur.
    Ferðamálastofa fer með umsýslu sjóðsins og mun taka ákvörðun um hvort skilyrði séu til að greiða ferðamanni eða skipuleggjanda eða smásala úr sjóðnum samkvæmt kröfu hans. Ferðamálastofa er ekki bundin af kröfugerð ferðamanns eða skipuleggjanda eða smásala við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til hans. Sé ákvörðun tekin um endurgreiðslu til ferðamanns úr sjóðnum á grundvelli kröfu hans mun á móti stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi skipuleggjanda eða smásala sem nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn hefur greitt. Lagt er upp með að skipuleggjandi eða smásali endurgreiði sjóðnum til baka á allt að 6 árum og skal krafan bera vexti sem byggjast á markaðsforsendum. Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði komið á fót með sérstöku frumvarpi sem lagt verður fram á Alþingi og verða skilyrði endurgreiðslu úr sjóðnum nánar útfærð í því frumvarpi. Ferðamálaskrifstofa mun fá það hlutverk að annast umsýslu sjóðsins fyrst um sinn þar til heildarendurskoðun hefur farið fram á núverandi fyrirkomulagi.
    Meiri hlutinn leggur til breytingar á 5. gr. fjárlaga um lántökur og 6. gr. um sérstakar heimildir í því skyni að heimila ríkissjóði að fjármagna Ferðaábyrgðasjóð og heimila sjóðnum að greiða ferðamönnum kröfur og á móti að innheimta lán frá skipuleggjenda eða smásala pakkaferða.

Loðdýrabændur.
    Í október sl. skilaði starfshópur skipaður af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skýrslu um greiningu á framtíðarhorfum í minkarækt. Þar kemur m.a. fram að minkarækt hefur hagstætt kolefnisfótspor og dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda með fullnýtingu á hráefnum sem annars yrði að urða. Á þessu ári hefur heimsfaraldur kórónuveiru haft þau áhrif á þessa atvinnugrein að algjört tekjufall hefur orðið þar sem uppboðum á skinnum hefur verið frestað.
    Beinir meiri hlutinn því til viðeigandi ráðuneyta að ljúka útfærslu einstakra tillagna skýrslunnar á þessu ári.

Framlög til sveitarfélaga.
    Í nýlegri úttekt Byggðastofnunar um áhrif niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástandið á landsbyggðinni er leitast við að draga fram ólíka stöðu sveitarfélaga vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Hún gefur góðar vísbendingar um hvaða sveitarfélög og svæði í byggðalegu tilliti kunna að standa verst að vígi. Í fjáraukalögum sem samþykkt voru í maí var veitt 250 millj. kr. framlag til Suðurnesja og ráðuneyti sveitarstjórnarmála leiðir aðgerðaáætlun til að nýta þá fjármuni. Eftir sitja sex sveitarfélög þar sem ferðaþjónusta hefur haft mikla þýðingu varðandi atvinnutekjur og efnahag. Þau eru Skútustaðahreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra og Bláskógabyggð.
    Framangreind sex sveitarfélög hafa treyst mjög á ferðaþjónustu og niðursveiflan kemur því sérstaklega illa við þau. Verið er að skoða stöðu mála í þessum sveitarfélögum sérstaklega og meta hvort og hvernig þau úrræði sem stjórnvöld hafa gripið til eru að nýtast og hvernig viðkomandi sveitarfélög eru sjálf í færum að styðja með eigin aðgerðum við samfélagið. Tillögur eiga að liggja fyrir í júlí. Þar mun koma betur í ljós hvar væri þörf á sértækum aðgerðum til að styðja enn frekar við atvinnulíf og samfélag vegna þessara tímabundnu aðstæðna og hvers konar aðgerðir væru þá heppilegar í því sambandi. Markmið slíkra aðgerða væri að skapa betri grundvöll fyrir fjölbreyttara atvinnulíf til lengri tíma og styrkari stoðir þess, stuðla að nýsköpun og búa til tækifæri.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um samtals 150 millj. kr. framlag til sex framangreindra sveitarfélaga.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Breyting á gjaldahlið fjárlaga.
    Meiri hlutinn gerir tillögu um samtals 150 millj. kr. framlag til sex sveitarfélaga, en þau eru Skútustaðahreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra og Bláskógabyggð. Í nýlegri úttekt Byggðastofnunar kemur fram að þessi sveitarfélög hafi treyst mjög á ferðaþjónustu og niðursveiflan kemur því sérstaklega illa við þau.

Breyting á 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2020.
    Gerð er tillaga um að við 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 bætist nýr liður, 8. tölul., um heimild fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að heimila Ferðaábyrgðasjóði, sem er í vörslu Ferðamálastofu, að greiða kröfur vegna endurgreiðslu pakkaferða sem nema allt að 4.500 m.kr. enda stofnist í því sambandi krafa á hendur skipuleggjendum eða smásölum.

Breyting á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020.
    Gerð er tillaga um að við 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 bætist nýr liður, 7.36, sem veitir fjármála- og efnahagsráðherra heimild til að veita allt að 4.500 millj. kr. framlag til Ferðaábyrgðasjóðs sem er sérstakur sjóður í vörslu Ferðamálastofu sem hefur það hlutverk að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum kórónuveirufaraldursins á starfsemi skipuleggjenda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda vegna pakkaferða.
    Jafnframt er lögð til sú breyting á lið 7.35 í frumvarpinu að veitt verði allt að 700 millj. kr. framlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í stað 500 millj. kr. framlags sem gert var ráð fyrir, og skal greiðsla framlagsins vera í samræmi við eftirspurn og samþykkt lán hverju sinni upp að hámarkinu.

    Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstökum þingskjölum.
    Jón Steindór Valdimarsson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 22. júní 2020.

Willum Þór Þórsson,
form., frsm.
Haraldur Benediktsson. Njáll Trausti Friðbertsson.
Páll Magnússon. Steinunn Þóra Árnadóttir.