Ferill 856. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1784  —  856. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Vinnumálastofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Vinnumálastofnun?
    Meðfylgjandi er yfirlit yfir þau lög sem Vinnumálastofnun er falin framkvæmd með og samantekt um helstu verkefni sem stofnunin annast á grundvelli þeirra:

Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir.
    Lög nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar.
    Lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir.
    Lög nr. 63/2000, um hópuppsagnir.
    Lög nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
    Lög nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

    Ákvörðun réttinda, útreikningur og greiðsla atvinnuleysisbóta. Skráning og miðlun á upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda, skipulag vinnumarkaðsúrræða, vinnumiðlun, mat á vinnufærni og miðlun upplýsinga um atvinnuástandið í landinu og framtíðarhorfur.

Fæðingarorlofssjóður.
     Lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
    Lög nr. 152/2006, um ættleiðingarstyrki.

    Ákvörðun réttinda, útreikningur og greiðsla fæðingar- og foreldraorlofs, fæðingarstyrks og ættleiðingarstyrks.

Atvinnuréttindi útlendinga og eftirlit á vinnumarkaði.
     Lög nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.
    Lög nr. 45/2007, um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda.
    Lög nr. 139/2005, um starfsmannaleigur.
    Lög nr. 42/2010, um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum.

    Útgáfa atvinnuleyfa, skráning erlendra starfsmanna og starfsmannaleigna á íslenskum vinnumarkaði. Eftirlit á vinnustöðum.

Ábyrgðasjóður launa.
     Lög nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.
    Framkvæmd greiðslna úr sjóðnum. Greiðslur til launamanna á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld í búi vinnuveitanda sem njóta ábyrgðar sjóðsins.

Greiðslur í sóttkví.
     Lög nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir.
    Ákvörðun réttinda, útreikningur og greiðslur til atvinnurekenda og einstaklinga sem hafa þurft að sæta sóttkví.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Vinnumálastofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er heildarfjárheimild 1.527,1 millj. kr. Þar af eru 1.152,8 millj. kr. umsýslukostnaður vegna umsjár Vinnumálastofnunar á sjóðum og 374,3 millj. kr. framlag úr ríkissjóði sem fjármagnar önnur lögbundin verkefni stofnunarinnar.