Ferill 827. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1785  —  827. mál.
Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ræstingarþjónustu.


     1.      Hvernig er ræstingu sinnt hjá ráðuneytinu og stofnunum þess? Óskað er sundurliðunar eftir stofnunum og að fram komi kostnaður árið 2019 þar sem þjónustan var aðkeypt og meðalfjöldi stöðugilda árið 2019 þar sem ræstingu er sinnt af starfsfólki á launaskrá.
    Umbra, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins, sinnir ýmsum rekstrarþáttum fyrir ráðuneytið samkvæmt samkomulagi, þar á meðal ræstingu. Ræstingin er unnin samkvæmt samningi við verktaka eftir útboð Ríkiskaupa. Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá stofnunum ráðuneytisins og byggist svarið hvað stofnanir ráðuneytisins varðar á þeim upplýsingum. Eftirfarandi tafla sýnir kostnað forsætisráðuneytisins, umboðsmanns barna, Hagstofu Íslands og ríkislögmanns vegna aðkeyptrar ræstingarþjónustu:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Ráðuneytið er jafnframt með starfsmann í 45% starfshlutfalli sem sinnir ræstingu í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu 42 og starfsmann í 14% starfshlutfalli sem sinnir ýmsum viðvikum í húsnæði ráðuneytisins á Þingvöllum, þar á meðal ræstingu. Seðlabanki Íslands er með starfsmenn í fimm stöðugildum sem sinna ræstingu hjá bankanum. Hjá óbyggðanefnd og Jafnréttisstofu er endurgjald fyrir ræstingu innifalið í húsaleigugjaldi og hlutdeild í því gjaldi ekki sérgreind með beinum hætti.

     2.      Á hvaða hátt tryggir verkkaupi að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða í þeim tilvikum þegar ræstingu er útvistað?

    Í útboðsskilmálum Ríkiskaupa um ræstingarþjónustu fyrir ráðuneytið er gerð krafa um að verktaki tryggi að allir starfsmenn hans fái laun og starfskjör í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni og að aðstæður þeirra séu í samræmi við löggjöf á sviði vinnuverndar. Þá er áskilið að verktaki leggi fram gögn því til staðfestingar sé þess óskað.
    Óbyggðanefnd og Jafnréttisstofa hafa ekki aðkomu að samningagerð vegna ræstingarþjónustu, sbr. svar við 1. tölul. Stofnanir hafa að öðru leyti regluleg og góð samskipti við þjónustuaðila sína og er gengið út frá því við gerð samninga að viðkomandi fyrirtæki virði íslensk lög og kjarasamninga um réttindi starfsfólks.