Ferill 852. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1793  —  852. mál.
Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins?
    Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sinnir þeim lögbundnum verkefnum sem talin eru upp í 4. gr. laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, nr. 83/2003, en þar segir:
    Hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins er að annast eftirfarandi:
     1.      Greiningu barna og ungmenna með alvarlegar þroskaraskanir sem er vísað til athugunar að lokinni frumgreiningu.
     2.      Ráðgjöf og fræðslu til einstaklingsins, foreldra eða annarra aðstandenda og þjónustuaðila varðandi viðeigandi meðferð, þjálfun og önnur úrræði sem þörf er á.
     3.      Tilvísanir til annarra meðferðaraðila og stofnana í því skyni að hlutaðeigandi njóti þar þeirrar þjónustu sem þörf er á hverju sinni.
     4.      Langtímaeftirfylgd vegna þeirra einstaklinga sem búa við óvenjuflóknar eða sjaldgæfar þroskaraskanir.
     5.      Faglega aðstoð og ráðgjöf til samstarfsaðila, sbr. 3. mgr., t.d. varðandi:
       a.      uppbyggingu og starfrækslu greiningar- og ráðgjafarþjónustu,
       b.      menntun og þjálfun starfsfólks,
       c.      sérhæfðan tækjabúnað og aðgengi fatlaðs fólks,
       d.      kannanir á högum og þörfum fatlaðs fólks,
       e.      umsögn um þjónustu og vistun.
     6.      Öflun og miðlun þekkingar um fatlanir og alvarlegar þroskaraskanir, m.a. með því að fylgjast með nýjungum á alþjóðavettvangi.
     7.      Þróun, rannsókn og dreifingu á aðferðum og gögnum til greiningar á fötlunum og þroskaröskunum og á mismunandi meðferðaraðferðum.
     8.      Fræðilegar rannsóknir á sviði áunninna og meðfæddra fatlana og þroskaraskana og þátttöku í alþjóðastarfi, m.a. á sviði fátíðra fatlana.
     9.      Fræðslu á sviði fatlana og þroskaraskana og útgáfu fræðsluefnis.
    Stofnunin þjónar fyrst og fremst þeim sem eru á aldrinum 0–18 ára, sbr. 1. gr.
    Stofnunin skal hafa samráð við aðra aðila um þjónustu, kennslu og rannsóknir á sviði fatlana og þroskaraskana, t.d. svæðisskrifstofur um málefni fatlaðs fólks, sveitarfélög sem tekið hafa að sér þjónustu við fatlað fólk, félagsþjónustu sveitarfélaga, sérfræðiþjónustu grunnskóla, ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskóla, heilbrigðisstofnanir, háskólastofnanir, landlækni, stjórnarnefnd um málefni fatlaðs fólks, svæðisráð málefna fatlaðs fólks og hagsmunasamtök fatlaðs fólks.


     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?

    Framlög til stofnunarinnar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 eru 637,7 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð til að sinna lögbundnum verkefnum stofnunarinnar og er hvert verkefni ekki sundurliðað sérstaklega. Kostnað við skiptingu meginverkefna stofnunarinnar má hins vegar finna í stefnumiðaðri áætlun Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til a.m.k. þriggja ára, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál, og er eftirfarandi:
Ráðgjöf, greining og eftirfylgni 487,40
Miðlun þekkingar og rannsóknir 77,90
Rekstur, mannauðs og gæðamál 72,40