Ferill 849. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1795  —  849. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Tryggingastofnunar ríkisins.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Tryggingastofnun ríkisins?
    Hlutverk Tryggingastofnunar er að framfylgja lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni langveikra barna auk þess að sinna öðrum verkefnum sem stofnuninni er falin hverju sinni.
    Í 9. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, segir:

„Hlutverk Tryggingastofnunar.

    Tryggingastofnun annast framkvæmd lífeyristrygginga almannatrygginga og annarra málefna sem kveðið er á um í lögum þessum. Þá skal stofnunin sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með öðrum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
    Tryggingastofnun skal einnig annast aðra stjórnsýslu lífeyristrygginga, m.a. að:
     a.      vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar og upplýsingar um mál sem heyra undir stofnunina,
     b.      veita almenningi þjónustu og ráðgjöf um réttindi og skyldur samkvæmt þeim lögum sem stofnunin starfar eftir,
     c.      kynna almenningi réttindi sín með upplýsingastarfsemi,
     d.      birta upplýsingar um starfsemina með reglubundnum hætti,
     e.      gera árlega starfs- og fjárhagsáætlun,
     f.      gera árlega áætlun um bótagreiðslur hvers árs.“
    Í 3. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, segir: „Tryggingastofnun ríkisins greiðir bætur samkvæmt lögum þessum.“
    Í 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2007, um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 5. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra barna eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, kemur fram að: „Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, og reglugerðar þessarar.“

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Tryggingastofnunar ríkisins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Í fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 1.400,0 millj. kr. til reksturs stofnunarinnar, þar af 42,7 millj. kr. í fjárfestingarframlag og 15,3 millj. kr. í sértekjur. Fjárheimildin er til að sinna lögbundnum verkefnum stofnunarinnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega.