Ferill 848. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1797  —  848. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni umboðsmanns skuldara.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir umboðsmaður skuldara?
    Lög um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, kveða á um lögbundin verkefni umboðsmanns skuldara.
    Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, er kveðið á um hlutverk og verkefni umboðsmanns skuldara sem eru að:
     a.      veita einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita leiða til lausnar,
     b.      hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi,
     c.      veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun,
     d.      útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega,
     e.      taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds,
     f.      gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á,
     g.      veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna,
     h.      taka ákvörðun um hvort veita skuli fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.
    Önnur lögbundin verkefni sem umboðsmanni skuldara hafa verið falin með sérlögum er kveðið á um í eftirfarandi lögum:
    Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 100/2010. Umboðsmaður skuldara fer með framkvæmd greiðsluaðlögunar.
    Lög um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, nr. 9/2014.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna umboðsmanns skuldara og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara gilda lög nr. 166/2011. Í 1. gr. laganna er m.a. kveðið á um að aðilar sem hafa leyfi til að stunda starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ÍL-sjóður, lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, skuli standa straum af kostnaði við rekstur umboðsmanns skuldara með greiðslu sérstaks gjalds í samræmi við ákvæði þeirra laga. Hið sama á við um fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hefur starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess verið afturkallað, enda stundi það eða hafi stundað starfsemi skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga.
    Í 2. gr. sömu laga um álagningu hvers árs segir að fyrir 1. júlí ár hvert skuli umboðsmaður skuldara gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta almanaksárs og áætlaðan kostnað vegna fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Í skýrslunni skuli jafnframt koma fram upplýsingar um það hlutfall sem gjaldskyldir aðilar skulu greiða af álagningarstofni skv. 5. gr., auk þess sem lagt skuli mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú almanaksár. Skýrslu umboðsmanns skuldara til ráðherra skuli fylgja álit samráðsnefndar gjaldskyldra aðila skv. 3. gr. ásamt afstöðu stofnunarinnar til þess álits. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skuli umboðsmaður skuldara eigi síðar en 1. júní ár hvert láta henni í té drög að skýrslu. Samráðsnefndin skal skila umboðsmanni skuldara áliti um skýrsluna eigi síðar en 14. júní ár hvert.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta gjalds skal ráðherra, telji hann þörf á breytingum, leggja frumvarp fyrir Alþingi þar sem lögð er til breyting gjalds skv. 5. gr. sem ráðherra telur nauðsynlega í ljósi fyrirliggjandi gagna.
    Samkvæmt fyrirmælum laga lagði félags- og barnamálaráðherra fram skýrslu fyrir rekstrarárið 2020 í fyrra eða 1. júlí 2019. Í skýrslunni var áætlaður heildarkostnaður við rekstur embættis umboðsmanns skuldara fyrir árið 2020 samtals 283.510.839 kr. Ekki hefur verið lagt mat á kostnað við hvert verkefni enda er það erfiðleikum háð þar sem ýmis verkefni eru afleiður af lögbundunum verkefnum, t.d. leiðbeiningar, símaráðgjöf, fræðsla og fleiri verkefni.