Ferill 944. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1798  —  944. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður).

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar (LRM, AFE, HSK, ÁsF, NTF, ÓÍ, RBB, SPJ).


I. KAFLI
Breyting á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Stofna skal Ferðaábyrgðasjóð til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda. Sjóðurinn skal vera í vörslu Ferðamálastofu sem einnig tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Ráðherra er heimilt með samningi að fela hæfum aðila þjónustu við sjóðinn.
    Hafi pakkaferð sem koma átti til framkvæmdar á tímabilinu frá 12. mars til og með 30. júní 2020 verið aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. b-lið 1. mgr. 16. gr., eða hún verið afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. 3. mgr. 15. gr., og ferðamaður hefur ekki fengið endurgreiðslu frá skipuleggjanda eða smásala skv. 5. mgr. 15. gr. eða 2. mgr. 16. gr., getur ferðamaður beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði ferðamanni þær greiðslur sem hann á rétt til endurgreiðslu á samkvæmt framangreindum ákvæðum laganna. Ráðherra er heimilt með reglugerð að framlengja tímabil 1. málsl. þessarar málsgreinar.
    Ferðamaður þarf áður en krafa er gerð um endurgreiðslu til hans úr sjóðnum að hafa án árangurs krafið skipuleggjanda eða smásala um endurgreiðslu vegna pakkaferðar og skulu gögn því til sönnunar fylgja kröfu hans.
    Skipuleggjandi eða smásali sem hefur endurgreitt ferðamanni vegna pakkaferðar sem fellur að öðru leyti undir 2. mgr. getur beint kröfu að Ferðamálastofu um að sjóðurinn endurgreiði skipuleggjandanum eða smásalanum þær greiðslur.
    Ferðamálastofa getur krafið skipuleggjanda eða smásala um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sannreyna hvort uppfyllt séu skilyrði fyrir því að verða við kröfu ferðamanns eða skipuleggjanda eða smásala um endurgreiðslu úr sjóðnum, sbr. 2.–4. mgr. Ferðamálastofa getur m.a. krafið skipuleggjanda eða smásala um upplýsingar um allar ferðir sem hefur verið aflýst eða verið afbókaðar á því tímabili sem tilgreint er í 2. mgr., um ferðamenn sem áttu rétt á að ferðast á grundvelli samnings um pakkaferð, um fjárhagsstöðu skipuleggjanda eða smásala og um fjárhæð endurgreiðslukrafna, að viðlögðum dagsektum verði ekki orðið við kröfu um upplýsingar, sbr. 20. gr. laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018.
    Ferðamálastofa tekur ákvörðun um hvort skilyrði séu til að greiða ferðamanni eða skipuleggjanda eða smásala úr sjóðnum samkvæmt kröfu hans og hvort greiða skuli í samræmi við þá kröfu. Ferðamálastofa er ekki bundin af kröfugerð ferðamanns eða skipuleggjanda eða smásala við ákvörðun um greiðslu úr sjóðnum til hans. Telji Ferðamálastofa að krafa ferðamanns uppfylli ekki skilyrði laganna skal henni hafnað. Ákvörðun Ferðamálastofu um endurgreiðslu eða synjun hennar má ferðamaður skjóta til ráðherra innan fjórtán daga frá því að hún var kynnt honum. Sama gildir um kröfu skipuleggjanda eða smásala skv. 4. mgr.
    Taki Ferðamálastofa eða ráðherra ákvörðun um endurgreiðslu til ferðamanns úr sjóðnum á grundvelli kröfu hans, sbr. 6. mgr., stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi skipuleggjanda eða smásala sem nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn hefur greitt. Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða sjóðnum framangreinda fjárhæð til baka á allt að sex árum. Höfuðstóll kröfu sjóðsins skal bera árlega vexti (360 dagar) sem nemur 3,15% ársvöxtum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og 3,65% ársvexti fyrir stór fyrirtæki, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014. Komi til vanefnda viðkomandi skipuleggjanda eða smásala má gera fjárnám án undangengins dóms eða sáttar fyrir kröfu sjóðsins, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði.
    Komi til gjaldþrots skipuleggjanda eða smásala nýtur krafa sjóðsins, sbr. 7. mgr., sama forgangs við gjaldþrotaskiptin og þær kröfur sem fjallað er um í 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Sjóðurinn öðlast einnig kröfu í tryggingu viðkomandi skipuleggjanda eða smásala, sbr. 2. mgr. 24. gr., komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar hans, þó með þeim hætti að við uppgjör trygginga skv. 27. gr. skulu kröfulýsingar vegna pakkaferða eftir 30. júní 2020 ganga framar kröfum sjóðsins. Kröfu sjóðsins gagnvart skipuleggjanda eða smásala skal þó ekki meta inn í fjárhæð tryggingar skv. 26. gr.
    Ferðamálastofa skal eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti gera ráðherra grein fyrir fjölda endurgreiðslukrafna sem borist hafa sjóðnum, fjárhæðum þeirra og heildargreiðslum sjóðsins.
    Kröfur skv. 2–4. mgr. skulu berast Ferðamálastofu fyrir 1. október 2020. Ferðamálastofu er heimilt að taka gjald fyrir meðferð krafna sem greitt skal af viðkomandi skipuleggjanda eða smásala. Gjaldið skal standa undir kostnaði við meðferð kröfunnar og skal kveðið á um það í gjaldskrá birtri af Ferðamálastofu.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

II. KAFLI
Breyting lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem Ferðaábyrgðasjóði er heimilt að undirgangast gagnvart skipuleggjanda eða smásala vegna pakkaferða samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Frumvarp þetta er samið í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Ferðaábyrgðasjóður, sem hafi það hlutverk að bregðast sérstaklega við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með því að endurgreiða neytendum þær greiðslur sem þeir hafa innt af hendi vegna pakkaferða sem orðið hefur að afbóka eða afpanta vegna ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra aðstæðna vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt verður ferðaskrifstofum heimilt að krefja sjóðinn um endurgreiðslu þeirra krafna sem þegar hafa verið endurgreiddar og falla að öðru leyti undir gildissvið frumvarpsins. Frumvarpinu er ætlað að tryggja lögbundinn rétt neytenda til endurgreiðslu en einnig að aðstoða ferðaskrifstofur í því erfiða rekstrarumhverfi sem þær standa nú frammi fyrir.

Gildandi réttur.
    Lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, tóku gildi 1. janúar 2019 og eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 frá 25. nóvember 2015 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Pakkaferð er samsetning a.m.k. tveggja mismunandi tegunda ferðatengdrar þjónustu vegna sömu ferðar sem felur í sér a.m.k. tvennt af eftirfarandi: flutning farþega, gistingu, leigu bifreiða eða bifhjóls, eða aðra ferðatengda þjónustu sem er ekki í eðlilegum tengslum við farþegaflutning, gistingu eða leigu ökutækja. Í 12. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um rétt ferðamanna til fullrar endurgreiðslu án ótilhlýðilegrar tafar og eigi síðar en 14 dögum eftir að pakkaferð er aflýst eða hún afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna. Ákvæðið er innleitt í 15. og 16. gr. laganna. Í 3. mgr. 15. gr. er kveðið á um að skipuleggjandi eða smásali eigi ekki rétt á sérstakri þóknun þegar ferðamaður afpantar ferð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna og í 5. mgr. 15. gr. er kveðið á um að í slíkum tilvikum skuli ferðamanni endurgreitt innan 14 daga frá afpöntun. Í d-lið 1. mgr. 16. gr. kemur fram að skipuleggjandi eða smásali geti aflýst pakkaferð gegn fullri endurgreiðslu til ferðamanns og án frekari skaðabóta ef skipuleggjanda eða smásala er ekki unnt að efna samninginn vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna og ber þá að endurgreiða ferðamanni innan 14 daga frá aflýsingu. Í aðfaraorðum tilskipunarinnar kemur fram að óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður geti m.a. annars náð yfir umtalsverða áhættu fyrir heilbrigði manna á borð við alvarlegan sjúkdóm á ákvörðunarstað ferðarinnar. Í greinargerð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 95/2018 kemur auk þess fram að m.a. geti verið um að ræða útbreiðslu farsótta eða sjúkdóma. Af framangreindu leiðir að ferðaskrifstofum sem hafa selt pakkaferðir sem hafa verið afpantaðar eða þeim aflýst vegna útbreiðslu kórónuveirunnar ber að endurgreiða ferðamönnum allar greiðslur innan 14 daga frá aflýsingu eða afpöntun.
    Kveðið er á um tryggingaskyldu fyrir sölu pakkaferða í V. kafla tilskipunarinnar og VII. kafla laga nr. 95/2018. Í 2. mgr. 24. gr. er kveðið á um að skipuleggjandi eða smásali, sem býður til sölu eða selur pakkaferðir til ferðamanna hér á landi, skuli hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu þess sem þegar hefur verið greitt fyrir pakkaferð sem ekki er farin í samræmi við samning og til heimflutnings ferðamanns, sé farþegaflutningur hluti pakkaferðar, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala. Skv. 3. mgr. 25. gr. skal endurgreiða allar greiðslur fyrir pakkaferð sem ekki verður farin vegna gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala og á það einnig við um fyrirframgreiðslur, hvort sem endanlegur samningur um pakkaferð hefur komist á eða ekki, enda sé sýnt fram á greiðslurnar með fullnægjandi hætti. Í 26. gr. er kveðið á um fjárhæð tryggingar sem ráðherra ákveður í reglugerð hvernig skuli reiknuð út. Hver ferðaskrifstofa skal síðan leggja fram tryggingu í samræmi við útreiknaða fjárhæð. Tryggingaskyldunni er ætlað að tryggja neytendavernd komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala og skal greiða þeim ferðamönnum sem eiga fjármuni inni hjá viðkomandi ferðaskrifstofu af tryggingarfé hennar.

Vandi ferðaskrifstofa vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
    Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft mikil áhrif á ferðaþjónustu um allan heim og hafa íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu ekki farið varhluta af þeim. Þannig hefur nánast allt millilandaflug til og frá landinu legið niðri um þriggja mánaða skeið. Vegna þessa hefur þurft að aflýsa fjölda pakkaferða sem áttu að koma til framkvæmdar á því tímabili sem ferðatakmarkanir eða ferðaviðvaranir hafa verið í gildi. Á þetta bæði við um pakkaferðir sem seldar hafa verið erlendum ferðamönnum og pakkaferðir sem seldar hafa verið Íslendingum þar sem áfangastaður þeirra var erlendis. Leiðir af þessu sú skylda skipuleggjanda og smásala að endurgreiða neytendum allar þær greiðslur sem þeir hafa innt af hendi vegna viðkomandi pakkaferða. Ferðaskrifstofur hafa oft og tíðum ráðstafað þeim greiðslum sem þær hafa tekið við til sinna birgja erlendis, t.d. til hótela, flugfélaga eða annarra ferðaþjónustuaðila, og geta því ekki endurgreitt öllum neytendum þá fjármuni sem þeir eiga inni hjá þeim. Í mörgum tilfellum eru þeir ferðaþjónustuaðilar erlendis sem greiðslum hefur verið miðlað til einnig í erfiðri lausafjárstöðu og geta því sjálfir ekki endurgreitt fé til ferðaskrifstofa en gefa þess í stað út inneignarnótur. Endurgreiðsluskyldan sem veldur þeim vanda sem ferðaskrifstofur standa nú frammi fyrir á aðeins við samkvæmt lögum í samningssambandi neytenda og ferðaskrifstofa vegna pakkaferða. Þegar um er að ræða tvo aðila í atvinnurekstri sem miðla greiðslum sín á milli reynir á aðrar reglur kröfuréttar sem ekki eru jafn afgerandi og reglur pakkaferðatilskipunarinnar og eru auk þess háðar atviksbundnu mati. Ferðaskrifstofur standa frammi fyrir miklum vanda sem óraunhæft er að ætla að gert hafi verið ráð fyrir í fjárhagsáætlunum þeirra. Ferðaskrifstofur annars staðar í Evrópu standa frammi fyrir sams konar vanda vegna aflýstra og afbókaðra pakkaferða.

Aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til hér á landi og í öðrum ríkjum Evrópu.
    Stjórnvöld í ríkjum Evrópu hafa brugðist við með mismunandi hætti. Gerðar hafa verið breytingar á rétti neytenda til fullrar endurgreiðslu á grundvelli pakkaferðatilskipunarinnar, oft þannig að annaðhvort er frestur ferðaskrifstofa til endurgreiðslu framlengdur og/eða ferðaskrifstofum er veitt heimild til að endurgreiða neytendum í formi inneignarnóta sem síðan er hægt að fá endurgreiddar í peningum að ákveðnum tíma liðnum. Í flestum ríkjum Evrópu hafa ekki verið gerðar breytingar á lögbundnum rétti neytenda til fullrar endurgreiðslu en ferðaskrifstofum veitt aðstoð við endurgreiðslukröfur. Við gerð frumvarpsins var m.a. litið til þess hvernig brugðist hefur verið við í Danmörku með breytingu á lögum um danska tryggingasjóðinn (lög nr. 326/2020 og lög nr. 612/2020, Lov om ændring af lov om en rejsegarantifond).
    Í yfirlýsingu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, hinn 23. mars 2020, var því komið á framfæri að inneignarnótur, sem bæru skýrt með sér að vera greiðsla vegna pakkaferða, féllu undir tryggingavernd VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Ferðamönnum var þannig bent á að huga vel að því hvort það úrræði að taka við inneignarnótu í stað endurgreiðslu í peningum gæti nýst þeim í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi væru. Sama dag setti Neytendastofa fram leiðbeiningar á vef sínum um inneignarnótur og breytingar pakkaferða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Með þessu var farin sú leið að hvetja neytendur til að taka við valfrjálsum inneignarnótum á sama tíma og lögbundnum rétti þeirra til endurgreiðslu var viðhaldið. Er það einnig í samræmi við sjónarmið framkvæmdastjórnar ESB og Eftirlitsstofnunar EFTA, en framkvæmdastjórnin sendi frá sér óformlegar leiðbeiningar 19. mars sl. um rétt neytenda vegna pakkaferða í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru þar sem fram kom að ekki stæði til að gera breytingar sem fælu í sér að rýra rétt neytenda. Sjónarmiðin voru ítrekuð í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar frá 13. maí sl. um inneignarnótur til ferðamanna vegna aflýstra pakkaferða og annarrar ferðaþjónustu, svo sem flug- og lestarmiða.

Stofnun sérstaks sjóðs.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Ferðaábyrgðasjóður, sem hafi það eina hlutverk að endurgreiða ferðamönnum þær greiðslur sem þeir eiga rétt á vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afpantaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, og eftir atvikum ferðaskrifstofum hafi þær þegar endurgreitt ferðamönnum. Þannig er tilgangur sjóðsins skýrlega afmarkaður og honum aðeins ætlað að bregðast við tímabundnum vanda ferðaskrifstofa vegna heimsfaraldurs kórónuveiru en jafnframt að gæta innbyrðis jafnræðis milli þeirra. Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða er því lagt til að endurgreiðslukröfurnar afmarkist annars vegar við tilteknar kröfur um endurgreiðslu skv. 5. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. laganna og hins vegar í tíma við pakkaferðir sem áttu að koma til framkvæmda frá 12. mars til og með 30. júní 2020.
    Við mat á því við hvaða dagsetningar eigi að miða er fyrst og fremst horft til ákvarðana heilbrigðisyfirvalda tengdra heimsfaraldri kórónuveiru og tímasetninga á skilgreindum hættusvæðum. Skíðasvæði í Ölpunum og Ítalía í heild sinni voru skilgreind sem hættusvæði 29. febrúar, Þýskaland var skilgreint sem hættusvæði 12. mars., Spánn og Frakkland frá og með 14. mars og öll lönd og svæði í heiminum frá og með 19. mars. Á sama tímabili tóku lönd í Evrópu að loka fyrir komu ferðamanna sem gerði það að verkum að allar pakkaferðir sem og aðrar ferðir féllu niður. Frá og með 24. apríl hafa allir sem komið hafa til landsins þurft að fara í 14 daga sóttkví við komu. Frá og með 15. júní er ferðamönnum boðið upp á val um sýnatöku eða sóttkví við komu til landsins og neikvætt sýni undanskilur þá ferðamenn sóttkví.
    Ferðaábyrgðasjóður verður í vörslu Ferðamálastofu sem tekur allar ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Ráðherra er hins vegar heimilt að fela hæfum aðila umsýslu sjóðsins. Í því felst að framkvæma greiðslur til ferðamanna í samræmi við ákvarðanir Ferðamálastofu og að sjá um að sú skuld sem til verður hjá hverri og einni ferðaskrifstofu vegna greiðslna sjóðsins verði til með lögformlegum hætti, t.d. með útgáfu skuldabréfa viðkomandi fyrirtækja og innheimtu þeirra. Ástæða þess að þetta fyrirkomulag er lagt til er að innan Ferðamálastofu er ekki sérhæfð þekking tengd bankaviðskiptum sem nauðsynleg er fyrir verkefnið.
    Í 7. mgr. ákvæðis til bráðabirgða kemur fram að taki Ferðamálastofa eða ráðherra ákvörðun um endurgreiðslu ferðamanns úr sjóðnum á grundvelli kröfu hans þar um, stofnist krafa sjóðsins á hendur viðkomandi skipuleggjanda eða smásala sem nemi þeirri fjárhæð sem sjóðurinn hefur greitt. Sú skuld skuli greidd til baka á allt að 6 árum.

Ákvarðanir um endurgreiðslu.
    Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða tekur Ferðamálastofa ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Í því felst að stofnunin leggur mat á það hvort ferðamaður hefur sýnt með fullnægjandi hætti fram á að eiga kröfu um endurgreiðslu frá skipuleggjanda eða smásala sem fellur undir þá afmörkun sem lögð er til í 2. mgr. Telji Ferðamálastofa að krafa ferðamanns uppfylli ekki skilyrði laganna skal henni hafnað í heild eða að hluta en ferðamanni verður heimilt að kæra þá synjun til ráðherra innan 14 daga frá því að hún var kynnt honum. Það fyrirkomulag sem lagt er til hér er að nokkru leyti svipað og við uppgjör trygginga skv. VII. kafla laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun þegar kemur til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala. Ferðamálastofa óskar þá eftir kröfum í tryggingafé viðkomandi skipuleggjanda eða smásala og metur síðan hvort þær kröfur sem koma inn teljist uppfylla skilyrði laganna fyrir greiðslu af tryggingafénu. Munurinn hér er aðallega sá að ekki er um sérstakan kröfulýsingarfrest að ræða og því er ekki nauðsynlegt að bíða með að taka einstakar ákvarðanir á meðan fresturinn líður. Viðkomandi skipuleggjandi eða smásali hefur ekki aðkomu að ákvörðun um greiðslu sjóðsins vegna krafna á hendur honum og aðeins er gert það skilyrði að ferðamaður geti sýnt fram á að eiga lögmæta kröfu og að hafa krafist endurgreiðslu án árangurs innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í lögunum.
    Einnig er lagt til að þeir skipuleggjendur eða smásalar sem hafa þegar endurgreitt ferðamönnum vegna pakkaferða sem falla undir afmörkun 2. mgr. geti krafið sjóðinn um greiðslu þeirra krafna. Telja verður sanngjarnt og eðlilegt að veita þeim sem sýnt hafa fyrirhyggju og reynt eftir fremsta megni að standa við lögbundnar skyldur sínar rétt til að sækja þá fjármögnun sem lögð er til með frumvarpinu.
    Til að mögulegt sé að taka ákvörðun um hvort krafa ferðamanns falli undir afmörkun 2. mgr. er lagt til að skipuleggjendur og smásalar þurfi að veita Ferðamálastofu allar þær upplýsingar sem henni eru nauðsynlegar til að leggja mat á kröfurnar. Í því felast upplýsingar um allar pakkaferðir sem hafa verið felldar niður eða verið afpantaðar á því tímabili sem um ræðir, um farþega og fjölda þeirra og fjárhæð einstakra krafna. Auk þess verði Ferðamálastofu heimilt að kalla eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu skipuleggjanda og smásala og aðilum verður skylt að veita henni framangreindar upplýsingar að viðlögðum dagsektum skv. 20. gr. laga um Ferðamálastofu. Ferðamálastofa leggur síðan mat á það hvort kröfur ferðamanns falli undir afmörkun 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og þannig hvort skilyrði útgreiðslu séu til staðar. Viðkomandi skipuleggjandi eða smásali hefur ekki val um það hvort Ferðaábyrgðasjóður greiði endurgreiðslukröfur sem viðkomandi skipuleggjandi eða smásali hefur ekki greitt. Séu liðnir meira en 14 dagar frá því að tilkynnt var um að ferð yrði aflýst eða hún afpöntuð, og endurgreiðsla hefur ekki farið fram, á ferðamaður rétt til greiðslu úr sjóðnum, enda hefur þá skipuleggjandi eða smásali ekki staðið við lögbundnar skyldur sínar.

Hagsmunir ríkissjóðs.
    Ríkissjóður mun leggja Ferðaábyrgðasjóðnum til stofnfé svo hann geti sinnt hlutverki sínu. Mikilvægt er að gæta að hagsmunum sjóðsins og ríkissjóðs enda er tilgangur frumvarpsins að veita skipuleggjendum og smásölum lán á hagstæðum kjörum til að standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart ferðamönnum. Lánin skulu bera vexti sem miðast við grunnvexti 2,65% að viðbættu 0,5% álagi, eða samtals 3,15% ársvexti, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en að viðbættu 1,0% álagi, eða samtals 3,65% ársvexti, fyrir stór fyrirtæki. Skilgreining á stærð fyrirtækja er í hinni almennu hópundanþágureglugerð (ESB) nr. 651/2014, en lítið fyrirtæki er fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn og með árlega veltu undir 10 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 10 milljónum evra, meðalstórt fyrirtæki er fyrirtæki með á bilinu 50–250 starfsmenn og með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, og stórt fyrirtæki er fyrirtæki með yfir 250 starfsmenn. Til að gæta hagsmuna ríkissjóðs er einnig í 7. og 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða kveðið á um tryggingaréttindi sjóðsins vegna greiðslna sem hann hefur innt af hendi. Er þar í fyrsta lagi kveðið á um beina aðfararheimild í 7. mgr. fyrir kröfum sjóðsins, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði, komi til vanefnda viðkomandi skipuleggjanda eða smásala. Krafa sjóðsins nýtur því sömu verndar og krafa kröfuhafa skv. 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, og hægt að gera fjárnám hjá skuldara án undangengins dóms eða sáttar fyrir kröfu sjóðsins, komi til vanefnda. Í öðru lagi er kveðið á um að krafa sjóðsins njóti forgangs við gjaldþrotaskipti líkt og þær kröfur sem fjallað er um í 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Í því felst að krafa sjóðsins nýtur forgangs umfram aðrar viðskiptakröfur við skipti á þrotabúi skipuleggjanda eða smásala. Í þriðja lagi er kveðið á um það í 8. mgr. að Ferðaábyrgðasjóður öðlist kröfu í tryggingafé viðkomandi skipuleggjanda eða smásala sem nemur þeim fjárhæðum sem sjóðurinn hefur greitt fyrir viðkomandi. Krafa sjóðsins nýtur sömu stöðu og aðrar kröfur sem hafa orðið til fyrir 30. júní en kröfur sem verða til eftir það tímamark njóta forgangs umfram kröfu sjóðsins. Tilgangurinn er að tryggja að úr því ástandi sem nú er til staðar komi tryggingakerfi sem sé í stakk búið til að sinna meginhlutverki sínu sem er að tryggja neytendum fullar endurgreiðslur komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala. Rétt þykir því að sjóðurinn taki á sig aukna áhættu hvað þetta varðar en nýtur þá forgangs við skipti á þrotabúi viðkomandi skipuleggjanda eða smásala.

Reglugerðarheimild.
    Í frumvarpinu er ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um framkvæmd laganna í reglugerð. Nauðsynlegt er að kveða á um ýmis atriði tengd framkvæmd á starfi sjóðsins, svo sem um lánstíma, nánar um kjör og skilmála þeirrar skuldar sem verður til við sjóðinn, um tilhögun endurgreiðslna, nánari skilyrði sem skipuleggjendur og smásalar þurfa að uppfylla til að kröfur vegna þeirra verði greiddar úr sjóðnum, og fleiri slík atriði.

Fjárhagsmat.
    Við vinnslu frumvarpsins var óskað upplýsinga frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Ferðamálastofu um mögulegt umfang þeirra krafna sem sjóðurinn kynni að standa frammi fyrir. Erfitt er um vik að afla nákvæmra upplýsinga um útistandandi endurgreiðslukröfur sem ekki hafa verið greiddar þótt liðnir séu meira en 14 dagar frá því að ferð var aflýst eða hún afpöntuð. Fjárhagsmat frumvarpsins byggist á upplýsingum frá aðilum sem saman standa fyrir um 45% af veltu í sölu pakkaferða á hverjum tíma og miðast sú ályktun við fyrirliggjandi tryggingafjárhæðir. Af þeim upplýsingum má gróflega ráða að fjárþörf fyrir rekstri sjóðsins verði um 4,5 milljarðar kr. miðað við að sjóðurinn greiði endurgreiðslukröfur ferðamanna sem enn eru ógreiddar og jafnframt að skipuleggjendur og smásalar geti krafið sjóðinn um greiðslu þeirra endurgreiðslna sem þeir hafa þegar framkvæmt og mundu annars falla undir afmörkun 2. mgr. Í heild er fjöldi bókana áætlaður á bilinu 15–20 þúsund talsins og því ljóst að verkefnið kallar á töluverða vinnu af hálfu Ferðamálastofu. Tillaga frumvarpsins er að stofnaður verði nýr ríkisaðili sem hafi að lögum hæfi til að bera skyldur og öðlast réttindi. Framlag til sjóðsins þarf því að vera í formi stofnfjárframlags.
    Þar sem um lán til skipuleggjenda eða smásala er að ræða er gert ráð fyrir því að meiri hluti stofnfjárframlagsins muni endurheimtast og renna aftur í ríkissjóð. Komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala á meðan skuld við sjóðinn er enn ógreidd mun reyna á tryggingarétt sjóðsins skv. 7. og 8. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.
    Gera má ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs í ár og á komandi árum muni versna sem nemur áætluðum afskriftum af þessum kröfum. Umfangið á því hversu mikið kann að tapast er á hinn bóginn alveg óljóst en slíkt ræðst af nokkrum þáttum, þ.m.t. nýtingu fyrirtækja á úrræðinu og hversu góðar tryggingar eru fyrir hendi.

Lög um ríkisábyrgðir.
    Lagt er til að lög um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, gildi ekki um ábyrgðir Ferðaábyrgðasjóðs samkvæmt frumvarpinu. Þau lög eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar veittur er almennur efnahagslegur stuðningur til fyrirtækja. Samsvarandi undanþága var gerð vegna viðbótarlána og stuðningslána sem ríkissjóður ábyrgist á grundvelli annarra úrræða stjórnvalda í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru.

Endurskoðun fyrirkomulags trygginga vegna sölu pakkaferða.
    Áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru hafa sýnt fram á að það tryggingakerfi vegna sölu pakkaferða sem er í gildi hér á landi þarfnast endurskoðunar. Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hyggur ráðuneytið á heildarendurskoðun þess kerfis þar sem lagt verður upp með að hverfa að meginstefnu til frá núverandi kerfi sem felur í sér að hvert fyrirtæki þurfi að vera sjálft tryggt að fullu leyti vegna allrar sinnar sölu í formi pakkaferða á hverjum tíma. Í staðinn verði unnið að undirbúningi að stofnun tryggingasjóðs sem til framtíðar mundi sjá um að tryggja neytendum endurgreiðslur komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skipuleggjanda eða smásala. Sá sjóður mundi taka við réttindum og skyldum Ferðaábyrgðasjóðs sem lagt er til að verði stofnaður með þessu frumvarpi og mundi því renna inn í framtíðarfyrirkomulag. Mun sú vinna hefjast á haustmánuðum og verður m.a. litið til fyrirkomulags á Norðurlöndunum.