Ferill 639. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1800  —  639. mál.
3. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Orkusjóð.

Frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

    Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar eftir 2. umræðu og hefur hún fjallað um það að nýju.
    Í umsögnum til nefndarinnar voru sett fram sjónarmið um að mikilvægt væri að bætt væri við lögin eða í reglugerð ákvæðum um eftirlit með framvindu verkefna eða skýrslugjöf, m.a. í því skyni að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu sem og faglega umfjöllun um verkefni og starfsemi Orkusjóðs. Við meðferð málsins kom fram að upplýsingar um starfsemi sjóðsins hafa verið birtar í ársskýrslu Orkustofnunar, m.a. um framvindu verkefna og þau verkefni sem notið hafa aðstoðar frá sjóðnum. Verklagsreglur sjóðsins sé jafnframt að finna á vef.
    Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að upplýsingar um starfsemi sjóðsins séu aðgengilegar. Mikilvægt er að settur sé skýrari rammi þar um en í 8. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um starfsemi sjóðsins í reglugerð. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að betur fari á að kveða ítarlega á um innihald og framsetningu árlegra upplýsinga sjóðsins í reglugerð. Sama gildi um heimild til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka en í reglugerð þarf að vera skýr rammi um slíkar heimildir.
    Við meðferð málsins komu fram athugasemdir um að með frumvarpinu sé lagt til að viðhalda því fyrirkomulagi sem hefur verið við fjárveitingar til sjóðsins um árabil. Meiri hlutinn bendir á að fjárreiður lögaðila eru ekki lengur birtar í þingskjölum, hvorki í fjárlögum né fjármálaáætlun heldur einungis í fylgiriti með fjárlögum. Af því leiðir að fjárreiður Orkusjóðs koma ekki fram í fjárlögum en eftir sem áður er gert ráð fyrir að reikningshald og uppgjör sjóðsins verði opinbert eins og gildir um alla lögaðila í A-hluta ríkissjóðs. Með lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, var ákveðið að taka upp alþjóðlega reikningsskilastaðla sem hafa áhrif á reikningsskil sjóða eins og Orkusjóð. Þau áhrif hafa ekki að fullu komið fram í reikningsskilunum enn sem komið er, t.d. varðandi færslu á vaxtatekjum. Brýnt er að skoða þau mál með heildstæðum hætti þannig að breytingar á reikningsskilum verði með samræmdum hætti fyrir alla sjóði ríkisins innan A-hluta. Meiri hlutinn telur að framangreindu virtu því ekki rétt að leggja til breytingu á 6. gr. frumvarpsins, á þann hátt sem gert var við 2. umr. og leggur því til að greinin orðist eins og hún var þegar frumvarpið var lagt fram.
    Að þessu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 6. gr. bætist: og vextir af fé sjóðsins.

Alþingi, 23. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form.
Njáll Trausti Friðbertsson,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Ásmundur Friðriksson. Ólafur Ísleifsson.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Sigurður Páll Jónsson.