Ferill 886. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1813  —  886. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni um nýja afeitrunardeild á Landspítalanum.


     1.      Hver er kostnaður við undirbúning afeitrunardeildar fyrir börn og ungmenni sem fyrirhugað er að opna á Landspítalanum?
    Ný afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni á Landspítalanum var opnuð 2. júní 2020. Kostnaður vegna opnunar deildarinnar stendur nú í 77,5 millj. kr. Inni í þeirri upphæð er meðal annars hönnunarkostnaður, framkvæmdakostnaður við breytingar á húsnæði og kaup á tækjum og húsbúnaði.

     2.      Hver er áætlaður rekstrarkostnaður deildarinnar?
    Samkvæmt endurskoðuðu kostnaðarmati ráðuneytisins frá 5. desember síðastliðnum er áætlað að rekstrarkostnaður sé 141 millj. kr. á ári.

     3.      Hvað tekur við fyrir börnin að afeitrun lokinni?
    Þegar þjónustu við börn og ungmenni er lokið á afeitrunardeildinni er þeim vísað í viðeigandi úrræði svo sem á Barna- og unglingageðdeild eða Stuðla.

     4.      Hefur samráð verið haft við Barnaverndarstofu eða SÁÁ um undirbúning og opnun deildarinnar?
    Ef vel á að takast til með viðkvæma þjónustu eins og þá þjónustu sem ætlunin er að veita á afeitrunardeildinni er víðtækt samráð og samvinna nauðsynleg. Því var haft víðtækt samráð í undirbúningi opnunar afeitrunardeildarinnar og var meðal annars unnið í samráði við Barnaverndarstofu og SÁÁ.