Ferill 766. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1814  —  766. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Vegagerðarinnar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Vegagerðin?
    Um verkefni Vegagerðarinnar er fjallað í II. kafla laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012. Þar segir í 4. gr. að stofnunin skuli vera ráðgefandi fyrir ráðherra, veita honum aðstoð við undirbúning að setningu laga og reglugerða á starfssviði sínu og aðstoða við stefnumótun og ákvarðanatöku í samgöngumálum. Þá tekur Vegagerðin þátt í gerð samgönguáætlunar, annast upplýsingamiðlun um samgöngumál eftir því sem við á og annast rekstur tölvu- og upplýsingakerfa er lúta að starfsemi stofnunarinnar.

Framkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja.
    Samkvæmt 5. gr. annast Vegagerðin uppbyggingu vega, sjóvarnargarða og leiðsögu- og eftirlitskerfa. Jafnframt hefur stofnunin umsjón með framkvæmdum við samgöngumannvirki og samgöngukerfi sem njóta beinna ríkisstyrkja. Þá annast Vegagerðin viðhald þeirra mannvirkja sem hún fer með eignarhald á.

Eignarhald og rekstur.
    Vegagerðin annast rekstur samgöngumannvirkja og samgöngukerfa og fer með eignarhald þeirra fyrir hönd ríkissjóðs, sbr. 6. gr. laganna. Í því sambandi sinnir stofnunin eða felur öðrum að sinna rekstri og umsjón vegakerfisins sem og eftirliti með burðarþoli vega og brúa, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna. Í rekstri samgöngumannvirkja og samgöngukerfa felst einnig rekstur og viðhald vita og sjómerkja, leiðsögu-, vöktunar-, upplýsinga- og eftirlitskerfa sem og rekstur Landeyjahafnar og ferjubryggja, sbr. 3.–5. tölul. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Almenningssamgöngur.
    Vegagerðin annast jafnframt rekstrarverkefni ríkisins á sviði almenningssamgangna, sbr. 7. gr. laganna. Skal stofnunin m.a. annast útboð, gerð og eftirfylgd þjónustusamninga vegna almenningssamgangna, umsjón með styrkveitingum vegna almenningssamgangna sem og umsjón með ferjum og öðrum eignum ríkisins sem nýttar eru í almenningssamgöngum.

Samgönguöryggi.
    Vegagerðin vinnur að auknu öryggi í samgöngum með það að markmiði að fækka slysum og draga úr tjóni af völdum þeirra, sbr. 8. gr. laganna. Unnið er að því verkefni á öllum sviðum stofnunarinnar.

Alþjóðlegt samstarf.
    Vegagerðin tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi á starfssviði sínu eftir því sem kveðið er á um í lögum, alþjóðasamningum eða samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar, sbr. 9. gr. laganna.

Rannsóknir og þróunarstarf.
    Vegagerðin tekur þátt í og annast rannsóknir, greiningu og þróun á starfssviði sínu, sbr. 10. gr. laganna.

    Um lögbundin verkefni Vegagerðarinnar vísast að öðru leyti til II. kafla laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Vegagerðarinnar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Samkvæmt fjárlögum 2020 nemur heildarfjárveiting til Vegagerðarinnar 38.906,9 millj. kr. Þá nemur framlag til Hafnabótasjóðs, sem Vegagerðin ber ábyrgð á, 923 millj. kr. en framlagið rennur til hafna í eigu sveitarfélaga í samræmi við samgönguáætlun og fjárlög.
    Í fjárlögum er kostnaði ekki skipt niður á lögbundin verkefni. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er hlutfallsskipting kostnaðar gróflega áætluð eins og greint er frá í meðfylgjandi töflu.

Framkvæmdir og viðhald samgöngumannvirkja 72%
Eignarhald og rekstur, þ.m.t. þjónusta á vegakerfinu, rekstur og viðhald hafna og vaktstöð siglinga 18%
Almenningssamgöngur á landi, sjó og lofti 9%
Rannsóknir og þróun 1%

    Áætlaður kostnaður vegna vinnu að auknu samgönguöryggi, sbr. 8. gr. laga um Vegagerðina, er ekki tilgreindur sérstaklega þar sem slík vinna fer fram á öllum sviðum stofnunarinnar. Það sama á við um kostnað vegna alþjóðlegs samstarfs, sbr. 9. gr. laganna.