Ferill 865. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1819  —  865. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni framhaldsskóla.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna framhaldsskólar á Íslandi?
    Lögbundið hlutverk framhaldsskóla er tilgreint í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, og í aðalnámskrá framhaldsskóla frá árinu 2011, með síðari breytingum. Í 1. gr. laganna segir að nám á framhaldsskólastigi sé skipulagt sem framhald af námi á grunnskólastigi. Það miði að lokaprófi, starfsréttindaprófi, stúdentsprófi eða öðrum skilgreindum námslokum sem geta miðast við tiltekin störf og veitt sérstök réttindi þeim tengd. Skv. 2. gr. laganna er hlutverk framhaldsskóla að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.
            
     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna framhaldsskóla á Íslandi og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?

    Í fjárlögum er kostnaði ekki deilt niður á hvert lögbundið verkefni framhaldsskóla, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks.
    Opinberir framhaldsskólar fá greitt samkvæmt fjárlögum. Í fjárlögum fyrir árið 2018 var stigið fyrsta skrefið í átt að nýju reiknilíkani framhaldsskóla með því að innleiða þjónustuálag og útskriftarálag. Í fjárlögum fyrir árið 2019 voru námsbrautir flokkaðar í ellefu verðflokka. Tekin var upp ný skilgreining á ársnema og nefndist nú ársnemi „nemandi í fullu námi“. Fjöldi nemenda í fullu námi er reiknaður út þannig að heildarfjöldi námseininga sem nemendur eru skráðir í þremur vikum eftir upphaf skólaannar er deilt með fjölda námseininga sem miðað er við fullt nám.
    Reiknilíkan framhaldsskóla gegnir því hlutverki að skipta fé sem fjárveitingarvaldið veitir til skólanna og styðja við fagleg, fjárhagsleg eða pólitísk markmið. Endurskoðun líkansins hefur staðið yfir síðustu ár og hefur verið að taka gildi í áföngum frá 2018 en áætluð verklok eru 2021.
    Fyrri taflan sýnir 11 verðflokka í reiknilíkani framhaldsskóla:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meginmarkmið með endurskoðuðu líkani er að gera það einfaldara og gegnsærra en fyrra líkan og að það styðji við breytingar sem orðið hafa í framhaldsskólakerfinu á síðastliðnum árum. Líkanið er samansett af eftirfarandi fjórum þáttum: Nám og kennsla, þjónustuframlag, önnur framlög til skóla og útskriftarframlag.
    Hver skóli fær útdeilt fjármagni í fjárlögum sem honum ber að ráðstafa í samræmi við hlutverk sitt og verkefni en þeim er í sjálfsvald sett hvernig þeir skipuleggja sitt skólastarf út frá lögum um framhaldsskóla og aðalnámskrá framhaldsskóla.
    Seinni taflan sýnir skiptingu fjármagns á hvern framhaldsskóla samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.