Ferill 878. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1820  —  878. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Íslenska dansflokksins.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Íslenski dansflokkurinn?
    Lög um sviðslistir, nr. 165/2019, taka gildi 1. júlí 2020 og munu þau leysa af hólmi gildandi leiklistarlög, nr. 138/1998. Skv. 9. gr. laga um sviðslistir er hlutverk Íslenska dansflokksins að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist. Í 10. gr. laganna kemur fram að aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að sýningarferðum.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Íslenska dansflokksins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði við hvert lögbundið verkefni er ekki deilt niður í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Íslenska dansflokksins fellur undir málefnasvið 18. Fjárheimild Íslenska dansflokksins samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 225,2 millj. kr.