Ferill 877. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1821  —  877. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Kvikmyndamiðstöð Íslands?
    Verkefni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands skv. 3. gr. kvikmyndalaga, nr. 137/2001, eru að:
     1.      Hafa umsjón með rekstri og starfsemi Kvikmyndasjóðs.
     2.      Stuðla að kynningu, útbreiðslu og sölu á íslenskum kvikmyndum hér á landi og erlendis og afla upplýsinga um íslenskar kvikmyndir og gefa þær út.
     3.      Efla kvikmyndamenningu á Íslandi.
     4.      Stuðla að auknum samskiptum við erlenda aðila á sviði kvikmyndamála.
    Auk þess hefur Kvikmyndamiðstöð umsjón með tímabundnum endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, sbr. lög nr. 43/1999, samkvæmt þjónustusamningi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Kvikmyndamiðstöð hefur einnig umsjón með styrkveitingum vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi, sbr. reglugerð nr. 1349/2018.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Kvikmyndamiðstöðvar Íslands fellur undir málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og málaflokk 18.20 Menningarstofnanir. Starfsemi Kvikmyndasjóðs fellur undir málaflokk 18.30 Menningarsjóðir. Heildarfjárveiting til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands er 132,2 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020. Heildarfjárveiting til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi er 691,4 millj. kr. fyrir árið 2020. Heildarfjárveiting til Kvikmyndasjóðs er 1.109,8 millj. kr. fyrir árið 2020. Af fyrstu fimm mánuðum ársins 2020 hefur Kvikmyndasjóður veitt styrki að upphæð 202,7 millj. kr. og veitt vilyrði fyrir styrkjum að upphæð 422 millj. kr.