Ferill 875. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1823  —  875. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Menntamálastofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Menntamálastofnun?
         Lögbundið hlutverk Menntamálastofnunar er tilgreint í lögum um Menntamálastofnun, nr. 91/2015. Samkvæmt lögunum sinnir stofnunin verkefnum á sviði menntamála sem stuðla að umbótum og framþróun í skólastarfi. Einnig ber stofnuninni að sinna þeim verkefnum sem ráðherra kann að fela stofnuninni. Í 5. gr. laganna er að finna umfjöllun um verkefni stofnunarinnar en þau eru eftirfarandi:
     a.      sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að verða falið,
     b.      annast söfnun, greiningu og birtingu upplýsinga um menntamál,
     c.      hafa eftirlit með og meta árangur af skólastarfi og bera saman við sett viðmið,
     d.      veita stjórnvöldum, fagaðilum og almenningi upplýsingar og leiðbeiningar um málefni á verksviði stofnunarinnar,
     e.      sinna framkvæmd laga, reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla,
     f.      veita ráðherra aðstoð og ráðgjöf við undirbúning laga, reglugerða og aðalnámskráa á sviði menntamála og
     g.      annast önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögum, reglugerðum eða samkvæmt ákvörðun ráðherra.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Menntamálastofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði við hvert lögbundið verkefni er ekki deilt niður í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Menntamálastofnunar fellur undir málefnasvið 22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála og málaflokk 22.3 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála. Fjárheimild Menntamálastofnunar samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 1.144,3 millj. kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.