Ferill 874. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1824  —  874. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Miðstöðvar íslenskra bókmennta.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Miðstöð íslenskra bókmennta?
    Viðfangsefni Miðstöðvar íslenskra bókmennta skv. 2. gr. laga nr. 91/2007, um bókmenntir, er að:
     a.      styrkja útgáfu íslenskra ritverka og útgáfu erlendra bókmennta á íslenskri tungu með fjárframlögum úr bókmenntasjóði, sbr. 4. gr. laganna,
     b.      kynna íslenskar bókmenntir hér á landi og erlendis og stuðla að útbreiðslu þeirra og
     c.      efla bókmenningu á Íslandi.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Miðstöðvar íslenskra bókmennta og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta fellur undir málefnasvið 18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál og málaflokk 18.30 Menningarsjóðir. Í fjárlögum fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 110,5 millj. kr. heildarframlagi til miðstöðvarinnar. Framlag til miðstöðvarinnar á fjárlögum fyrir árið 2019 var 110,5 millj. kr. auk annarra tekna að fjárhæð 13,8 millj. kr. Miðstöðin hafði því samtals til ráðstöfunar á árinu 2019 124,3 millj. kr. Af því fóru 84,1 millj. kr. í heildarúthlutun styrkja og 27,5 millj. kr. í rekstrarkostnað. Annar kostnaður hjá miðstöðinni er vegna ýmiss konar kynningarstarfs innan lands og utan og útgáfu.