Ferill 871. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1827  —  871. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Ríkisútvarpsins.

     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Ríkisútvarpið?
    Ríkisútvarpinu er með lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, falið að annast fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í því felst að framleiða og miðla fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni. Efni Ríkisútvarpsins skal senda út á a.m.k. tveimur hljóðvarpsrásum og a.m.k. einni sjónvarpsrás.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Ríkisútvarpsins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaður við hvert lögbundið verkefni er ekki tilgreindur í fjárlögum heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum til hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Ríkisútvarpsins fellur undir málefnasvið 19.10 Fjölmiðlun. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 fær Ríkisútvarpið greiddar 4.825.000.000 kr. úr ríkissjóði sem byggist á áætlun um innheimt útvarpsgjald. Árið 2019 aflaði Ríkisútvarpið tekna að fjárhæð 2.202.657.000 kr.