Ferill 868. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1830  —  868. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum?
    Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á sér stoð í lögum um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006. Þar segir í 1. gr. að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sé háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyri undir mennta- og menningarmálaráðherra. Stofnunin hafi náin tengsl við Háskóla Íslands og sé hluti af fræðasamfélagi hans. Þá kemur fram í 2. gr. sömu laga að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fari með varðveislu og umsjón handrita og skjalagagna sem afhent voru samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands um flutning hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar og Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn í vörslu og umsjón Háskóla Íslands, dagsettum 1. júlí 1965 og fullgiltum 1. apríl 1971.
    Í 3. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kemur fram að hlutverk hennar sé að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bókmennta, að miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á. Hlutverk sitt rækir stofnunin einkum með því að:
     a.      afla frumgagna á fræðasviði sínu og varðveita þau, safna þjóðfræðum og heimildum um íslenskan orða- og nafnaforða og gera þessi gögn aðgengileg fyrir fræðimenn og almenning;
     b.      rannsaka handrit, þjóðfræðasöfn og aðrar heimildir um íslenska tungu, bókmenntir og sögu, sinna orðfræði- og nafnfræðirannsóknum og verkefnum á sviði tungutækni;
     c.      stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri tungu, eflingu hennar og varðveislu í ræðu og riti og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli, þar á meðal um íðorð og nýyrði;
     d.      efla samstarf á fræðasviðum stofnunarinnar á innlendum og erlendum vettvangi og auka þekkingu á íslenskum fræðum meðal almennings og í alþjóðlegu fræðasamfélagi og taka þátt í samstarfi um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis;
     e.      gefa út fræðirit, texta eftir handritum, þjóðfræðaefni og orða- og nafnabækur;
     f.      vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020, sbr. auglýsingu nr. 1379/2019 í B-deild Stjórnartíðinda, er 634,3 millj. kr. að frádregnum sértekjum að fjárhæð 115,4 millj. kr. Fjárveitingar eru ekki sundurliðaðar eftir lögbundnum verkefnum stofnana í fjárlögum. Eftirfarandi skipting á viðföng kemur fram í fylgiriti með fjárlögum:

02-209 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 634,3
02-209.101 Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 630,3
02-209.601 Tæki og búnaður 4,0