Ferill 866. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1833  —  866. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Þjóðleikhússins.



     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Þjóðleikhúsið?
    Lög um sviðslistir, nr. 165/2019, tóku gildi 1. júlí 2020 og leystu þau af hólmi núgildandi leiklistarlög, nr. 138/1998. Samkvæmt 2. gr. sviðslistalaga er Þjóðleikhúsið eign íslensku þjóðarinnar. Í því skal iðka leiklist og aðrar sviðslistir. Þjóðleikhúsið skal stuðla að þróun sviðslista og nýsköpunar, efla íslenska leikritun, leitast við að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á íslensku. Í 3. gr. sviðslistalaga kemur fram að aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra leikverka, jafnt eldri verka sem nýrra, og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggt skal að á hverju leikári séu frumflutt íslensk leikverk og sett upp verk ætluð börnum og ungu fólki. Leikhúsið annast einnig fræðslu- og kynningarstarf og stendur að leikferðum innan lands og til annarra landa og því að fengnir séu til Íslands erlendir listamenn, eftir því sem aðstæður leyfa.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Þjóðleikhússins og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Kostnaði við hvert lögbundið verkefni er ekki deilt niður í fjárlögum, heldur er gerð grein fyrir fjárheimildum vegna hvers málefnasviðs og málaflokks. Starfsemi Þjóðleikhússins fellur undir málefnasvið 18. Fjárheimild Þjóðleikhússins samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 1772,2 millj. kr.