Ferill 888. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1837  —  888. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur um jarðgöng á Austurlandi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Er ráðherra að vinna að áætlun um jarðgöng á Austurlandi og ef svo er, hversu langt er hún komin í vinnslu?

    Í tillögu að samgönguáætlun 2020–2024 er lagt til að ráðist verði í göng undir Fjarðarheiði og að framkvæmdir hefjist árið 2022. Í tillögu að samgönguáætlun 2020–2034 er lagt til að hafnar verði framkvæmdir við Mjóafjarðargöng/Seyðisfjarðargöng á þriðja tímabili áætlunarinnar sem byrjar 2030. Einnig kemur fram í greinargerð með áætluninni að unnin verði heildstæð greining á jarðgangakostum á Íslandi. Valkostir á einstökum leiðum verði þar metnir með tilliti til fýsileika, kostnaðar og félagsfræðilegs ábata. Á grunni þeirrar greiningar verði svo hægt að forgangsraða jarðgangakostum til lengri tíma sem mynda jarðgangaáætlun.
    Rétt er að benda á að á Austurlandi hafa þegar verið gerð tvenn göng:
    Göng frá Reyðarfirði til Fáskrúðsfjarðar, Fáskrúðsfjarðargöng, 5,9 km löng.
    Göng frá Eskifirði til Norðfjarðar, Norðfjarðargöng 7,9 km.
    Í júní 2019 kom út skýrsla starfshóps um jarðgöng á Mið-Austurlandi Seyðisfjarðargöng: Valkostir og áhrif á Austurlandi. 1 Í skýrslunni eru settar fram tillögur að þrennum jarðgöngum:
    Göngum frá Norðfirði til Mjóafjarðar, Mjóafjarðargöng, 6,9 km
    Göngum frá Mjóafirði til Seyðisfjarðar, Seyðisfjarðargöng, 5,4 km
    Göngum frá Héraði til Seyðisfjarðar, Fjarðarheiðargöng, 13,3 km
    Miðað við þessi áform yrði kominn hringvegur um Austfirði að þeim loknum.
    Að neðan er mynd úr skýrslu starfshópsins sem sýnir legu ganganna.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.














    Unnið er að forhönnun Fjarðarheiðarganga samkvæmt samgönguáætlun og er það verk komið vel á veg.
    Valdir hafa verið líklegir staðir fyrir munna Mjóafjarðarganga og Seyðisfjarðarganga. Vegur hefur verið hannaður að þeim.
    Í Fannardal er gert ráð fyrir vegamótum 450 m frá munna Norðfjarðarganga. Þaðan mun liggja 1.800 m vegur að munna Mjóafjarðarganga. Munni Mjóafjarðarganga mun verða rétt við bæinn Fannardal í um 130 m hæð yfir sjávarmáli.
    Í Mjóafirði er gert ráð fyrir munnum beggja ganga, þ.e. Mjóafjarðarganga og Seyðisfjarðarganga, mjög nærri fjarðarbotninum í minna en 10 m hæð yfir sjávarmáli. Á milli þeirra yrði um 800 m langur vegur.
    Í Seyðisfirði er gert ráð fyrir munna Seyðisfjarðarganga við Gufufoss skammt frá áætluðum munna Fjarðarheiðarganga í um 130 m hæð yfir sjávarmáli. Til greina getur komið að munninn yrði lægra og utar í firðinum. Það mundi þýða lengri göng og lengri akstursleiðir. Þetta er sýnt á myndinni hér að neðan. Myndin er úr fyrrnefndri skýrslu starfshópsins:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





















     Mynd: Hugsuð vegamót við Gufufoss í botni Seyðisfjarðar. Munni Seyðisfjarðarganga neðst á myndinni. Munni Fjarðarheiðarganga hinum megin við ána nærri miðri mynd. Það yrðu nærri 500 m á milli ganganna. Vegurinn upp frá hringtorginu liggur upp á Fjarðarheiði meðal annars að skíðasvæði í Stafdal.
    Bæði Mjófjarðargöng og Seyðisfjarðargöng hafa því verið skilgreind. Hugsanlegt er að þau breytist að einhverju leyti við frekari hönnun. Jarðfræðilegar aðstæður hafa ekki verið skoðaðar nýlega. Þó liggja yfirlitsrannsóknir fyrir um legu beggja ganga. Ekki er vitað um neitt sérstakt sem gæti valdið erfiðleikum. Eftir því sem fram vindur rannsóknum og undirbúningi verða allar aðstæður skoðaðar nánar.
    Ekki hefur verið unnið að undirbúningi annarra ganga undanfarið.

1     www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Sey%C3%B0isfjar%C3%B0arg%C3%B6ng_sk %C3%BDrsla.pdf