Ferill 702. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1840  —  702. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um fjölda starfsmanna ráðuneyta og stofnana sem láta af störfum fyrir aldurs sakir.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu margir starfsmenn ráðuneyta og stofnana þeirra láta af störfum fyrir aldurs sakir á árunum 2020, 2021 og 2022 miðað við gildandi reglur um starfslok vegna aldurs? Svar óskast sundurliðað eftir árum.

    Í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er kveðið á um 70 ára aldurshámark starfsmanna ríkisins. Aftur á móti getur starfsfólk að jafnaði hafið töku eftirlauna úr lífeyrissjóði hvenær sem er frá 60 ára aldri þó að skilyrði til töku þeirra séu breytileg eftir sjóðum. Algengasti viðmiðunaraldur fyrir töku eftirlauna úr lífeyrissjóði er við 67 ára aldur.
    Fram til ársins 2022 munu 726 starfsmenn, eða 3,2% af heildarfjölda, ná 70 ára aldri. Að sama skapi eru nú starfandi 1.992 starfsmenn, eða 8,7%, sem eru eða verða 67 ára eða eldri fram til ársins 2022. Fjöldi stöðugilda er nokkru færri enda er vel þekkt að starfsfólk sem nálgast eftirlaun sinni hlutastarfi í aðdraganda starfsloka. Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda ríkisstarfsmanna sem munu ná a.m.k. 60 ára aldri á árunum frá 2020 til 2022 og eiga þar með kost á hefja töku eftirlauna á tímabilinu.
    Miðað er við upplýsingar úr Orra, mannauðskerfi ríkisins, og miðað við árslok 2019. Yfirlitið sýnir fjölda kennitalna, raðað eftir aldri og fæðingarári, og sýnir fjölda starfsmanna sem er á bilinu 60 til 70 ára á næstu þremur árum. Í árslok 2019 voru um 22 þúsund starfsmenn í 18.090 stöðugildum í mannauðskerfinu.

Fæðingarár Aldur á árinu 2020 Fjöldi Hlutfall af heildarfjölda
1950 70 ára 201 0,9%
1951 69 ára 226 1,0%
1952 68 ára 299 1,3%
1953 67 ára 394 1,7%
1954 66 ára 407 1,8%
1955 65 ára 465 2,0%
1956 64 ára 496 2,2%
1957 63 ára 496 2,2%
1958 62 ára 538 2,4%
1959 61 ára 500 2,2%
1960 60 ára 505 2,2%
1961 59 ára 510 2,2%
1962 58 ára 498 2,2%