Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1854  —  27. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (frádráttur vegna kolefnisjöfnunar).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Vilmar Frey Sævarsson og Hlyn Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Bryndísi Gunnlaugsdóttur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Við umfjöllun um sambærilegt mál á síðasta þingi (497. mál á 149. löggjafarþingi) fékk nefndin á sinn fund Árna Bragason frá Landgræðslu ríkisins og Aðalstein Sigurgeirsson og Þorberg Hjalta Jónsson frá Skógræktinni. Nefndinni hafa borist umsagnir um málin frá Landgræðslu ríkisins, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Félagi atvinnurekenda, KPMG ehf., Skattinum, Samtökum ferðaþjónustunnar, Skógræktarfélagi Íslands, Skógræktinni, Viðskiptaráði Íslands og Votlendissjóði.
    Með frumvarpinu er lagt til að nýr töluliður bætist við 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þannig að heimilt verði að draga fjárframlög til kolefnisjöfnunar frá tekjuskattsstofni samkvæmt ákvæðinu, þó að hámarki 0,85% af tekjum skv. B-lið 7. gr. laganna á því ári þegar framlög eru innt af hendi.
    Í 2. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga er að finna heimild til að draga frá tekjum gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af árstekjum. Í samráði við ráðuneytið leggur nefndin til að í stað þess nýr töluliður bætist við 31. gr. verði 2. tölul. ákvæðisins breytt þannig að framlög til aðgerða sem stuðla að kolefnisjöfnun bætist þar við. Einnig telur nefndin rétt að miðað verði við sama hámarksfrádrátt og við á samkvæmt ákvæðinu, þ.e. 0,75% af árstekjum. Loks telur nefndin óþarft að kveða nákvæmlega á um það í lagatexta hvað teljist til framlaga í skilningi ákvæðisins og leggur til orðalagsbreytingar til einföldunar.
Samkvæmt kostnaðarmati sem unnið var á nefndasviði Alþingis er talið að áhrif á ríkissjóð, verði frumvarpið samþykkt, geti orðið neikvæð um á bilinu 200–300 millj. kr. á ári.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    2. tölul. 31. gr. laganna orðast svo: Einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa, þó ekki yfir 0,75% af tekjum skv. B-lið 7. gr. á því ári þegar gjöf er afhent eða framlag innt af hendi. Hið sama á við um framlög til aðgerða sem stuðla eiga að kolefnisjöfnun, svo sem aðgerða í rekstri til kolefnisjöfnunar, sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um hvaða málaflokkar og stofnanir falla undir þennan tölulið og um framkvæmd hans að öðru leyti.

    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 24. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form.
Ólafur Þór Gunnarsson, frsm. Jón Steindór Valdimarsson.
Brynjar Níelsson. Bryndís Haraldsdóttir. Oddný G. Harðardóttir.
Smári McCarthy. Willum Þór Þórsson.