Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1855  —  34. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (söluhagnaður).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Vilmar Frey Sævarsson og Hlyn Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Guðrúnu V. Steingrímsdóttur frá Bændasamtökum Íslands. Við umfjöllun um sams konar frumvarp á síðasta þingi (18. mál á 149. löggjafarþingi) fékk nefndin á sinn fund Árna Bragason frá Landgræðslu ríkisins og Aðalstein Sigurgeirsson og Þorberg Hjalta Jónsson frá Skógræktinni.
    Nefndinni barst umsögn um málið frá Skattinum. Á fyrra þingi bárust nefndinni umsagnir um sambærilegt mál frá Skattinum, Búnaðarsamtökum Eyjafjarðar, Bændasamtökum Íslands og Einari Ófeigi Björnssyni.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 1. mgr. 27. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þannig að unnt verði að dreifa skattskyldum söluhagnaði þar sem hluti söluandvirðis er greiddur með skuldaviðurkenningu á allt að 20 ár í stað sjö. Er með frumvarpinu leitast við að auðvelda kynslóðaskipti á fyrirtækjum og bújörðum í rekstri.
    Í umsögn sinni bendir Skatturinn m.a. á að heimild til dreifingar á söluhagnaði skv. 27. gr. tekjuskattslaga hafi ekki verið mikið notuð á undanförum árum. Líklegt sé þó að nýting hennar aukist verði heimildin rýmkuð. Skatturinn vekur athygli á því að líklegt sé að meiri hluti þeirra sem muni nýta sér heimildina muni gera það vegna söluhagnaðar af hlutabréfum sem ekki tengjast búrekstri. Þá bendir Skatturinn á að verði heimildin rýmkuð úr sjö árum í tuttugu muni fjölga þeim tilvikum þar sem skattakvöð færist yfir til erfingja. Veruleg hætta sé á að oft muni erfingjar ekki gera sér grein fyrir að fengnum arfi fylgi einnig skattakvöð.
    Að höfðu samráði við ráðuneytið telur meiri hlutinn rétt að bregðast við athugasemdum Skattsins sem lúta að umfangi frumvarpsins. Leggur meiri hlutinn til breytingu þannig að heimild til að dreifa söluhagnaði á 20 ár nái einungis til hagnaðar af sölu bújarða þar sem stundaður er landbúnaður. Að auki leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökugrein frumvarpsins þannig að frumvarpið öðlist þegar gildi. Söluhagnaður sem myndast eftir gildistökuna heyrir þannig undir ákvæðið.
    Að þessu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. gr. orðist svo:
                  Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. er heimilt að dreifa söluhagnaði á 20 ár þegar um er að ræða hagnað af sölu bújarða þar sem stundaður er landbúnaður.
     2.      2. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Jón Steindór Valdimarsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hann hyggst gera grein fyrir í ræðu.

Alþingi, 24. júní 2020.

Óli Björn Kárason,
form., frsm.
Jón Steindór Valdimarsson,
með fyrirvara.
Brynjar Níelsson.
Bryndís Haraldsdóttir. Ólafur Þór Gunnarsson. Willum Þór Þórsson.