Ferill 390. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1856  —  390. mál.
2. umræða.Framhaldsnefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til lyfjalaga.

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað frekar um málið og hefur meiri hlutinn ákveðið að leggja til breytingar á breytingartillögum meiri hlutans í ljósi frekari umræðu.
    Í 12. tölul. breytingartillögu meiri hlutans er lagt til að ráðherra verði falið að skipa lyfjanefnd Landspítala samkvæmt tilnefningu Lyfjastofnunar. Í nefndaráliti meiri hlutans eru færð þau rök fyrir framangreindri breytingu að með því að færa skipun lyfjanefndar frá forstjóra Landspítala og til ráðherra samkvæmt tilnefningu Landspítalans sé leitast við að tryggja það að lyfjanefnd Landspítala hafi eins mikið sjálfstæði í störfum sínum og hægt er. Meiri hlutinn hefur orðið þess áskynja að framangreind breytingartillaga gangi of langt og kallist á við d-lið 3. kafla lyfjastefnu til ársins 2022, sbr. ályktun Alþingis nr. 17/146, um að saman fari fagleg og fjárhagsleg ábyrgð við ákvarðanatöku um notkun leyfisskyldra lyfja. Leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis að ráðherra skipi í lyfjanefnd Landspítala samkvæmt tilnefningum forstjóra Landspítala. Þá leggur meiri hlutinn til að a-liður í 12. tölul. breytingartillögu meiri hlutans falli brott til samræmis við lyfjastefnu. Með framangreindri breytingu er miðað að því að réttur til tilnefningar í lyfjanefndina sé hjá þeirri stofnun sem hefur hvað breiðasta þekkingu á sviði heilbrigðismála. Meiri hlutinn telur mikilvægt að við tilnefningu nefndarmanna, sem og við skipun þeirra, verði tryggt að innan hennar verði til staðar sérfræðiþekking á heilbrigðiskerfum þeirra landa sem almennt er litið til hér á landi við mótun heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. þekking á stefnumótun og ákvarðanatöku í lyfjamálum þeirra landa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 12. tölul. breytingartillögu á þingskjali 1722.
     a.      A-liður falli brott.
     b.      Í stað orðsins „Lyfjastofnunar“ í 1. efnismálsl. b-liðar komi: forstjóra Landspítala.

    Helga Vala Helgadóttir og Guðmundur Ingi Kristinsson rita undir nefndarálit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 25. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., með fyrirvara.
Ólafur Þór Gunnarsson,
frsm.
Ásmundur Friðriksson.
Guðmundur Ingi Kristinsson,
með fyrirvara.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Lilja Rafney Magnúsdóttir.