Ferill 446. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1857  —  446. mál.
2. umræða.Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (stofnanir á málefnasviði heilbrigðisráðherra).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sævar Bachmann Kjartansson og Rögnvald G. Gunnarsson frá heilbrigðisráðuneyti, Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd og Sigríði Haraldsdóttur, Hólmar Örn Finnsson, Inga Steinar Ingason og Jóhann M. Lenharðsson frá embætti landlæknis.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá embætti landlæknis, Persónuvernd og Sjúkratryggingum Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum á málefnasviði heilbrigðisráðherra til samræmis við ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018.

Umfjöllun nefndarinnar.
Umsögn embættis landlæknis.
    Embætti landlæknis gerir í umsögn sinni athugasemd við skort á lagastoð fyrir uppbyggingu og rekstri miðlægra hugbúnaðarlausna, svo sem Heklu heilbrigðisnets, Heilsuveru, samtengingu sjúkraskráa og þróun á sjúkrakerfinu Sögu. Telur embættið þörf á að hlutverk landlæknis og heilbrigðisstofnana sem nýta sér slíkar lausnir sé skýrt í lögum.
    Fyrir nefndinni kom fram að heilbrigðisráðuneytið tæki undir þessi sjónarmið en jafnframt var bent á að við undirbúning frumvarpsins hafi þessi sjónarmið komið til tals. Hafi ráðuneytið lagt til að slík breyting yrði unnin sjálfstætt, þ.e. ekki sem hluti af því frumvarpi sem hér um ræðir, þar sem um efnislega breytingu á hlutverki embættis landlæknis væri að ræða en ekki breytingar vegna nýrra persónuverndarlaga.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og telur farsælla að frumvarp með efnislegri breytingu á hlutverki embættis landlæknis fái sjálfstæða umfjöllun á Alþingi.
    Embætti landlæknis gerir einnig athugasemdir við skort á lagaheimild fyrir vinnslu og miðlun sóttvarnalæknis á viðkvæmum persónuupplýsingum til að sporna við heimsfaraldri kórónuveiru.
    Með frumvarpinu er sóttvarnalækni veitt heimild til vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar og lyfjanotkun einstaklinga, í þeim tilgangi að verjast heilsufarsógnum og til að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt sóttvarnalögum, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Meiri hlutinn telur að ákvæði 7. gr. frumvarpsins veiti fullnægjandi heimild fyrir nauðsynlegri vinnslu sóttvarnalæknis til að sinna lögbundnu hlutverki sínu.

Umsögn Sjúkratrygginga Íslands.
    Í umsögn Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að verði frumvarpið að lögum verði ósamræmi milli laga um sjúkratryggingar og fyrirhugaðra breytinga á lyfjalögum.
    Fyrir nefndinni kom fram að ekki væri talið að slíkt ósamræmi yrði vegna umræddrar breytingar. Með frumvarpi til lyfjalaga er ekki lögð til breyting á skyldu Sjúkratrygginga Íslands til að halda miðlægan lyfjagreiðslugrunn, sbr. 12. gr. frumvarpsins um breytingu á 29. gr. a laga um sjúkratryggingar, heldur er heilbrigðisstofnunum veitt heimild til að fá aðgang að grunninum til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Meiri hlutinn telur því ekki ástæðu til að breyta umræddu ákvæði.

Breytingartillögur nefndarinnar.
Starfsleyfaskrá um heilbrigðisstarfsmenn (6. gr.).
    Í umsögn embættis landlæknis er það talið nauðsynlegt að í starfsleyfaskrá verði einnig birtur fæðingardagur og fæðingarár þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem hlotið hafa starfsleyfi, til að tryggja einkvæma auðkenningu. Tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið embættisins og leggur til, að viðhöfðu samráði við heilbrigðisráðuneytið, að við 6. gr. frumvarpsins verði bætt heimild til birtingar upplýsinga um fæðingardag og fæðingarár.

Reglugerðarheimild 22. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
    Í umsögn embættis landlæknis koma fram athugasemdir við ákvæði frumvarpsins, m.a. um það hvaða persónuupplýsingar heimilt sé að vinna og til hvaða ráðstafana skuli gripið til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða. Tekur meiri hlutinn undir athugasemd embættis landlæknis og leggur til, að viðhöfðu samráði við heilbrigðisráðuneyti, að 22. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, verði nánar útfærð og kveðið á um skyldu ráðherra til að setja reglugerð m.a. um hvaða persónuupplýsingar heimilt sé að vinna og til hvaða sértæku ráðstafana skuli gripið til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða.

Miðlægur lyfjagreiðslugrunnur (12. gr.).
    Í 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 29. gr. a laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Í áðurnefndri 29. gr. a er fjallað um miðlægan lyfjagreiðslugrunn. Í frumvarpinu er lagt til að heilbrigðisstofnunum verði heimilt að tengjast gagnagrunninum, nýta upplýsingar gagnagrunnsins og veita upplýsingar í hann, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
    Í umsögn Persónuverndar kemur m.a. fram að það sé mat stofnunarinnar að tilgreina þurfi betur tilgang þeirrar vinnslu sem lögð er til í ákvæðinu sjálfu. Enn fremur telur Persónuvernd að afmarka verði ákvæðið með nánari hætti með tilgreiningu hins lögbundna hlutverks stofnananna og beinni skírskotun til þeirra laga sem skilgreina hlutverk þeirra.
    Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið Persónuverndar og leggur til, að viðhöfðu samráði við heilbrigðisráðuneytið, að við 12. gr. frumvarpsins bætist nýr málsliður þar sem tilgangur vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli greinarinnar er afmarkaður nánar og vísað til þeirra laga sem hlutverk viðkomandi stofnunar byggist á.

    Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingar til leiðréttingar og lagfæringar. Þær breytingar eru tæknilegs eðlis og þeim er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:     1.      Í stað 2. og 3. gr. komi ein ný grein, svohljóðandi:
                  Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
                  a.      3. mgr. orðast svo:
                       Heimilt er að safna lífsýnum vegna þjónusturannsókna og vista lífsýni í lífsýnasafni þjónustusýna til notkunar skv. 9. gr., enda sé þess getið í almennum upplýsingum frá heilbrigðisstarfsmanni eða heilbrigðisstofnun.
                  b.      Í stað orðanna „afturkallað ætlað samþykki sitt fyrir að sýni hans verði vistað“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: krafist þess að lífsýni hans verði ekki vistað.
                  c.      Í stað orðsins „Beiðni“ í 2. málsl. 4. mgr. kemur: Krafa.
                  d.      Í stað orðsins „beiðni“ í 3. málsl. 4. mgr. kemur: kröfu.
                  e.      Í stað orðsins „ósk“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: kröfu.
     2.      Á eftir 3. gr. komi tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
                  a.      (3. gr.)
                       Í stað orðanna „ætlað samþykki lífsýnisgjafa vegna þjónusturannsóknar“ í 1. mgr. 13. gr. laganna komi: heimild til að safna lífsýnum og vista í lífsýnasafni þjónustusýna.
                  b.      (4. gr.)
                       Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
                      a.      Í stað orðanna „ætlað samþykki“ í 2. mgr. kemur: heimild til að safna lífsýnum og vista í lífsýnasafni þjónustusýna.
                      b.      Í stað orðanna „afturköllun á ætluðu samþykki lífsýnisgjafa“ í 2. mgr. kemur: krafa lífsýnisgjafa.
     3.      Á eftir orðunum „birta upplýsingar um nafn“ í 6. gr. komi: fæðingardag, fæðingarár.
     4.      Á eftir 6. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  22. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, m.a. um hvaða persónuupplýsingar heimilt sé að vinna og til hvaða sértæku ráðstafana skuli gripið til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða.
     5.      Við 12. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tilgangur vinnslunnar skal vera að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að vinna að öruggri og skynsamlegri umsýslu lyfja og að uppfylla lögbundnar skyldur samkvæmt lyfjalögum og lögum um heilbrigðisþjónustu.

Alþingi, 22. júní 2020.

Ólafur Þór Gunnarsson,
1. varaform.
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
frsm.
Birgir Ármannsson.
Halla Signý Kristjánsdóttir. Vilhjálmur Árnason.