Ferill 610. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


n150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1863  —  610. mál.
2. umræða.Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum (almenn endurskoðun og norrænn samstarfssamningur).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Sagan sýnir að sterkt og virkt samkeppniseftirlit er nauðsynleg forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi og neytendavernd. Á fámennum og litlum markaði þarf feta stíginn milli stærðarhagkvæmni og virkrar samkeppni. Flestir markaðir leita í fákeppni og það kallar á öflugt og skilvirkt samkeppniseftirlit. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu bera með sér að hagsmunum neytenda hafi ekki verið gefinn nægur gaumur. Hið sama á við um stöðu og vernd minni aðila á markaði.
     Fyrsti minni hluti fellst ekki á að frumvarpið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að ljúka afgreiðslu þess á yfirstandandi þingi. Þvert á móti þarf að gefa rýmri tíma í verkið. Starfshópar hafa verið skipaðir af minna tilefni. Þar væri hægt að draga öll sjónarmið að borðinu og taka afstöðu til þeirra margháttuðu athugasemda sem gerðar hafa verið við efni frumvarpsins.
    Samhliða uppbyggingu efnahagsins eftir heimsfaraldur kórónuveiru á grundvelli ýmissa sérráðstafana til handa lögaðilum er aukin hætta á markaðsbrestum. Taka verður tillit til þess þegar samkeppnislögum er breytt og líta til þess hvaða áhrif breytingarnar kunni að hafa á markaði og dómaframkvæmd. Það blasir við að umtalsverð uppstokkun verður á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem getur leitt til óæskilegrar samþjöppunar og óskilvirkra markaða. Við þessar aðstæður þarf Samkeppniseftirlitið að vera öflugt og hafa tæki og tól til þess að takast á við það viðfangsefni. Þegar af þessari ástæðu þarf nánari ígrundun og undirbúning fyrir breytingar á samkeppnislögum.
    Allt frá því að frumvarpið var lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda og síðar við umfjöllun í nefndinni hafa komið fram fjölmargar athugasemdir um einstök atriði sem orka mjög tvímælis og athygli vakin á atriðum sem þarfnast nánari skýringa vegna óvissu um réttaráhrif og framþróun samkeppnisréttarins og túlkun hans. Þá er óhjákvæmilegt að heimsfaraldur kórónuveiru setji hér strik í reikninginn því við blasir að umtalsverðar breytingar verða á skipan fyrirtækjarekstrar hér á landi á næstu missirum.
    Meiri hlutinn hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarpið. Þær breyta engu um það álit 1. minni hluta að taka þurfi málið allt upp frá grunni.
    Fyrsti minni hluti telur að ekki verði hjá því komist að taka til frekari skoðunar þá gagnrýni sem hefur komið fram. Leggur 1. minni hluti því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem það sæti skoðun í ljósi fram kominna athugasemda, en ekki síður þeirra aðstæðna sem hafa skapast vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Mikilvægt er að við þá skoðun fari fram víðtækt samráð við alla haghafa til að tryggja að öll sjónarmið komi að borðinu áður en frumvarp um breytingar á samkeppnislögum verður lagt fram að nýju.
    Inga Sæland, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, styður þetta nefndarálit.

Alþingi, 25. júní 2020.

Oddný G. Harðardóttir,
frsm.
Jón Steindór Valdimarsson. Smári McCarthy.