Ferill 841. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1864  —  841. mál.
2. umræða.Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Ríkisstjórnin hefur lagt fram þrjú frumvörp til fjáraukalaga vegna viðbragða sinna við kórónuveirufaraldrinum. Öll þessi frumvörp hafa verið gagnrýnd fyrir að þau dugi ekki til að mæta þeim vanda sem íslensk heimili og atvinnulíf glíma við.
    Það segir sína sögu að um 75% af umfangi aðgerða ríkisstjórnarinnar eru annars vegar atvinnuleysisbætur og hins vegar niðurgreiðsla á launum á uppsagnarfresti. Einungis 5% af aðgerðunum fara til nýsköpunar.
    Ekki glittir í neina metnaðarfulla framtíðarsýn í þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar en Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir fjárfestingaráætlun til að mæta þeim vanda sem þjóðarbúið glímir við. Í síðasta hruni lagði ríkisstjórn Samfylkingarinnar fram sérstaka fjárfestingaráætlun fyrir Ísland. Áherslan var á grænt hagkerfi nýsköpunar, hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífinu. Aðgerðir í þeirri áætlun voru m.a. fjármagnaðar með auðlindagjöldum. Nú þarf þjóðin nýja áætlun og aukinn arð af sínum eigin auðlindum. Ef ekki núna hvenær þá?
    Það skiptir miklu máli að hið opinbera tryggi störf en einnig að það búi til ný störf. Það eru gömul og ný sannindi að það ber að gera í kreppuástandi. Þessi ríkisstjórn gerir það hins vegar ekki. Í því sambandi er nýsköpun lausnarorðið.

Verjum félagslega kerfið.
    Í umsögn Alþýðusambands Íslands eru ítrekaður fyrri áherslur þess um mikilvægi þess að við núverandi aðstæður leggi stjórnvöld áherslu á að tryggja afkomu- og húsnæðisöryggi heimilanna, styðji við atvinnuleitendur, sér í lagi með því að styrkja atvinnuleysisbótakerfið, efli virkar vinnumarkaðsaðgerðir og menntunarúrræði og standi vörð um félagslega grunninnviði til að tryggja þjónustu hins opinbera í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfinu.
    ASÍ segir að undir engum kringumstæðum megi mæta fyrirséðum hallarekstri hins opinbera með niðurskurði í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfinu eða aðhaldi í afkomutryggingakerfunum og tekur 1. minni hluti undir þau orð.
    BSRB minnti á í umsögn sinni að ekki mætti mæta þessum tímabundna halla með því að skera niður framlög til opinberrar þjónustu. Þvert á móti bæri að efla opinbera heilbrigðis-, félags- og umönnunarþjónustu til að bæta heilsu og velsæld sem til lengri tíma litið yki framleiðni launafólks og leiddi til hærra atvinnustigs og yki þar með tekjur ríkissjóðs.
    Í síðasta hruni fóru stjórnvöld svokallaða blandaða leið til að mæta minnkandi tekjum og auknum útgjöldum. Það var reynt að hlífa velferðarkerfinu og menntakerfinu en ákveðnir skattar voru hækkaðir og auðlindagjöld sömuleiðis. Þetta er umræða sem á eftir að taka og verður erfið. Við þurfum að verja opinbera kerfið og þjónustuna fyrir þá sem reiða sig á opinbera þjónustu, hvort sem það eru eldri borgarar, öryrkjar, námsmenn, barnafólk o.s.frv. Hvernig á að lækka þennan halla? Hvaða skattar verða hækkaðir? Hvaða skattar verða ekki hækkaðir? Mun ríkisstjórnin leggja í það að hækka auðlindagjöld?
Veðjum á kvikmyndaiðnaðinn.
Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga eru settir viðbótarfjármunir í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það er fagnaðarefni en þó ber að hafa í huga að um er að ræða fjármuni sem renna til að mæta eldri skuldbindingum. Það er ekki verið að setja viðbótarfjármuni í þetta kerfi til að laða að ný verkefni til landsins. Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir því að meira fjármagn verði veitt til Kvikmyndasjóðs, sem varð fyrir 30% niðurskurði í gildandi fjárlögum, og í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Það er hugmynd sem býr beinlínis til peninga vegna þess að þetta laðar að verkefni.
    Með gríðarlegri innspýtingu í þennan geira stóraukum við umsvif hér á landi en með slíkum umsvifum skapast störf og skatttekjur aukast, ekki hvað síst á landsbyggðinni og í þeim geirum sem núna glíma við hvað mestan vanda. Verkefni í kvikmyndaiðnaðinum krefjast margs konar þekkingar og nýtingar á hótelum ásamt flutningum, veitingarekstri, leiðsögn, tæknistörfum svo ekki sé talað um listina sem verður sköpuð. Slíkt myndefni skapar ferðamenn framtíðarinnar því fjölmargar rannsóknir sýna beint samband á milli ferða til Íslands og sjónvarpsefnis sem hér er tekið.
    Kvikmyndaiðnaðurinn er næsti Eyjafjallajökull. Kvikmyndaiðnaðurinn er makríll framtíðarinnar. Kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðurinn er risastór á heimsvísu og það þarf aðeins brot af honum til að koma landinu upp úr þessari kreppu. Önnur ríki hafa áttað sig á þessu og reyna stöðugt að laða slík verkefni til sín. En til að svo megi verða fyrir þetta sumar þarf að bregðast strax við og hækka endurgreiðsluhlutfallið. Það þýðir ekki að tala um að gera þetta í fjarlægri og fallegri framtíð. Tíminn er núna. Verjum peningum til að búa til peninga. Og búum til list og afþreyingu á heimsmælikvarða um leið.

Gagnrýni á uppsagnarleiðina.
    Sé litið til annars þáttar í frumvarpinu sem lýtur að svokallaðri uppsagnarleið er sá þáttur einnig gagnrýnisverður. Efnisatriði þess þáttar voru rædd í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis sem afgreiddi það frá sér.
    Þar dró fulltrúi Samfylkingarinnar eftirfarandi fram: „Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að ríkið styðji fyrirtæki í erfiðri stöðu en dregur í efa að frumvarpið tryggi réttindi launafólks og telur að það geti í sumum tilfellum unnið gegn launafólki. Mikilvægt er að ráðningarsamband haldist á milli atvinnurekenda og starfsmanna á meðan erfiðleikarnir ganga yfir. Því er hlutabótaleiðin svokallaða ákjósanlegur stuðningur þar sem ráðningarsamband er tryggt þótt greiðslur til launamanna verði sambland af launum og atvinnuleysisbótum.
    Með frumvarpinu sem hér um ræðir fá atvinnurekendur beinlínis sérstakan stuðning til að segja upp fólki. Töluverðar líkur eru á því að hvatinn verði í þá átt að segja fólki upp frekar en að framlengja ráðningarsamband með hlutabótaleiðinni. Einkum má gera ráð fyrir því vegna þess að engin krafa er um endurgreiðslu á stuðningnum sem getur orðið 2.155.365 kr. alls með hverjum starfsmanni. Ef fyrirtæki segir upp 10 starfsmönnum getur stuðningurinn orðið rúm 21 millj. kr. og ef 50 starfsmönnum er sagt upp rúmar 107 millj. kr.
    Allar líkur eru á því að einhver fyrirtæki sem fá stuðninginn verði þrátt fyrir hann gjaldþrota. Vonandi verður stuðningurinn þó til þess að fleiri fyrirtæki ná sér á strik en ella enda er það markmiðið. Í greinargerð með frumvarpinu er gert ráð fyrir að brúttókostnaður ríkissjóðs verði um 27 milljarðar kr. miðað við gefnar forsendur.
    Fyrsti minni hluti telur mikilvægt bæði til að skapa hvata til að fyrirtæki velji frekar að halda ráðningarsambandi við launafólk ef kostur er og einnig af réttlætisástæðum að fyrirtækin endurgreiði stuðninginn til ríkissjóðs eftir því sem afkoma og afkomubati leyfir. Þannig greiði fyrirtæki tekjuskattsauka fyrst 2023 og að hámarki næstu tíu ár. Endurgreiðslan verði í formi tekjuskattsauka sem svari tíu prósentustigum til viðbótar núverandi tekjuskattsprósentu. Viðbótartekjuskatturinn dragist frá höfuðstól stuðningsins. Uppsafnað skattalegt tap hafi ekki áhrif á tekjuskattsaukann. Fyrirtækin geti hvenær sem er greitt stuðninginn upp að fullu og losnað þannig undan tekjuskattsaukanum og öðrum kvöðum sem því fylgja að hafa tekið við stuðningsgreiðslu úr ríkissjóði.
    Með þessari leið greiða fyrirtæki sem standa best að vígi árin eftir að faraldurinn hefur gengið yfir, stuðninginn hratt upp með tekjuskattsaukanum en þau sem ekki ná sér eins vel á strik minna í krónum talið og ekkert eftir árið 2033 þegar tekjuskattsaukinn fellur niður. Aðferð þessari svipar til þess sem sex virtir hagfræðingar hafa lagt til við Evrópusambandið vegna stuðnings ESB-ríkja sem tengist kórónuveirufaraldrinum.“

Áhyggjur af atvinnuleysi.
    Fyrsti minni hluti lýsir yfir miklum áhyggjum af auknu atvinnuleysi en núna vantar um einn fjórða hluta Íslendinga meiri vinnu. Haustið verður virkilega erfitt fyrir marga. Í umsögn BSRB segir: „Atvinnuleysi er fólki gríðarlega erfitt og fjárhagslegt óöryggi sem því veldur mikill streituvaldur. Með hækkun og lengingu réttinda til tekjutengdra atvinnuleysistrygginga og hækkun grunnbóta yrði framfærsla þess stóra hóps sem nú er án atvinnu að öllu leyti betur tryggð og fjárhagsáhyggjur og sú streita sem veldur atvinnuleysi minnkuð. Fólk yrði þá betur í stakk búið til að takast á við atvinnuleit, taka ákvarðanir um nám eða aðrar leiðir til að afla sér lífsviðurværis til framtíðar. Hækkunin myndi einnig leiða til aukinnar kaupgetu mörg þúsund einstaklinga og vinna þannig gegn enn frekari samdrætti í efnahagslífinu.
    BSRB vill ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt er að hækka atvinnuleysisbætur úr 289.510 kr. á mánuði í 320.720 en það jafngildir hækkun kauptaxta samkvæmt lífskjarasamningi á árunum 2019 og 2020. Mikilvæg er að fjárhæðir atvinnuleysistrygginga fylgi launahækkunum til samræmis við kjarasamninga. Einnig verður að hækka tekjutengdar greiðslur atvinnuleysistrygginga og lengja réttinn til þeirra úr þremur mánuðum í sex. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru nú að hámarki 456.404 kr. á mánuði og aðeins er greitt sem nemur 70% af fyrri launum. Til samanburðar má benda á að hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa er 633.000 kr. á mánuði og laun í uppsagnarfresti nema að hámarki 633.000 kr. á mánuði.“
    Í þessu sambandi minnir 1. minni hluti á að Samfylkingin hefur lagt fram tillögur á Alþingi um að hækka atvinnuleysisbætur eins og hér er lagt til. Var það virkilega dapurlegt þegar sú tillaga var felld.
    Að lokum vill 1. minni hluti minna á að í síðasta hruni þurftu jafnaðarmenn að taka til eftir óstjórn Sjálfstæðismanna. Það verður án efa það sama uppi á teningnum núna. Því er nauðsynlegt að hér taki við stjórnmálaflokkar sem hafa sýn á uppbyggingu til framtíðar. Samfylkingin vill búa til störf en ekki tala þau niður eða bara niðurgreiða uppsagnir. Samfylkingin vill fjárfesta í nýsköpun og list í stað skattlækkunar á stórútgerðina og hugsanlegs stuðnings við skattaskjól. Samfylkingin vill græna og metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem tekur til almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Nú er einmitt rétti tíminn fyrir slíkt.

Alþingi, 12. júní 2020.

Ágúst Ólafur Ágústsson.