Ferill 716. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1866  —  716. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, með síðari breytingum (skipun embættismanna o.fl.).

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum þáttum er varða skipun sendiherra, meðal annars um fjölda þeirra, hæfiskröfur, auglýsingaskyldu og valdsvið ráðherra. Mörg atriði frumvarpsins hafa sætt gagnrýni enda var stuðningur umsagnaraðila við frumvarpið nánast enginn. Á móti komu fjölmargar ábendingar um atriði sem mættu betur fara frá hagsmunaráði starfsfólks utanríkisþjónustunnar, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, samtökunum Gagnsæi og fjölmörgum sendiherrum. Meðan ýmsar tillögur um úrbætur komu fram í þeim umsögnum var rauði þráðurinn að lagaramminn væri að mörgu leyti úreltur og frumvarpið gerði lítið til að bæta úr því sem raunverulega þarfnaðist endurskoðunar.
    Þvert á móti var áhyggjum lýst af því að þótt frumvarpið legði upp með að takmarka vald ráðherra til að skipa sendiherra með því meðal annars að telja til ákveðinn hámarksfjölda og búa til auglýsingaskyldu væri verið að auka geðþóttavald ráðherra með því að veita rýmri möguleika á tímabundnum skipunum sendiherra fram hjá hefðbundnum ferlum og að þær tímabundnu skipanir takmörkuðust ekki við ráðherratíð þess ráðherra sem gæfi tímabundnu skipunina.
    Frumvarpið vekur auk þess upp spurningar um skipulag utanríkisþjónustunnar. Þótt í greinargerð með frumvarpinu sé vísað til skýrslunnar Utanríkisþjónusta til framtíðar er ekki hægt að sjá að frumvarpið sjálft taki mið af skýrslunni. Þvert á móti virðast takmarkanir á fjölda sendiherra, frekar en skilgreining á viðmiðunarmörkum fyrir sendiráð og sendiherrastöður, fara gegn þeim markmiðum sem lögð hafa verið fram í stefnumótunarskjölum.
    Hvað sem öðru líður nær frumvarpið hvorki að leysa úr þeim vandamálum sem eru til staðar á sannfærandi hátt né að færa utanríkisþjónustuna nær þeim markmiðum sem gefin hafa verið út og vekur því upp fleiri spurningar en það svarar. Í ljósi þessa leggur 1. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari úrvinnslu.

Alþingi, 25. júní 2020.

Smári McCarthy,
frsm.
Logi Einarsson.