Ferill 841. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1882  —  841. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 36/2020.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.


    Það kemur ekki á óvart að ríkisstjórnin skuli leggja aðaláherslu á að bjarga hagsmunum fyrirtækja fremur en að senda bjarglínu til fátæks fólks. Stefna hennar hefur aldrei verið önnur.
    Þetta fjáraukalagafrumvarp snýst að stórum hluta um að ríkisstjórnin hvetur vinnuveitendur til að rjúfa ráðningarsamband við launþega sína. Aðferðafræðin er með ólíkindum þar sem skattgreiðendum er ætlað að greiða fyrir vinnuveitendurna laun launþegans í uppsagnarfresti. Þetta leiðir af sér stóraukið atvinnuleysi sem sannarlega er nóg fyrir.
    Að sjálfsögðu verða stjórnvöld að axla ábyrgð á þessum fordæmalausu tímum, en sú ábyrgð á einnig að ná til þeirra sem ekki síður eru hjálparþurfi en fyrirtækin í landinu. Það má gera á ýmsa vegu og skila þannig miklum ábata og auknu öryggi til þeirra sem verða hvað harkalegast fyrir efnahagslegum áföllum vegna COVID-19.
    Enn og aftur sniðgengur ríkisstjórnin stuðning við þann samfélagshóp sem vísvitandi er haldið í sárri fátækt.
    Því leggur 2. minni hluti til fjórar breytingartillögur við frumvarpið sem allar eru í þágu lágtekjufólks, góðgerðasamtaka og geðheilbrigðismála.
    Tillögurnar krefjast ekki hárra útgjalda úr ríkissjóði með tilliti til allra þeirra gífurlegu fjármuna sem notaðir eru til björgunaraðgerða vegna COVID-19-faraldursins. Því ætti það ekki að vefjast fyrir ríkisstjórninni að samþykkja þær í þágu þeirra sem mest þurfa á hjálp að halda. Heildarkostnaður við tillögurnar nemur um 1.150 millj. kr. sem er innan við 2% af heildarútgjöldum frumvarpsins.

Eingreiðsla til lífeyrisþega sem fá undir 300.000 kr. á mánuði.
    Öryrkjar og aldraðir finna fyrir efnahagslegum áhrifum COVID-19-faraldursins rétt eins og aðrir. Krónan hefur fallið um 17% frá áramótum og verðlag heldur áfram að hækka í samræmi við það. Áhrifin eru óumdeild á tekjulága þar sem svigrúm þeirra til að takast á við aukin útgjöld er ekkert. Þarf ekki að minna á að þessir samfélagshópar eru skattlagðir í sára fátækt og hafa verið um árabil. Til að koma til móts við þá erfiðleika sem COVID-19-faraldurinn hefur lagt á herðar þeim leggur 2. minni hluti til að 100.000 kr. eingreiðsla renni til þeirra lífeyrisþega TR sem búa við verstu kjörin, hafa það lágar tekjur að þær ná ekki 300.000 kr. á mánuði miðað við tekjuáætlun ársins 2020. Ætlaður kostnaður við eingreiðsluna er 850 millj. kr. og nær stuðningurinn til allt að 8.500 manns.

Átak í rekstri Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.
    Á sama tíma og fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað furðað sig á fjölgun öryrkja gerir ríkisstjórnin ekkert til að draga úr þeirri meintu fjölgun heldur þvert á móti viðheldur kerfi sem fjölgar þeim jafnt og þétt. Vill 2. minni hluti sérstaklega benda á hóp barna sem býr við andlega og félagslega erfiðleika en fær ekki aðstoð við hæfi. Þessi börn eru tugum saman á biðlistum eftir faglegri meðferð. Það þarf nauðsynlega að efla meðferðarúrræði fyrir börn með geðræn vandamál. Það er mikilvægt að börn sem þurfa úrræði lendi ekki á biðlista eftir viðeigandi meðferð. Þetta snýst um að koma þessum börnum af stað út í lífið, gera allt til að koma í veg fyrir að þau lendi á örorku til lífstíðar. Því er nauðsynlegt að efla meðferðarúrræði fyrir börn með geðræn vandamál og það strax. Því leggur 2. minni hluti til að framlög til Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans verði aukin um 100 millj. kr.

Neyðarstuðningur til SÁÁ.
    Starfsemi SÁÁ hefur orðið fyrir miklu fjárhagslegu áfalli vegna COVID-19-faraldursins. Sjálfsaflafé samtakanna hefur ekki skilað sér vegna þeirra sóttvarnaaðgerða sem grípa varð til vegna faraldursins. Afleiðingarnar eru grafalvarlegar fyrir alla þá áfengis- og vímuefnasjúklinga sem þurfa að leita sér hjálpar. Staðan er það alvarleg að meðferðarheimilinu Vík verður lokað í júlí og um leið verður lokað á frekari meðferð og bata sjúklinga. Vert er að geta þess að sjúkrahúsið Vogur er afeitrunarstöð og fyrsta skrefið í bataferli sjúklingsins. Hin eiginlega uppbygging og meðferð fer fram á Vík. Því hlýtur það að teljast kaldlynt af hálfu stjórnvalda að stíga ekki strax inn í þessa alvarlegu stöðu með auknum fjárframlögum á þessum erfiðu tímum og um leið koma í veg fyrir að veiku fólki sé neitað um lækningu.
    Því leggur 2. minni hluti til að fjárframlög til endurhæfingarþjónustu SÁÁ verði aukin tafarlaust um 100 millj. kr. burt séð frá öllum samningum samtakanna við Sjúkratryggingar Íslands, enda er hér um að einskiptis neyðaraðstoð vegna COVID-19-faraldursins að ræða.

Stuðningur við góðgerðasamtök sem sinna matarúthlutunum.
    Nú þegar hefur atvinnuleysi á Íslandi náð sögulegu hámarki á lýðveldistíma og þótt lengra væri litið. Það hlýtur því að teljast afar mikilvægt að tryggja grunnþarfir fólks sem býr við fátækt. Það á enginn að þurfa að svelta þrátt fyrir það fordæmalausa ástand sem þjóðin nú gengur í gegnum.
    Því leggur 2. minni hluti til að þær hjálparstofnanir sem sannanlega hafa staðið að því að gefa fátækum fjölskyldum að borða, eins og Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd o.fl., fái strax til skiptanna úthlutað 100 millj. kr.

Alþingi, 22. júní 2020.

Inga Sæland.