Ferill 701. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1888  —  701. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (stjórn og eftirlit).

Frá minni hluta velferðarnefndar.


    Minni hluti velferðarnefndar telur mikilvægt að koma á framfæri athugasemdum við vinnubrögð við vinnslu frumvarps um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (stjórn og eftirlit), sem og við vinnu meiri hluta velferðarnefndar með umrætt frumvarp.

Umfjöllun í nefndinni.
    Mælt var fyrir frumvarpinu í lok apríl 2020 og það því næst sent út til umsagnar. Alls bárust sex umsagnir sem flestar innihéldu alvarlegar athugasemdir við efni frumvarpsins. Vert er að taka fram að á þessu stigi í starfi Alþingis, um miðjan maí árið 2020, var starfsáætlun þingsins að komast aftur í samt horf eftir heimsfaraldur kórónuveiru sem hafði haft veruleg áhrif á störf þingsins og fastanefnda þess. Almenn mál í nefndum höfðu verið sett til hliðar en mál sem tengdust viðbrögðum við heimsfaraldri kórónuveiru voru sett í forgang og skyldu engin önnur mál unnin í fastanefndum Alþingis. Sækja þurfti um sérstaka heimild frá forseta þingsins til fundahalda í fastanefndum þingsins, þar á meðal í velferðarnefnd, og fékkst slíkt leyfi er fundur var vegna þingmáls er varðaði viðbrögð við faraldrinum. Velferðarnefnd fékk vegna málefnasviðs síns drjúgan hluta af málum sem tengdust heimsfaraldrinum til umfjöllunar og fékk leyfi til funda vegna þeirra. Á meðan á þessu stóð, í nærri þrjá mánuði, voru önnur mál lögð til hliðar.
    Eðli málsins samkvæmt tókst því ekki að vinna frumvarp þetta eins og best hefði verið á kosið á þessum tíma, hvorki með gestakomum né í samtali innan nefndar. Voru það því nokkur vonbrigði þegar meiri hluti nefndarinnar kaus að afgreiða svo mikilvægt frumvarp án þess að málið væri fyllilega unnið, á því unnar fullnægjandi lagfæringar og umræða orðin nægilega þroskuð.

Mat á áhrifum á persónuvernd.
    Minni hlutinn vill benda á að við samningu frumvarpsins láðist að eiga samráð við Persónuvernd vegna mats á áhrifum frumvarpsins á persónuvernd. Slíkt er lögbundið skv. V. kafla laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, þegar um er að ræða vinnslu sem kann að varða viðkvæmar persónuupplýsingar. Fyrir liggur að frumvarpið snertir flutning á gögnum sem innihalda heilsufarsupplýsingar, sjúkraskrár og gögn um aðgerðir sem flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá eru gerðar breytingar á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, er varða heimildir sjúkratryggingastofnunarinnar til miðlunar upplýsinga og verður í því sambandi að horfa á ný lög um persónuvernd frá 2018, en ekki eldri lög um sjúkratryggingar sem innihalda heimild er kom inn í lögin fyrir gildistöku laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Lá því fyrir að gera þyrfti mikilvægar breytingar á heimild til öflunar og miðlunar upplýsinga.
    Minni hlutinn bendir á að frumvarpið er ekki eina frumvarp ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem ekki hefur verið leitað eftir samráði við Persónuvernd, enda virðist það fremur vera regla en undantekning að ráðherrar láti undir höfuð leggjast við smíði frumvarpa að bera þau undir Persónuvernd vegna ákvæða er varða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Minni hlutinn beinir því til ríkisstjórnarinnar að gera bragarbót á framangreindu, fjölga persónuverndarfulltrúum og tryggja að við gerð frumvarpa frá ríkisstjórn fari ávallt fram mat á áhrifum á persónuvernd almennings áður en frumvörp eru lögð fram á þingi.
    Við umfjöllun nefndarinnar hafa komið fram sjónarmið um að það fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu varðandi gagnaflutning á viðkvæmum heilsufarsupplýsingum frá þjónustuveitendum til Sjúkratrygginga Íslands sé óásættanlegt. Um sé að ræða flutning á viðkvæmum persónuupplýsingum og þurfi slíkir flutningar að vera fullkomlega öruggir, sem ekki allir þjónustuveitendur geti uppfyllt. Í því sambandi hefur komið fram að þjónustuveitendur hafi yfir að ráða gögnum sem ekki er hægt að skila rafrænt auk þess sem ekki allir hafi yfir að ráða tölvukerfum sem ráða við slíkar sendingar. Í áliti sínu leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu þess efnis að eftir samþykkt frumvarpsins skuli sjúkratryggingastofnunin hafa leyfi til að kalla eftir upplýsingum frá þjónustuveitanda sem og til að skoða gögn hjá honum. Eftir stendur sú gagnrýni þjónustuveitenda að álag vegna yfirferðar á gögnum til sendingar kunni að leiða til mikillar umframvinnu sem þjónustuveitendur þurfi að inna af hendi. Ekki hafi verið gerð breyting á því.
    Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á frumvarpinu á þann veg að á eftir 3. gr. komi ný grein sem verði 50. gr. laganna. Þar komi eftirfarandi fram í 2. mgr.: „Stofnuninni er einnig heimilt að starfrækja gagnagrunna og miðla upplýsingum úr þeim svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.“ Minni hlutinn telur umrætt lagaákvæði ekki standast skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga um skýrt afmörkuð lagaákvæði þegar um er að ræða miðlun mikilvægra heilsufarslegra upplýsinga. Ekki fengust upplýsingar frá meiri hlutanum um það hvort umrætt ákvæði hefði verið borið undir Persónuvernd til umsagnar og telur minni hlutinn slíkt óásættanlegt vegna þess hversu mikilvægir hagsmunir eru í húfi.
    Minni hlutinn leggur til að umrætt ákvæði verði ekki samþykkt og hvetur heilbrigðisráðherra til að hefja strax vinnu við lagfæringar á ákvæðinu er varðar miðlun upplýsinga úr gagnagrunnum, til að kanna lögmæti slíkrar miðlunar og til þess að athuga hvernig slík miðlun megi eiga sér stað. Hvetur minni hlutinn heilbrigðisráðherra til að hafa við vinnu sína fullt samráð við Persónuvernd. Slíkt samráð leiðir til vandaðri lagasetningar og aukins öryggis borgara landsins.

Skipun forstjóra.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um fyrirkomulag við skipan forstjóra Sjúkratrygginga Íslands þar sem ráðherra skipaði hann án aðkomu stjórnar stofnunarinnar. Í því sambandi kom fram að ráðlegt væri að fagleg stjórn stofnunarinnar veitti umsögn um umsækjendur um starf forstjóra. Meiri hlutinn féllst ekki á þau sjónarmið. Í áliti meiri hlutans segir að frumvarpið útiloki ekki að ráðherra geti óskað umsagnar stjórnar við skipun forstjóra.
    Minni hlutinn bendir á að ekkert í lögum eða frumvarpinu mælir fyrir um framangreint. Ólíklegt verður að teljast að ráðherra fari þá leið að leita umsagnar stjórnar stofnunarinnar um umsækjendur, enda hafi hann allt vald í hendi sér til að velja forstjóra þessarar mikilvægu stofnunar. Minni hlutinn telur slíkt óheppilegt og leggur til breytingartillögu þess efnis að við skipan forstjóra sjúkratryggingastofnunarinnar skuli leita umsagnar stjórnar stofnunarinnar áður en til skipunar kemur. Skipun verði eftir sem áður í höndum ráðherra, en lögbundið verði að umsögn stjórnar stofnunarinnar þurfi að liggja fyrir.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Í stað orðsins „tillögu“ í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: umsögn.

    Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 25. júní 2020.

Helga Vala Helgadóttir,
form., frsm.
Anna Kolbrún Árnadóttir. Guðmundur Ingi Kristinsson.
Halldóra Mogensen.