Ferill 900. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1898  —  900. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni lögreglustjóraembætta.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn á Austurlandi, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra, lögreglustjórinn á Suðurlandi, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, lögreglustjórinn á Vestfjörðum, lögreglustjórinn á Vesturlandi og lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum?
    Lögbundin verkefni lögregluembætta eru tilgreind í lögreglulögum, nr. 90/1996, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Þá eru lögregluembættum jafnframt falin ýmis verkefni víða í sérlögum.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna hvers lögreglustjóraembættis og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til þeirra lögreglustjóraembætta sem spurt er um samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 er 15.911,8 millj. kr. Skipting milli embætta er eftirfarandi:

Embætti millj. kr.
Ríkislögreglustjóri 2.858,8
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu 5.952,7
Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra 1.182,7
Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra 385,1
Lögreglustjórinn á Suðurlandi 1.182,8
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum 2.345,7
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum 446,5
Lögreglustjórinn á Vesturlandi 754,2
Lögreglustjórinn á Austurlandi 542,4
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum 260,9

    Hvorki er í lögum um opinber fjármál, gildandi fjárlögum frá Alþingi né bókhaldi stofnana gert ráð fyrir að fjárreiður þeirra séu sundurgreindar eftir einstökum lögbundnum verkefnum.