Ferill 944. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1931  —  944. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður).

Frá atvinnuveganefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Heimi Skarphéðinsson og Sigrúnu Brynju Einarsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Þórð Bogason lögmann.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Neytendasamtökunum og Samtökum ferðaþjónustunnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Ferðaábyrgðasjóður, sem hafi það hlutverk að bregðast sérstaklega við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með því veita ferðaskrifstofum lán til að standa skil á endurgreiðslum til neytenda vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afbókaðar vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Til þess að gera aðgerðina skilvirkari og einfaldari í framkvæmd er lagt til að Ferðaábyrgðasjóður veiti ferðaskrifstofum lán til að standa skil á endurgreiðslum til neytenda vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða verið afbókaðar í stað þess að ferðamenn sæki sjálfir um endurgreiðslur úr sjóðnum. Með því mun erindum til Ferðamálastofu, sem mun hafa umsýslu sjóðsins með höndum, fækka til muna og jafnframt verður það þá áfram á ábyrgð þeirra fyrirtækja sem selja pakkaferðir að standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart neytendum. Eðli aðgerðarinnar er eftir sem áður það sama, að veita ferðaskrifstofum lán til að standa undir lögbundnum endurgreiðslum til neytenda. Ferðamálastofa mun hins vegar ekki taka sérstaka afstöðu til kröfu hvers og eins ferðamanns og með því er líklegt að framkvæmd aðgerðarinnar verði skilvirkari og að styttri tíma taki að koma þeim fjármunum til fyrirtækja sem ætlunin er að gert verði.
    Fjárhæð lánanna mun fara eftir fjárhæðum útistandandi endurgreiðslukrafna hverrar ferðaskrifstofu, eða eftir atvikum hvaða fjárhæð sótt er um og þar með mun það fara eftir lausafjárþörf viðkomandi ferðaskrifstofu. Fjárhæð láns getur þó aldrei numið hærri upphæð en sem nemur útistandandi endurgreiðslukröfum til ferðamanna. Við umsókn um lán munu ferðaskrifstofur veita upplýsingar um útistandandi endurgreiðslukröfur og staðfesta að umsótt lánsfjárhæð feli í sér lausafjárþörf þeirra næstu 12–18 mánuði.
    Lánveitingar frá Ferðaábyrgðasjóði sem lagðar eru til hér fela í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. EES-samningsins, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Vegna verulega neikvæðra efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins er í gildi sérstakur rammi um ríkisaðstoð sem heimiluð er á þessu ári og fellur stofnun Ferðaábyrgðasjóðs inn í þann ramma (tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfisins vegna yfirstandandi heims faraldurs kórónuveiru (e. Temporary Framework to support the economy in the context of the coronavirus outbreak)). Á þeim grundvelli er heimilt að veita lán á niðurgreiddum vöxtum til fyrirtækja að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Vegna þess þrönga tímaramma sem mál þetta er unnið í leggur nefndin til að kveðið verði á um vexti, sem og skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að geta fengið lánin, í reglugerð sem ráðherra setur. Miðað verði við vaxtatöflu Eftirlitsstofnunar EFTA og skilyrði áðurnefnds ramma um tímabundna ríkisaðstoð. Nefndin áréttar og beinir því til ráðuneytisins að reglugerðin verði sett sem allra fyrst eftir að frumvarpið verður samþykkt sem lög svo að aðgerðin komist til framkvæmda sem fyrst enda er lausafjárstaða margra ferðaskrifstofa verulega slæm um þessar mundir.
    Nefndin leggur til að tímamark 1. gr. verði lengt um einn mánuð þar sem áfram má gera ráð fyrir einhverri röskun ferða eftir upprunalegt tímamark frumvarpsins.
    Sú umræða kom upp í nefndinni hvort setja ætti skilyrði fyrir lánveitingu svipuð þeim sem gert hefur verið í öðrum lögum er varða heimsfaraldur kórónuveiru, m.a. þess efnis að fyrirtækjum væri óheimilt að greiða sér arð yfir tiltekið tímabil, að laun starfsmanna væru bundin við tiltekið hámark og að fyrirtæki tengdust ekki aðilum sem notfæra sér svokölluð skattaskjól til að forðast skattgreiðslur sem með réttu ættu að renna til íslenska ríkisins. Nefndin áréttar að með frumvarpinu er fyrst og fremst verið að bregðast við vanda neytenda. Þær fjárhæðir sem um ræðir eru eingöngu ætlaðar til endurgreiðslu vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða þær verið afbókaðar. Nefndin áréttar sérstaklega að einn hluti breytingartillagna hennar felur í sér refsiheimild veiti aðili rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi og Ferðamálastofa mun geta kallað eftir staðfestingu á því hvernig lánsfjárhæð hefur verið varið. Þær ferðaskrifstofur sem sækja munu um lán munu því þurfa að sýna fram á það eftir á hvernig lánsfjárhæðinni var varið og hvort fjárhæð láns var í samræmi við lausafjárþörf þeirra.
    Nefndin áréttar að þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram eru tímabundið úrræði sem ekki er ætlað að hrófla við þeim réttindum neytenda sem þegar er að finna í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.
    Ólafur Ísleifsson skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.
    Jón Þór Ólafsson, Sigurður Páll Jónsson og Ólafur Ísleifsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Að öllu framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verð samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. júní 2020.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,
form., frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ásmundur Friðriksson. Njáll Trausti Friðbertsson. Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Sigurður Páll Jónsson,
með fyrirvara.
Ólafur Ísleifsson.
með fyrirvara.
Jón Þór Ólafsson,
með fyrirvara.