Ferill 768. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1984  —  768. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Byggðastofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Byggðastofnun?
    Um verkefni Byggðastofnunar er fjallað í 8.–12. gr. laga um Byggðastofnun, nr. 106/1999. Þar segir eftirfarandi:

8. gr. Rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun.
    Byggðastofnun vinnur að gagnasöfnun og rannsóknum og fylgist með atvinnu- og byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar og árangri opinberra stuðningsaðgerða á sviði atvinnumála og byggðaþróunar, jafnt á Íslandi sem í löndum þar sem svipaðar aðstæður eru. Stofnunin getur tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og gert samninga við háskóla, rannsóknastofnanir og aðra um rannsóknir á þessu sviði.
9. gr. Atvinnuráðgjöf.
    Byggðastofnun skipuleggur og vinnur að ráðgjöf við atvinnulífið á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra haghafa.
    Stofnunin skal í samstarfi við þá aðila sem sinna atvinnuráðgjöf vinna að bættu skipulagi atvinnuráðgjafar og aukinni þekkingu ráðgjafa, m.a. í því skyni að gera ráðgjöfina markvissa og stuðla að betri nýtingu fjármuna.
    Stofnunin getur gert samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði.
10. gr. Fjármögnun verkefna.
    Byggðastofnun veitir framlög til verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar. Stjórn stofnunarinnar ákveður verkefnin og leitar eftir samstarfsaðilum um þau. Við umfjöllun um einstök verkefni getur stjórnin, ásamt samstarfsaðilum, sett á fót verkefnanefndir til ráðgjafar. Einnig er heimilt að fela atvinnuþróunarfélögum úthlutun fjár til einstakra verkefna.
11. gr. Veiting lána og ábyrgða.
    Byggðastofnun veitir lán eða ábyrgðir í samræmi við hlutverk sitt, sbr. 2. gr.
    Stjórn stofnunarinnar getur falið forstjóra að ákveða einstakar lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur, sbr. 10. tölul. 4. gr.
    Reikningslegur aðskilnaður skal vera á milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi. Fjárhagslegt markmið lánastarfsemi stofnunarinnar samkvæmt þessari grein skal vera að varðveita eigið fé hennar að raungildi.
    Stjórn Byggðastofnunar getur tekið ákvörðun um að gera samninga um að fela fjármálastofnunum afgreiðslu og innheimtu lána, sem og aðra fjármálaumsýslu stofnunarinnar.
    Ákvarðanir Byggðastofnunar sem lúta að veitingu lána eða ábyrgða og umsýslu tengdri þeim, sbr. 1. mgr., eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
12. gr. Fjármögnun þróunarverkefna.
    Byggðastofnun er heimilt að fjármagna áhættusöm verkefni á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum stjórnar.
    Þessi starfsemi skal einkum fjármögnuð með sérstökum framlögum úr ríkissjóði.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Byggðastofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Fjárveiting til Byggðastofnunar samkvæmt fjárlögum ársins 2020 nemur 385,3 millj. kr.
    Í fjárlögum er kostnaður ekki áætlaður niður á lögbundin verkefni. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun má gróflega áætla að fjárveitingin skiptist hlutfallslega niður á lögbundin verkefni, skv. 8.–10. gr. laga um Byggðastofnun, eins og fram kemur í töflunni.

Rannsóknir á atvinnu- og byggðaþróun 39%
Atvinnuráðgjöf 57%
Fjármögnun verkefna 4%

    Til viðbótar fjármagnar Byggðastofnun lögbundið verkefnið sitt skv. 11. gr. laga um Byggðastofnun með vaxtamun af lánasafni. Engin fjárveiting er til verkefna skv. 12. gr. laganna í fjárlögum 2020.