Ferill 889. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1989  —  889. mál.




Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Maríu Hjálmarsdóttur um einbreiðar brýr.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að verkefnum varðandi fækkun einbreiðra brúa verði flýtt þrátt fyrir að hönnunarvinnu sé ekki lokið? Ef svo er, með hvaða hætti?

    Í aðgerðaáætlun samgönguáætlunar eru markmið og mælikvarðar sem miða að bættu umferðaröryggi. Eitt af forgangsmarkmiðum samgönguáætlunar er fækkun einbreiðra brúa á umferðarmestu vegum landsins.
    Vegagerðin lætur vinna áætlun um forgangsröðun nýrra brúa þar sem einbreiðar brýr eru fyrir. Fyrst og fremst er tekið tillit til umferðar, burðargetu, aldurs og ástands, samfellu á leiðum auk sérstakra aðstæðna séu þær uppi.
    Af 1.191 brú í þjóðvegakerfinu eru 677 einbreiðar, þar af voru 39 brýr á Hringveginum einbreiðar árið 2017. Í markmiðum samgönguáætlunar 2019–2023 var áherslan á að fækka einbreiðum brúm á vegum með yfir 200 bíla meðalumferð á dag allt árið og fækka þeim um níu á tímabilinu eða í 30 árið 2023.
    Markmiðin voru endurskoðuð í endurbættri samgönguáætlun 2020–2024 sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun desember 2019 og fjármagni bætt í frá fyrri áætlun til að auka umferðaröryggi. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir 2.500 millj. kr. framlagi á næstu fimm árum til fækkunar einbreiðra brúa með markmiði að einbreiðar brýr á Hringvegi verði 22 árið 2024.
    Þessu til viðbótar þá er gert ráð fyrir sérstöku framlagi í tengslum við fjárfestingarátak 2020 að fjárhæð 3.300 millj. kr. til að breikka einbreiðar brýr á næstu tveimur árum. Samtals er því áformað að verja um 5.800 millj. kr. á næstu fimm árum til fækkunar á einbreiðum brúm.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Alls eru fjórar brýr í byggingu, sem voru boðnar út árið 2019, sem munu leysa af hólmi einbreiðar brýr á Hringvegi 1:

          Brú á Brunná austan við Kirkjubæjarklaustur (2020)
          Brú á Kvíá í Öræfasveit (2020)
          Brú á Fellsá í Suðursveit (2020)
          Brú á Steinavötn í Suðursveit (2021)

    Unnið er að því að alls sex brýr á Hringvegi verði breikkaðar til viðbótar á tímabilinu 2021–2024 miðað við fyrirhugaðar fjárveitingar til breikkunar brúa. Þær eru:

          Hverfisfljót (2021)
          Búlandsá
          Gjádalsá     
          Hvaldalsá
          Selá í Álftafirði
          Krossá á Berufjarðarströnd

    Í fjárfestingarátaki 2020–2022 verða þessar sjö einbreiðu brýr breikkaðar:

          Hringvegur um Núpsvötn
          Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannavegi
          Bjarnadalsá í Önundarfirði á Vestfjarðavegi
          Botnsá í Tálknafirði á Bíldudalsvegi
          Hringvegur um Skjálfandafljót
          Köldukvíslargil á Norðausturvegi
          Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi

    Margar brýr eru jafnframt tilgreindar sem sérstök verkefni eða hluti af öðrum verkefnum í 5 ára samgönguáætlun. Séu tekin dæmi um slíkar framkvæmdir úr samgönguáætlun 2020– 2024 má nefna:

          Hattardalsá á Djúpvegi (2020)
          Jökulsá á Sólheimasandi 2021
          Hringvegur um Hornafjörð 2021–2024 (3 brýr)
          Vestfjarðavegur um Gufudalssveit 2020–2023 (4 brýr)
          Vestfjarðavegur um Dynjandisheiði 2020–2024 (7 brýr)
          Þverárfjallsvegur og Skagastrandarvegur um Laxá 2021–2023 (1 brú)

    Enn fleiri eru síðan á 2. og 3. tímabili 15 ára samgönguáætlunar.
    Verk hefjast með undirbúningi, skipulagsbreytingum og hönnun nokkru áður en til eiginlegra framkvæmda kemur. Á því tímabili verka undirbýr Vegagerðin verkefnin þannig að þau séu tilbúin er framkvæmdir eiga að hefjast. Það gerir stofnunin í samræmi við hvenær framkvæmdir eru fyrirhugaðar í samgönguáætlun. Þegar áætlunum er breytt og ákveðið að fara í tilteknar framkvæmdir fyrr en áður var fyrirhugað geta áætlanir riðlast. Þær þarf þá að endurskoða og breyta þannig að tími verði fyrir alla verkþætti allt frá hönnun, undirbúningsrannsóknum, skipulagsbreytingum o.s.frv.