Ferill 910. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1993  —  910. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Skógræktarinnar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Skógræktin?
    Skógræktin starfar á grundvelli laga nr. 33/2019, um skóga og skógrækt. Hlutverk stofnunarinnar er að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Önnur helstu verkefni Skógræktarinnar eru:
     a.      að leiðbeina um vernd, endurheimt, ræktun, meðferð og sjálfbæra nýtingu skóga,
     b.      að vinna að og hvetja til þátttöku í skógrækt,
     c.      að vinna að þróun skógræktar, m.a. með því að stunda rannsóknir og þróunarstarf,
     d.      að afla upplýsinga um skóga og skógrækt og miðla þeim,
     e.      að hafa yfirsýn yfir og eftirlit með áætlunum og framkvæmdum í skógrækt,
     f.      að hafa umsjón með leyfisveitingum vegna fellingar skóga og varanlegrar skógareyðingar,
     g.      að hafa umsjón með þjóðskógum.
    Í samræmi við framangreint hlutverk Skógræktarinnar ber stofnuninni að veita umsagnir samkvæmt ýmsum sérlögum og situr í lögbundnum nefndum, svo sem erfðanefnd landbúnaðarins samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998, og fagráði náttúruminjaskrár samkvæmt lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd. Upplýsingar um hlutverk Skógræktarinnar er að finna á heimasíðu stofnunarinnar www.skogur.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Skógræktarinnar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild Skógræktarinnar samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 1.234,3 millj. kr. til að sinna verkefnum stofnunarinnar en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.