Ferill 913. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1996  —  913. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Umhverfisstofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Umhverfisstofnun?
    Umhverfisstofnun starfar samkvæmt lögum nr. 90/2002, um Umhverfisstofnun. Hlutverk stofnunarinnar er einnig markað af fjölda annarra laga og er í grunninn að stuðla að velferð almennings með því að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi, öruggum neysluvörum og verndun og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Stofnunin sinnir eftirliti og leyfisveitingum, hefur umsjón með og rekur friðlýst svæði og þjóðgarða, gegnir samræmingarhlutverki á sviði hollustuhátta- og mengunarmála, safnar og miðlar upplýsingum um ástand umhverfisins og um umhverfismál, hefur umsjón með umhverfis- og efnahluta EES-samningsins, undirbýr reglugerðir, leiðbeinir öðrum opinberum aðilum og fyrirtækjum, veitir umsagnir vegna m.a. skipulags, mats á umhverfisáhrifum og kærumála og sér um friðlýsingar nýrra svæða í samræmi við náttúruverndaráætlun auk þess sem fulltrúar hennar sitja í nokkrum nefndum og ráðum samkvæmt sérlögum.
    Samkvæmt lögum er hlutverk stofnunarinnar m.a.:
     a.      að annast starfsemi sem Umhverfisstofnun er falin samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, efnalögum, nr. 61/2013, lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda sjávar, lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, lyfjalögum, nr. 93/1994, sóttvarnalögum, nr. 19/1997, lögum nr. 17/2000, um framkvæmd samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra, lögum nr. 40/2015, um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, og lögum nr. 75/2000, um brunavarnir,
     b.      að annast verkefni sem stofnuninni eru falin í lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd, lögum nr. 60/2007, um Vatnajökulsþjóðgarð, lögum nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, lögum nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, og lögum nr. 85/2000, um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu,
     c.      að annast verkefni samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og lögum nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna,
     d.      að annast verkefni sem stofnuninni eru falin í lögum nr. 36/2011, um stjórn vatnamála,
     e.      að annast verkefni sem stofnuninni eru falin í lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, og lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda.
    Upplýsingar um lögbundin verkefni Umhverfisstofnunar er einnig að finna á vef stofnunarinnar, www.ust.is.


     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Umhverfisstofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild Umhverfisstofnunar samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 2.235,2 millj. kr. og er hún ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.