Ferill 914. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1997  —  914. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um verkefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Stofnun Vilhjálms Stefánssonar?
    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar starfar samkvæmt lögum nr. 81/1997, um stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Stofnunin er samstarfsvettvangur þeirra sem sinna málefnum norðurslóða á Íslandi og er ætlað að efla umhverfisrannsóknir á norðurslóðum og stuðla að sjálfbærri þróun og efla þátttöku Íslendinga í alþjóðasamstarfi á því sviði.
    Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sinnir upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samvinnu á sviði sjálfbærrar þróunar og umhverfismála á norðurslóðum og lögð er áhersla á þverfaglega og fjölþjóðlega umfjöllun um fræðilegar og hagnýtar lausnir á viðfangsefnum sem sérstaklega tengjast norðurslóðum. Í 2. gr. laga nr. 81/1997 eru talin upp lögbundin verkefni stofnunarinnar en hún skal leitast við að ná markmiðum sínum með því að:
     a.      safna og miðla upplýsingum um málefni norðurslóða,
     b.      stuðla að því að umhverfisrannsóknir á norðurslóðum séu samræmdar og gera tillögur um forgangsröð þeirra,
     c.      miðla fræðslu um málefni norðurslóða til skóla og almennings,
     d.      vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða, einkum umhverfisvernd og sjálfbæra þróun,
     e.      annast samstarf við sambærilegar stofnanir erlendis, t.d. um rekstur fjölþjóðlegra verkefna,
     f.      skapa aðstöðu fyrir fræðimenn sem stunda rannsóknarstörf á fræðasviði stofnunarinnar og
     g.      sinna öðrum verkefnum samkvæmt ákvörðun ráðherra.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar er að finna á heimasíðu stofnunarinnar, www.svs.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar samkvæmt fylgiriti fjárlaga 2020 er 90,2 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar og er ekki sundurliðuð sérstaklega.