Ferill 915. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1998  —  915. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Íslenskra orkurannsókna.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Íslenskar orkurannsóknir?
    Hlutverk Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) er að vinna að verkefnum og rannsóknum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála eftir því sem stjórn stofnunarinnar ákveður, sbr. lög nr. 86/2003, um íslenskar orkurannsóknir. Nánari upplýsingar um hlutverk ÍSOR er að finna í reglugerð nr. 545/2014 um Íslenskar orkurannsóknir.
    ÍSOR sinna m.a. eftirfarandi viðfangsefnum fyrir íslenska ríkið og stofnanir þess samkvæmt nánari útfærslu í samningum sem gera skal milli Íslenskra orkurannsókna og viðeigandi ráðuneyta eða stofnana þeirra:
     1.      Að veita faglega ráðgjöf á sviði jarðvísinda og jarðrænna auðlinda, þar með talinn jarðhiti, grunnvatn og jarðefnaeldsneyti og önnur hagnýt jarðefni.
     2.      Að framkvæma grunnrannsóknir á jarðfræði Íslands og kortleggja jarðfræði landsins með tilliti til jarðrænna auðlinda og jarðminja.
     3.      Að rannsaka og meta jarðhitaforða landsins með tilliti til sjálfbærrar vinnslu.
     4.      Að rannsaka, meta og fylgjast með áhrifum nýtingar jarðrænna auðlinda á umhverfið.
     5.      Að rannsaka og veita jarðvísindalega ráðgjöf um rannsóknir og nýtingu á auðlindum undir hafsbotni.
     6.      Að rannsaka og veita jarðvísindalega ráðgjöf um rannsóknir og nýtingu á grunnvatni.
     7.      Taka þátt í alþjóðastarfi á sviði jarðvísinda, orku- og auðlindamála fyrir hönd Íslands.
     8.      Aðstoða íslensk stjórnvöld við þróunaraðstoð erlendis á sviði jarðhita.
     9.      Að miðla til almennings og stjórnvalda upplýsingum og þekkingu um jarðfræði Íslands og jarðrænar auðlindir og nýtingu þeirra.
     10.      Að reka opinber gagnasöfn um jarðrænar auðlindir og nýtingu þeirra.
    Upplýsingar um hlutverk ÍSOR er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar www.isor.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Íslenskra orkurannsókna og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Íslenskar orkurannsóknir er stofnun í B-hluta sem fjármagnar sig með sölu á vöru og þjónustu til fyrirtækja og stofnana. Því er ekki um sérstaka fjárheimild til stofnunarinnar að ræða í fjárlögum né sundurliðun verkefna.