Ferill 916. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1999  —  916. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Skipulagsstofnunar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Skipulagsstofnun?
    Skipulagsstofnun starfar á grundvelli skipulagslaga, nr. 123/2010, laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, laga um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006, og laga um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018.
    Helstu verkefni Skipulagsstofnunar samkvæmt skipulagslögum eru:
     a.      að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim,
     b.      að veita upplýsingar og leiðbeiningar um skipulagsmál,
     c.      að fylgjast með stöðu skipulagsmála í sveitarfélögum,
     d.      að aðstoða sveitarfélög og leiðbeina þeim við gerð skipulagsáætlana,
     e.      að láta í té umsagnir um ágreiningsmál á sviði skipulagsmála,
     f.      að sjá um að upplýsingar um áætlanir um landnotkun á landsvísu séu fyrir hendi og gera tillögu að landsskipulagsstefnu,
     g.      að stuðla að og standa fyrir rannsóknum á sviði skipulagsmála í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir og hagsmunaaðila, svo og að annast eða stuðla að útgáfu upplýsinga um þau mál,
     h.      að annast umsýslu Skipulagssjóðs,
     i.      að framfylgja ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum,
     j.      að taka á móti skipulagsáætlunum og gera þær aðgengilegar öllum með stafrænum hætti.
    Í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum er Skipulagsstofnun ráðherra til ráðgjafar og annast eftirlit með framkvæmd laganna og veitir leiðbeiningar samkvæmt þeim. Skipulagsstofnun tekur ákvarðanir um hvort framkvæmdir í flokki B í 1. viðauka við lögin skuli háð mati á umhverfisáhrifum og hvort aðrar framkvæmdir í flokki C í 1. viðauka við lögin en þær sem kveðið er á um í skipulagslögum og lögum um mannvirki, eða slíkar framkvæmdir sem háðar eru leyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun gefur enn fremur álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir. Stofnunin hefur einnig eftirlit með að framkvæmdir í flokki C í 1. viðauka við lögin sem kveðið er á um í skipulagslögum og lögum um mannvirki hafi fengið viðeigandi málsmeðferð samkvæmt lögunum.
    Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana er eftirfarandi:
     a.      að veita og gefa út leiðbeiningar um umhverfismat áætlana, umfang og nákvæmni upplýsinga í umhverfisskýrslu og taka ákvörðun um hvort áætlun skuli háð ákvæðum laga þessara um umhverfismat áætlana þegar vafi leikur á því,
     b.      að fylgjast með framkvæmd umhverfismats áætlana og taka saman skýrslu um framkvæmdina til ráðherra á fimm ára fresti með það að markmiði að tryggja gæði umhverfismats.
    Skipulagsstofnun hefur einnig eftirlit með framkvæmd laga um skipulag haf- og strandsvæða. Hún er svæðisráðum til ráðgjafar og annast gerð strandsvæðisskipulags í þeirra umboði og þá málsmeðferð sem kveðið er á um í þeim lögum, auk þess sem hún fylgist með þróun í starfsemi og öðrum athöfnum sem hafa áhrif á skipulagsmál á haf- og strandsvæðum. Þá gerir stofnunin tillögu að stefnu um skipulag haf- og strandsvæða sem hluta af landsskipulagsstefnu.
    Í samræmi við framangreind hlutverk Skipulagsstofnunar hefur stofnunin einnig umsagnarhlutverk samkvæmt sérlögum og situr í lögbundnum nefndum, sjá m.a. lög nr. 60/2013, um náttúruvernd, og lög nr. 36/2011, um stjórn vatnamála.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Skipulagsstofnunar er að finna á heimasíðu hennar www.skipulag.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Skipulagsstofnunar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til Skipulagsstofnunar samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 353,8 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.