Ferill 920. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2000  —  920. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn?
    Hlutverk Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn er að stunda rannsóknir á náttúru og lífríki Mývatns- og Laxársvæðisins, sbr. 7. gr. laga nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, og reglugerð nr. 664/2012, um Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn o.fl. Stofnuninni er einnig heimilt að vinna að rannsóknum utan Mývatns- og Laxársvæðisins, enda fáist með þeim gagnlegur samanburður við náttúru þess og verndun svæðisins. Meginmarkmið náttúrurannsóknastöðvarinnar er að afla vísindalegrar þekkingar sem nýtist við verndun svæðisins í víðum skilningi. Í því felst að fá yfirlit yfir náttúru svæðisins og breytingar á henni, rannsaka orsakasamhengi í vistkerfi Mývatns og Laxár og kanna áhrif af umsvifum manna.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn er að finna að heimasíðu hennar www.ramy.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 48,7 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.