Ferill 919. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2001  —  919. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Landgræðslunnar.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Landgræðslan?
    Hlutverk Landgræðslunnar er að hafa eftirlit með framkvæmd laga um landgræðslu, nr. 155/2018, og annast daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.
    Önnur helstu verkefni Landgræðslunnar eru:
     a.      að leiðbeina um vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu lands,
     b.      að vinna að og hvetja til þátttöku í landgræðslu,
     c.      að vinna að þróun landgræðslu, m.a. með því að stunda rannsóknir og þróunarstarf,
     d.      að afla upplýsinga um landnýtingu og ástand lands og miðla þeim,
     e.      að hafa yfirsýn yfir og eftirlit með áætlunum og framkvæmdum í landgræðslu í landinu,
     f.      að hafa umsjón með landgræðslusvæðum.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Landgræðslunnar er einnig að finna í öðrum lögum, sbr. lög nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., og lög nr. 60/2013, um náttúruvernd. Upplýsingar um hlutverk Landgræðslunnar má einnig finna á heimasíðu stofnunarinnar www.land.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Landgræðslunnar og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til Landgræðslunnar samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 1.154,6 millj. kr. Þar af nema fjárveitingar til fyrirhleðslna 71,8 millj. kr. Að öðru leyti er fjárheimildin ætluð í verkefni stofnunarinnar og er ekki sundurliðuð frekar.