Ferill 918. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2002  —  918. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Landmælinga Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinna Landmælingar Íslands?
    Landmælingar Íslands starfa samkvæmt lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, og lögum um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, nr. 44/2011. Helstu verkefni Landmælinga Íslands eru:
     1.      Að vera ráðuneytinu til ráðuneytis á fagsviðum sem stofnunin starfar á samkvæmt lögum þessum og varðandi stefnumótun á sviði landmælinga og opinberrar grunnkortagerðar.
     2.      Uppbygging og viðhald viðmiðana og aðgengilegs landshnitakerfis og hæðarkerfis fyrir allt Ísland.
     3.      Að hafa frumkvæði að gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga.
     4.      Gerð, viðhald og miðlun á eftirtöldum stafrænum þekjum:
                  a.      Vatnafar.
                  b.      Yfirborð.
                  c.      Vegir og samgöngur.
                  d.      Örnefni úr örnefnagrunni.
                  e.      Stjórnsýslumörk.
                  f.      Mannvirki.
                  g.      Hæðarlínur og hæðarpunktar.
     5.      Að veita aðgang að gögnum sem stofnunin varðveitir í gagnasöfnum sínum, sbr. 6. gr.
     6.      Skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi.
     7.      Að eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök í samræmi við verkefni stofnunarinnar.
     8.      Að fara með framkvæmd laga um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, þ.m.t. að sjá um rekstur, viðhald og tæknilega þróun landupplýsingagáttar.
     9.      Skráning, viðhald og miðlun örnefnagrunns í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Innihald gagnagrunnsins skal vera aðgengilegt og endurnot þess án gjaldtöku og í samræmi við ákvæði upplýsingalaga og laga um endurnot opinberra upplýsinga. Landmælingar Íslands skulu gera almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar.
     10.      Gerð, viðhald og miðlun stafrænna landupplýsingagrunna í samráði við viðeigandi stjórnvöld.
    Í samræmi við framangreint hlutverk Landmælinga Íslands sinnir stofnunin einnig umsagnarhlutverki samkvæmt sérlögum. Nánari upplýsingar um hlutverk Landmælinga Íslands má finna á heimasíðu stofnunarinnar www.lmi.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Landmælinga Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárveiting til Landmælinga Íslands samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 340,2 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð í verkefni stofnunarinnar en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.