Ferill 917. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Prentað upp.

Þingskjal 2003  —  917. mál.
Leiðrétting.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lögbundin verkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands.


     1.      Hvaða lögbundnu verkefnum sinnir Náttúrufræðistofnun Íslands?
    Meginhlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er að stunda undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins, annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands og varðveita niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum, sbr. lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Náttúrufræðistofnun Íslands býr yfir gagnabanka um náttúru landsins og hlutverk hennar er að hafa yfirsýn og veita ráðgjöf og leiðbeiningar um verndun og skynsamlega nýtingu náttúrunnar. Hún hefur einnig víðtækt vöktunar- og fræðsluhlutverk. Í 4. gr. laga nr. 60/1992 eru talin upp aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar:
     a.      að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands,
     b.      að varðveita náttúrugripi, ritsmíðar og önnur gögn á vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru,
     c.      að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda,
     d.      að styðja við uppbyggingu sýningarsafna um náttúrufræði með upplýsingum og ráðgjöf og miðla þekkingu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings,
     e.      að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna,
     f.      að vinna að rannsóknum á villtum stofnum spendýra og fugla,
     g.      að sjá um fuglamerkingar og hefur Náttúrufræðistofnun ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi,
     h.      að greina frá niðurstöðum rannsókna í fræðslu- og vísindaritum og lýsa meginþáttum í starfsemi stofnunarinnar í árlegri skýrslu,
     i.      að skrá berg- og jarðgrunna landsins með kerfisbundnum hætti og vinna að flokkun námasvæða eftir efni, magni, aðgengi, gæðum og verndargildi,
     j.      að skrá náttúruminjar, annast mat á verndargildi þeirra og hafa umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár,
     k.      að bera ábyrgð á vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru að því marki sem hún er ekki falin öðrum stofnunum með lögum eða reglum settum á grundvelli þeirra.
    Nánari upplýsingar um hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er aðallega að finna í lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd, lögum nr. 35/2007, um Náttúruminjasafn Íslands, lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007, lögum nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar, lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997. Upplýsingar um hlutverk stofnunarinnar er einnig að finna á heimasíðu hennar, www.ni.is.

     2.      Hver er áætlaður heildarkostnaður lögbundinna verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands og hver er áætlaður kostnaður hvers verkefnis samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020?
    Heildarfjárheimild Náttúrufræðistofnunar Íslands samkvæmt fylgiriti fjárlaga fyrir árið 2020 er 742,1 millj. kr. Fjárheimildin er ætluð til að sinna verkefnum stofnunarinnar en fjárheimildir stofnana eru ekki sundurliðaðar sérstaklega eftir lögbundnum verkefnum í fjárlögum.