Ferill 830. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2005  —  830. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ræstingarþjónustu.


     1.      Hvernig er ræstingu sinnt hjá ráðuneytinu og stofnunum þess? Óskað er sundurliðunar eftir stofnunum og að fram komi kostnaður árið 2019 þar sem þjónustan var aðkeypt og meðalfjöldi stöðugilda árið 2019 þar sem ræstingu er sinnt af starfsfólki á launaskrá.
    Við vinnslu svarsins var óskað eftir upplýsingum frá stofnunum ráðuneytisins og byggjast svör á upplýsingum frá þeim. Því getur verið mismunur á framsetningu svara og túlkun milli stofnana.

Kostnaður árið 2019 Fjöldi stöðugilda Skýring
Embætti landlæknis 2.674.786 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Geislavarnir 2.072.219 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Heilbrigðisráðuneytið 3.279.914 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Heilbrigðisstofnun Austurlands 3.985.263 14,8 Bæði aðkeypt þjónusta og ræstingu sinnt af starfsfólki stofnunarinnar
Heilbrigðisstofnun Norðurlands Ekki barst svar frá stofnuninni
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 19,4 Ræstingu er eingöngu sinnt af starfsfólki stofnunarinnar
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 38.055.368 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 20.723.479 12,9 Bæði aðkeypt þjónusta og ræstingu sinnt af starfsfólki stofnunarinnar
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 3.982.702 15,3 Bæði aðkeypt þjónusta og ræstingu sinnt af starfsfólki stofnunarinnar
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 77.539.704 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands 3.015.014 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Landspítali 566.900.000 26,7 Bæði aðkeypt þjónusta og ræstingu sinnt af starfsfólki stofnunarinnar
Lyfjastofnun 4.105.000 0 Eingöngu er um að ræða aðkeypta þjónustu
Sjúkrahúsið á Akureyri 6.400.000 19,5 Bæði aðkeypt þjónusta og ræstingu sinnt af starfsfólki stofnunarinnar
Sjúkratryggingar Íslands 1.000.088 1 Ræstingu er sinnt af starfsfólki nema í sumarleyfi, þá er þjónustan aðkeypt

     2.      Á hvaða hátt tryggir verkkaupi að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða í þeim tilvikum þegar ræstingu er útvistað?
    Ríkiskaup sá um útboð fyrir heilbrigðisráðuneytið. Í útboðsskilmálum Ríkiskaupa er gerð krafa um að verktaki tryggi að allir starfsmenn hans fái laun og starfskjör í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni og að aðstæður þeirra séu í samræmi við löggjöf á sviði vinnuverndar. Þá er áskilið að verktaki leggi fram gögn því til staðfestingar sé þess óskað.
    Eftirfarandi svör bárust frá stofnunum heilbrigðisráðuneytisins.

Embætti landlæknis: Til að tryggja að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða var embættið með samning við Hreint ehf. sem er stöndugt fyrirtæki og búið að vera á markaðnum í meira en 35 ár. Fyrirtækið hefur markað sér gæða- og umhverfisstefnu, er með jafnréttisáætlun og Svansvottun.

Geislavarnir: Geislavarnir skoða ekki sérstaklega hvort birgjar starfi án félagslegra undirboða.

Heilbrigðisstofnun Austurlands: Ekki fór fram útboð á framangreindri þjónustu, Fjarðaþrif samþykkti þá útreikninga sem HSA gerði á kostnaði við þrifin.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands svaraði ekki þessari spurningu.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja: Ríkiskaup sér um útboð fyrir hönd HSS og gilda útboðsskilmálar Ríkiskaupa í einu og öllu.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða:
Ekki er formlegt eftirlit með félagslegum undirboðum af hálfu stofnunarinnar eða beinlínis ákvæði um slíkt í samningnum. Samningar eru reglulega til endurskoðunar.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands svaraði ekki þessari spurningu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins:
Varðandi félagsleg undirboð er þess tryggilega gætt í núverandi útboðsgögnum í stöðluðum skilmálum útboðsgagna að ekki sé hægt að verða lægstbjóðandi með félagslegu undirboði. Um ítarlegar kröfur til bjóðenda er sérstaklega getið í útboðsskilmálum í kafla 1.5.10 Starfskjör. Vegna þessa ákvæðis er tryggt að ræstingar séu unnar í samræmi við gildandi kjarasamninga og almenn launakjör á íslenskum vinnumarkaði.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands:
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands kannar hvort þjónustuveitandi hafi vottanir um góða starfshætti, sé aðili að Samtökum atvinnulífsins o.fl. Núverandi þjónustuveitandi, ræstingarþjónustan Sólar, er félagi í SA, er meðlimur í samtökum um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja (Festu) og hefur Svansvottun er lýtur að starfsháttum og þjálfun starfsmanna.

Landspítali:
Í kröfulýsingu útboðsgagna er það krafa að unnið sé eftir gildandi kjarasamningum Eflingar. Strangar kröfur eru gerðar til verktaka um þekkingu og vottun í samræmi við staðalinn INSTA 800 og þau fyrirtæki sem bjóða þurfa að hafa reynslu og þekkingu á ræstingu sjúkrahúsa.

Lyfjastofnun: Gert er ráð fyrir að verksali greiði samkvæmt kjarasamningi Eflingar sem starfsmenn verksala eru í.

Sjúkrahúsið á Akureyri: Sjúkrahúsið á Akureyri stuðlar að aðgerðum gegn félagslegu undirboði með því að gera skriflegan þjónustusamning við þjónustufyrirtæki sem hefur skilgreint hvernig það tekst á við samfélagslega ábyrgð og er jafnlaunavottað.

Sjúkratryggingar Íslands: Ræstingu er ekki útvistað nema í sumarleyfi starfsmanns. Ekki hefur verið gripið til sérstakra aðgerða vegna möguleika á félagslegu undirboði.