Ferill 803. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2007  —  803. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Brynjari Níelssyni um kostnað ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?
     2.      Hver er heildarkostnaður ráðuneytisins við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi löggjafarþingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafa farið í að svara þeim?
     3.      Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?


    Ýmsir sérfræðingar ráðuneytisins koma að því að undirbúa svör við þingfyrirspurnum. Ekki hefur verið haldið sérstaklega utan um fjölda vinnustunda sérfræðinga við þessa vinnu, en svör við fyrirspurnum krefjast mismikillar vinnu, allt eftir eðli fyrirspurna. Þannig hefur heildartími við vinnu að svörum við einstökum fyrirspurnum verið mismikill, allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Því til viðbótar fer jafnan nokkur tími í skráningu og skipulagningu málanna auk rýni og yfirlesturs.
    Á yfirstandandi þingi hafa fram til þessa borist sautján fyrirspurnir frá þingflokki Pírata til fjármála- og efnahagsráðherra. Fyrirspurnirnar voru misumfangsmiklar en þrettán þeirra kröfðust aðeins einfaldrar upplýsingaöflunar. Aðrar fyrirspurnir kröfðust mun meiri tíma, m.a. vegna upplýsingaöflunar frá utanaðkomandi aðilum. Er það lauslegt mat ráðuneytisins að vinna við svör við fyrirspurnum þingflokks Pírata á yfirstandandi þingi samsvari um tveggja vikna vinnu sérfræðings í ráðuneytinu en þá er ekki með talinn tími og kostnaður stofnana ráðuneytisins við upplýsingaöflun.
    Á 145. til 150. þingi á árunum 2015–2020 bárust fjármála- og efnahagsráðuneytinu samtals 325 þingfyrirspurnir til skriflegs svars. Hlutfall fyrirspurna frá þingflokki Pírata var um 22% af heildarfyrirspurnum á tímabilinu. Í tveimur töflum hér á eftir má sjá annars vegar fjölda fyrirspurna eftir þingflokkum á tímabilinu 2015–2020 og hins vegar hvernig fyrirspurnir frá þingflokki Pírata deilast á milli þingmanna flokksins á tímabilinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.