Ferill 624. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2013  —  624. mál.
Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um áhrif erlendra ríkja á niðurstöður kosninga.


     1.      Veit ráðherra til þess að erlend ríki hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga á Íslandi með einhverjum hætti? Ef svo er, hvaða ríki, í hvaða kosningum og hvernig?
    Rétt er að benda á að framkvæmd kosninga og eftirlit með þeim er samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu málefna innan Stjórnarráðsins á borði dómsmálaráðuneytis. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra er hins vegar ekki kunnugt um að erlend ríki hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga á Ísland með beinum hætti.

     2.      Hefur ráðherra í huga að kanna hvort erlend ríki hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga á Íslandi og hyggst ráðherra leita til viðeigandi stofnana vinveittra ríkja sem hafa rannsakað slíkt?
    Utanríkisráðuneytið á í reglulegum samskiptum við bandalags- og nágrannaþjóðir Íslands um fjölþátta ógnir og upplýsingaóreiðu, sem eru metnar sem helstu leiðir sem erlend ríki kynnu að beita til að hafa áhrif á kosningar á Íslandi. Fulltrúar ráðuneytisins hafa jafnframt kynnt sér störf hjá Stratcom Centre of Excellence sem er staðsett í Riga í Lettlandi og hefur Ísland tekið þátt í að manna stöður á vettvangi Atlantshafsbandalagsins á þessu sviði, m.a. til að stuðla að því að efla reynslu og þekkingu á málaflokknum hérlendis.
    Á síðustu árum hafa bandamenn Íslands á Norðurlöndum, í Evrópu og NATO farið að fylgjast betur með hvernig nýrri tækni er beitt til að hafa áhrif á lýðræðislega ákvörðunartökuferla innan landanna. Með nýrri greiningartækni er mögulegt að aðlaga upplýsingaumhverfi að hverjum og einum og nýta þar með persónugreinanleg gögn til að vinna að framgangi ákveðinna pólitískra markmiða. Þær ógnir sem stafa af nýrri tækni og beinast gegn grunngildum okkar og lýðræðislegu ákvörðunartökuferli krefjast aðkomu og samhæfingar ólíkra stjórnvalda. Morgunverðarfundir um fjölþættar ógnir sem þjóðaröryggisráð stóð fyrir sl. haust auk ráðstefnu í lok febrúar eru jákvætt skref í þá átt og heldur sú vinna áfram.
    Utanríkisráðuneytið hefur upplýsingar um að stjórnvöld nágrannaríkja Íslands hafi gripið til aðgerða til að vakta kosningar, t.d. hafa Danir komið á laggirnar vinnuhópi undir forystu dómsmálaráðuneytisins sem einnig er skipaður fulltrúum úr utanríkis- og varnarmálaráðuneytum Danmerkur. Utanríkisráðherra telur ástæðu til að skoðað verði hvort ekki sé rétt að komið verði á sambærilegum vettvangi innan íslenska stjórnkerfisins. Umfang og verkefni slíks vettvangs hér á landi yrðu hins vegar að líkindum frábrugðin sams konar fyrirbærum í nágrannalöndunum vegna stærðar og uppbyggingar stjórnsýslu ríkjanna sem um ræðir og þess hlutverks sem öryggisstofnanir þessara landa þjóna í þessu samhengi.

     3.      Eru til skilgreindar boðleiðir, t.d. fyrir yfirvöld annarra ríkja, til þess að koma vitneskju um tilraunir til slíkra áhrifa til utanríkisþjónustunnar?
    Utanríkisráðuneytið á í reglubundnum samskiptum við utanríkisráðuneyti og varnarmálaráðuneyti annarra ríkja, m.a. á sviði fjölþættra ógna og netvarna þar sem tækifæri gefst til að miðla upplýsingum.

    Alls fóru 4 vinnustundir í að taka þetta svar saman.