Ferill 477. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2019  —  477. mál.




Svar


utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um birtingu alþjóðasamninga.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir samningar við önnur ríki og aðra þjóðréttaraðila, sem Ísland hefur fullgilt að þjóðarétti, bíða þess að vera
                  a.      þýddir á íslensku,
                  b.      birtir í C-deild Stjórnartíðinda?
        Óskað er að fram komi hvaða samninga um ræðir og hvenær fullgilding hvers samnings fór fram.
     2.      Hvað líður að meðaltali langur tími frá því að Ísland hefur fullgilt samning við önnur ríki og aðra þjóðréttaraðila að þjóðarétti þar til hann er birtur í C-deild Stjórnartíðinda?
     3.      Eru samningar við önnur ríki og aðra þjóðréttaraðila birtir á sama tíma í prentaðri og rafrænni útgáfu C-deildar Stjórnartíðinda?


    Síðastliðinn áratug hefur dregið úr birtingu þjóðréttarsamninga í C-deild Stjórnartíðinda. Koma þar til nokkrar ástæður, en eftir efnahagshrun var dregið verulega úr fjármunum til þessara verkefna og forgangsröðun birtinga endurskoðuð þannig að lögð var áhersla á að birta samninga þar sem birting væri nauðsynleg forsenda réttaráhrifa. Þannig hafa t.d. samningar um upplýsingaskipti og tvísköttunarmál verið birtir, samningur um réttindi fatlaðs fólks og nýverið var birtur samningur um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.
    Allir samningar sem fullgiltir eru hafa verið þýddir á íslensku. Að meðaltali eru um 25–30 samningar fullgiltir á hverju ári og á síðustu tólf árum hafa verið birtir um 5–7 samningar að meðaltali ár hvert. Því má áætla að um 300 samningar bíði birtingar í C-deild Stjórnartíðinda frá árunum 2007–2018. Vinna stendur yfir við birtingu allra samninga frá 2019 og verður henni lokið næstkomandi haust.
    Snemma árs 2020 var ákveðið að ráðast í átaksverkefni til þess að hefja vinnu við samningsskjöl fyrri ára til frágangs og birtingar í Stjórnartíðindum og samþykkti ríkisstjórn framlag af ráðstöfunarfé til verksins. Vegna heimsfaraldurs hefur aðgerðaáætlun verkefnisins tafist, en undirbúningur er hafinn og miðað við að uppsafnaðir samningar verði birtir á næstu þremur árum.
    Tíminn sem líður frá fullgildingu samnings til birtingar hans í Stjórnartíðindum helgast því nokkuð af því hvort birting hefur í för með sér bein réttaráhrif. Þar sem nokkuð hefur safnast af óbirtum samningum undanfarinn áratug geta liðið 10–12 ár frá því að samningur er fullgiltur þar til auglýsing um fullgildingu hans birtist í Stjórnartíðindum. Þegar hins vegar birting skiptir máli vegna réttaráhrifa er auglýsingu og birtingu hraðað, m.a. var samningur sem birtur var með auglýsingu 2/2020 31. janúar sl. undirritaður örfáum dögum áður.
    Birting Stjórnartíðinda er rafræn og réttaráhrif bundin við rafræna útgáfu skv. 7. gr. laga 15/2005.

    Alls fóru 2 vinnustundir í að taka þetta svar saman.